N ú er Samfylkingin aftur farin að hóta vinstrigrænum stjórnarslitum. Að þessu sinni ef þeir hlýða ekki og láta íslenska skattgreiðendur ábyrgjast Icesave-skuldir Landsbankans. Samfylkingin virðist líta svo á, að hún hafi fengið þingsæti vinstrigrænna framseld sér og það varanlega. Samfylkingin treystir á að vinstrigrænir séu svo blindaðir af heift út í stjórnarandstöðuna, að þeir trúi því aftur og aftur að Samfylkingunni sé alvara með stjórnarslitahótuninni. En auðvitað sæti ríkisstjórnin áfram þó Icesave-ánauðin yrði ekki lögð á landsmenn.
Vinstrigrænir hafa nú í hálft ár fengið að reyna samstarfsflokkinn Samfylkingu. Það er ófögur reynsla. Málum er þjösnað áfram, eingöngu eftir vilja Samfylkingarinnar. Lítilsháttar töfum er mætt með öskrum og görgum, jafnvel á göngum þinghússins. Ekkert er gert með skoðanir svokallaðra samstarfsmanna. Þannig var ekki linnt látum fyrr en búið var að þvinga nægilega marga vinstrigræna til að greiða atkvæði, þvert gegn margra ára eigin baráttu og sannfæringu, með því að Ísland afsalaði sér fullveldi sínu og óskaði inngöngu í Evrópusambandið. Jafnvel undir atkvæðagreiðslunni voru þingmenn vinstrigrænna kallaðir út, og hertar á þeim þumalskrúfurnar. Hvernig var svo aftur látið í vetur þegar seðlabankastjórafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur var til „meðferðar“? Þá sat minnihlutastjórn í skjóli Framsóknarflokksins. Þegar einn þingmaður flokksins, sem sat í þeirri þingnefnd sem hafði málið til meðferðar, vildi fá nánari upplýsingar svo málið tafðist um einn nefndarfund, þá gekk allt af göflunum. Þingfundir voru hreinlega felldir niður þar til búið var að beygja manninn og voru þó á dagskrá ýmis mál sem tengdust stöðunni í efnahagsmálum og áður höfðu þótt mjög áriðandi.
En Samfylkingin getur gengið svona fram, þar sem hún má treysta því að fréttamenn gera engar athugasemdir við framgöngu hennar. Jafnvel augljós ósannindi eru látin óátalin. Þegar Samfylkingin ærðist yfir töfum á seðlabankastjórafrumvarpinu, stóðu fréttamenn þétt að baki hennar. Þingfréttaritari Ríkisútvarpsins taldi vitanlega að vondi karlinn í málinu væri þingmaður Framsóknarflokksins, sem aðeins hafði viljað fá eina skýrslu lagða fyrir þingnefnd. Þingmaðurinn var kallaður í yfirheyrslu í Kastljósi þar sem honum, en ekki Samfylkingunni, var margkennt um að nú væri allt upp í loft.
Sama á við núna. Núna láta menn eins og það séu vinstrigrænir sem ógni stjórnarsamstarfinu með því að hika áður en þeir gefast upp og samþykkja Icesave-ánauðina. Engum fréttamanni dettur í hug að hér sé einfaldlega á ferð venjuleg samfylkingarheift. Auðvitað mun Samfylkingin ekki rjúfa stjórnarsamstarfið þó ekkert verði af því að Icesave-ánauðin verði lögð á landsmenn. Samfylkingin er í draumaríkisstjórn. Hún situr með flokki sem kyngir öllu og samþykkir allt, af ótta við stjórnarslit. Samfylkingin mun ekki slátra þeirri gullgæs. Og ætli ekki verði nú bið á því að aðra flokka langi til samstarfs við Samfylkinguna að sinni.