S víar hafa tilkynnt að þeir ætli ekki að standa við gerða samninga um lán til Íslands, þar til Ísland hafi uppfyllt skilyrði sem alls ekki eru í lánasamningnum. Svíar ætla þannig ekki að halda gerða samninga við Íslendinga úr því þeir standa enn uppi í hárinu á voldugum Evrópuríkjum sem vilja fá út úr þeim peninga, án þess að slík greiðsluskylda hafi verið leidd í ljós.
Svíar eru einmitt ein sú þjóð sem íslenskir Evrópusinnar nefna oftast að Íslendingar muni eiga að, þegar inn í Evrópusambandið verður komið. Þó Ísland sé lítið land, þá standi Norðurlöndin alltaf saman sem eitt, þegar á reyni. Því verði áhrif Íslands meiri en menn myndu annars halda.
Það var líka gríðarlega mikilvægt að Ísland sendi inngöngubeiðni í Evrópusambandið á meðan sænskir vinir þess væru þar í forsæti. Þá myndi allt ganga hraðar og gáttir opnast.
Að vísu hafa þeir fréttamenn sem höfðu þetta á takteinum áður en Alþingi lét undan og samþykkti inngöngubeiðni, ekki nefnt þetta einu orði síðan.
SS töð 2 fullyrti í gær að nokkrir nafngreindir viðskiptamenn hefðu staðið í verulegum „fjármagnsflutningum“ frá landinu, í gegnum Straum, síðastliðið haust. Þeir hafa nú komið fram og mótmælt þessu eindregið og hótað málsókn. Fréttastofan segist standa við allt, en hefur enn ekki lagt neitt fram til sannindamerkis.
Þetta mál má vera áminning til þeirra sem taka þátt í fjölmiðlaumræðu þessara öfgatíma, hvort sem er með fréttaflutningi, æsibloggum eða á annan hátt, að hafa hemil á fullyrðingagirninni og reyna að fullyrða ekki meira en þeir vita og geta sýnt fram á að sé rétt. Menn ættu líka að hafa í huga, að gaspur getur haft áhrif, og ekki alltaf góð áhrif, á þá sem verða fyrir því að heyra það eða lesa. Sumir fara nú um og vega að heimilum fólks eða skemma aðrar eignir, fyrir utan hvernig vegið er að æru nafngreinds fólks í fjölmiðlum en ekki síður í netskrifum. Alls kyns fólk, í misjöfnu ástandi, fylgist með umræðunni og dregur af henni sínar ályktanir.
Þeir sem fara mikinn í umræðunni ættu að hafa í huga að orð geta verið dýr. Með því er hins vegar ekki sagt að menn geti ekki tjáð sig og lýst bæði staðreyndum og persónulegum skoðunum sínum. Þeir verða hins vegar að reyna að gæta þess að rugla því tvennu ekki saman, sem og að reyna að fullyrða ekki fyrirvaralaust meira en þeir beinlínis vita og geta staðið við. Auðvitað geta menn gert mistök í því eins og öðru, farið „fram úr sér“, en menn eiga samt að reyna að gera sitt besta, einkum á æsingatímum.
Eða, eins og spurt var á dögunum: Hvernig halda menn að þjóðmálaumræðan hefði orðið á tíma Hafskips-málsins, ef þá hefði verið búið að finna upp bloggið? Vilja menn vita það?