Miðvikudagur 12. ágúst 2009

224. tbl. 13. árg.
We are freezing the assets of Icelandic companies in the U.K. where we can.
– Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands á ögurstund í hagsögu Íslands síðasta haust.

F yrir tveimur árum staldraði Vefþjóðviljinn við nýlega yfirlýsingu frá Össuri Skarphéðinssyni þess efnis að hann hefði greitt félagsgjöld í breska Verkamannaflokkinn frá námsárunum. Engu virtist breyta fyrir Össur þótt Verkamannaflokkurinn tæki ákvörðun um það sem íslenskir vinstri menn kölluðu framan af „ólögmætt árásarstríð“ gegn Saddam Hussein. Össur reyndist staðfastur stuðningsmaður „stríðsherranna“ og greiddi félagsgjöldin áfram.

Nú stendur Össur í ströngu sem utanríkisráðherra Íslands. Einhver gæti haldið að hann ætti í mestu ati við Gordon Brown leiðtoga breska Verkamannaflokksins, manninn sem notaði hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki og stofnanir og sagðist frysta eigur Íslendinga hvar sem til þeirra næðist. En slagsmál Össurar um þessar mundir eru fyrst og fremst við nokkra þingmenn vinstri grænna sem vilja ekki að Íslendingar verði hnepptir í Icesave-ánauð Gordons Browns. Þeim hótar hann stjórnarslitum gangi þeir ekki að afarkostum breskra stjórnvalda.

Greiðir Össur enn félagsgjöld í flokk Browns?

Vefþjóðviljanum er kunnugt um að Össur hafi verið inntur eftir því í sumar en farið undan í flæmingi.

Og svo önnur spurning frá forvitnum þegnum ríkis gjaldeyrishafta: Þarf utanríkisráðherra að sýna farseðil þegar hann kaupir sterlingspund til að senda helstu andstæðingum Íslendinga?