Helgarsprokið 2. ágúst 2009

214. tbl. 13. árg.

F áum er eins oft stefnt fyrir dóm og íslenska ríkinu. Menn stefna því til að fá bætur fyrir hvaðeina sem á dynur enda þarf oft lítið til að menn telji á sér brotið. Sumir hafa góð og gild rök, aðrir eru hefðbundnir meinlokumenn. En hver sem ástæða málaferlanna er, þá er eitt sem málin eiga sameiginlegt. Hvort sem málið snýst um óþarfa handtöku, ólögmæta uppsögn eða læknamistök á Landspítalanum, þá gaf ríkið sig ekki fyrirfram, heldur vísar mönnum einfaldlega á dómstólana með kröfur sínar. Hvort sem málstaður ríkisins er studdur gildum rökum eða glötuðum, þá ver það sig grimmilega fyrir dómstólum. Gamlar konur sem eru öryrkjar eftir smávægilega aðgerð fagmannanna á Landspítalanum mega búast við því að þurfa að lemja sig í gegnum tvö dómstig, auk matsmanna og yfirmatsmanna, áður en ríkið samþykkir að borga grænan eyri.

Þessi harka ríkisins er ekki endilega neitt aðfinnsluverð. Þó bótakrefjendum þyki reyndar að ríkið mætti stundum vera samningaliprara, og að það gæti þannig sparað báðum aðilum tíma og peninga, þá er lítið við því að segja að ríkissjóður vilji ekki ódæmdur borga umdeildar kröfur.

En á þessari varnaráráttu forsvarsmanna íslenska ríkisins er stór og mikil undantekning. Þegar kemur að stærstu kröfu sem nokkru sinni hefur verið sett fram á hendur íslenska ríkinu, þá hittist svo á að við völd er ríkisstjórn sem alls ekki vill verjast kröfunni. Talmenn íslenska ríkisins leggja höfuðáherslu á rök andstæðinga ríkisins, en svara fullum hálsi þeim sem taka málstað Íslands. Það kom svo sem ekki á óvart, miðað við andann á stjórnarheimilinu og hjá talsmönnum stjórnvalda utanhúss, að gömlum og nýjum pólitískum andstæðingum sé svarað með fúkyrðum þegar þeir hvetja til þess að hagsmunir Íslands séu varðir. En meira að segja Eva Joly, sem tekin hefur verið í helgra manna tölu í íslenskri þjóðfélagsumræðu, án þess að hafa gert nokkuð sérstakt hér á landi, fær yfir sig gusur frá stjórnarherrunum þegar hún tekur í sama streng.

Framganga stjórnvalda við að fá Icesave-ánauðina samþykkta er stórmerkileg. Þau eru svo eindregið á bandi erlendra ríkja í deilunni að slíkt er nær óþekkt um stjórnir fullvalda ríkja. Meira að segja Vichy-stjórnin hefði líklega staðið sig betur. Viðskiptaráðherrann skrifar og skrifar að „við“ getum örugglega borgað Icesave-ánuðina, en hefur færri orð um það hvernig standi á því að „okkur“ beri að gera það. Forsætisráðherra talar á blaðamannafundum um að ríkið verði að standa við „Icesave-skuldbindingarnar“, án þess að nokkrum viðstöddum detti í hug að spyrja hverjar þær skuldbindingar séu nákvæmlega og hvenær aðili, sem til þess hafi verði bær, hafi réttilega gefið þær. En að vísu verður að taka fram að á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar sitja bara þrír ráðherrar og svo íslenskir fréttamenn, svo menn ættu ekki að gera sér of miklar vonir um að kjarni nokkurs máls komi þar til tals.

Vefþjóðviljinn er vitaskuld algerlega andvígur því að ódæmt taki íslenska ríkið á sig Icesave-ánauðina. En það er ekki vegna einhverra útreikninga á því hvort ríkið geti eða geti ekki borgað ánauðina. Meginatriðið er einfaldlega að það hefur ekki verið sýnt fram á íslenska ríkinu beri að greiða þessar skuldir einkafyrirtækis. Einhverra hluta vegna eru það vinstriflokkarnir í landinu, auk annarra þeirra sem ekki mega sjá evrópska stórþjóð án þess að lúta höfði og hvísla „Mikil borg, Brussel“, sem engum mótmælum hreyfa við því að íslenska ríkið beri ábyrgð á samningum sem einkafyrirtæki gerði við erlenda einstaklinga í erlendu landi. Sömu aðilar hyggjast svo, eftir að þeir hafa barið slíka ábyrgð í gegn, kenna „frjálshyggjunni“ um það til æviloka.

Íslenska ríkið fær kröfur á hverjum degi. Íslenskum borgurum, örkumluðum eftir sakleysislegar aðgerðir á Landspítalanum, er sagt að fara í mál en fá ekki krónu ella. Breskir og hollenskir borgarar, sem lögðu sparifé sitt í erlendan netreikning til að fá aðeins hærri vexti en á hefðbundnum bankareikningum, við þá er samið fljótt og vel um hundraða milljarða ábyrgðir. Þegar lagt er til að þau mál verði eins og önnur leyst fyrir dómstólum, þá er því svarað að það hafi raunar verið nefnt í viðræðunum en því miður hafi útlendingarnir ekki viljað það.