Helgarsprokið 16. ágúst 2009

228. tbl. 13. árg.
F yrir nokkru kynnti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra skýrslu um hvernig ná megi jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum. Frá hruni bankakerfisins á síðasta ári hefur verið ljóst að staða ríkisins væri hrollvekjandi eins og Vefþjóðviljinn fjallaði meðal annars um fyrir miðjan október. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks neitaði að horfast í augu við þennan vanda við afgreiðslu fjárlaga ársins 2009 með þeim afleiðingum að halli af rekstri ríkisins á árinu verður vel á annað hundrað milljarða króna. Voru þau viðbrögð í góðu samræmi við fyrri gerðir þeirrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem þandi út útgjöld umfram ævintýralega tekjuaukningu og neitaði að horfast í augu við að fjármálakerfið væri um það bil að sigla í strand.

Margt bendir því miður til að farið hafi verið úr öskunni í eldinn þegar núverandi stjórnarmynstur komst á. Við almennt úrræðaleysi hefur nú bæst sú sannfæring stjórnvalda að einstaklingar hafi ekki frumrétt til að ráðstafa sjálfsaflafé sínu, heldur hafi þeir það einungis að láni frá ríkinu. Þegar halli myndast á rekstri ríkisins blasi því við að sækja meira af þessu fé, sem í raun sé eign ríkisins, til skattgreiðenda. Í skýrslu fjármálaráðherra er þessi stefna skýrð og rökstudd. Í skýrslu fjármálaráðherra er fjallað er um möguleika á því að draga saman útgjöld ríkisins. Um slíkar aðgerðir er almennt fjallað í neikvæðu ljósi. Ljóst er að skýrsluhöfundar hafa fyrirfram gefið sér að jöfnuði í ríkisfjármálum yrði fyrst og fremst náð með skattahækkunum. Til dæmis segir:

„Opinber þjónusta er þess eðlis að hún beinist fyrst og fremst að þeim sem helst standa höllum fæti svo sem í heilbrigðiskerfinu og tryggingakerfinu og er stór hluti þeirra lífsgæða sem þeir njóta eða þá að um er að ræða mikilvæga samfélagslega uppbyggingu svo sem í skólamálum, menntun og rannsóknum. Mikil skerðing á þessum sviðum getur því lagt óeðlilega mikinn þunga af afleiðingum kreppunnar á viðkvæma þjóðfélagshópa og skert raunveruleg kjör þeirra í óeðlilega miklum mæli og hlutfallslega meira en annarra eða þá tafið mikilvæga uppbyggingu fyrir framtíðina og dregið úr möguleikum á framtíðarvexti.“

Af þessu er ljóst að skýrsluhöfundar telja útilokað að gera grundvallarbreytingar á útgjaldafrekustu þáttum ríkisreksturs, þ.e. almannatryggingum, heilbriðgðisþjónustu og skólamálum. Ekki er rökstutt hvernig lækkun útgjalda á þessum sviðum geti „tafið mikilbægu uppbyggingu fyrir framtíðina og dregið úr möguleikum á framtíðarvexti“. Útgjöld almannatrygginga hafa aukist hröðum skrefum undanfarin ár, hugsanlega sumpart vegna aukins hraða á vinnumarkaði og breyttra atvinnuhátta. Við hrunið má búast við að atvinnuhættir færist að einhverju leyti til fyrra horfs og því má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að leitað sé leiða til að útgjöld almannatrygginga endurspegli þá breytingu. Heilbrigðisþjónusta er þess eðlis að í hana er unnt að verja eins miklu fé og nokkurn lystir. Mikilvægt er hins vegar að ákveða hvar mörkin eru dregin. Því miður er það þannig að alltaf er hægt að benda á að aukið fé myndi auka lífslíkur og lífsgæði, en það hlýtur að skipta máli hversu mikið fé er til ráðstöfunar. Vandséð er að ekki megi spara í heilbrigðismálum án þess að það komi niður á möguleikum Íslands til framtíðar. Útgjöld til menntamála hafa vaxið gríðarlega síðustu ár. Talsverður hluti þess fjár fór í að mennta „hið vel menntaða fólk“ sem starfaði í bönkunum. Getur verið að í menntakerfinu megi ef til vill taka talsvert til hendinni.

Í skýrslunni er haldið áfram að tala fyrir skattahækkunum frekar en sparnaði:

„Athugun sem gerð hefur verið af fjármálaráðuneytinu á mismun áhrifa 10 milljarða útgjaldalækkunar annars vegar og hækkunar á sköttum bendir til þess að lækkun útgjalda um þá fjárhæð fremur en hækkun skatta um sömu fjárhæð myndi draga úr hagvexti.“

Gott og vel: Líkan fjármálaráðuneytisins gefur til kynna að u.þ.b. 3% hækkun á sköttum hafi minni neikvæð áhrif á hagkerfið en 2% lækkun útgjalda. Nú er það óvart þannig að til að ná jöfnuði í ríkisrekstri þarf annað hvort u.þ.b. 30% lækkun útgjalda eða u.þ.b. 40% hækkun skatta. Ef við gefum okkur að eitthvað vit sé í niðurstöðum líkans ráðuneytisins, er þá líklegt að lítil jaðarbreyting hafi sömu áhrif eins og stökkbreyting? Að því sögðu má gera ráð fyrir að niðurstöður athugana fjármálaráðuneytisins séu álíka áreiðanlegar og álagspróf fjármálaeftirlitsins á bankana fyrir hrun.

Almennt ber skýrslan þess merki að vera lögð fram af ríkisstjórn sem hefur engan skilning á því að undirstaða velmegunar er þróttmikið atvinnulíf, þar sem starfar fólk sem leggur hart að sér og uppsker samkvæmt því. Það getur litið vel út í kosningabæklingum að láta eins og allir geti fengið allt fyrir ekkert. Einnig getur verið að búa megi til stærðfræðilíkön til að styðja þá kenningu að betra sé að hækka skatta en draga úr umsvifum hins opinbera. En þegar allt kemur til alls munu þeir sem geta og vilja vinna einfaldlega kjósa með fótunum ef með þarf.