Fimmtudagur 30. júlí 2009

211. tbl. 13. árg.

T vennt frá núverandi forsætisráðherra, sem fæstir fjölmiðlar hafa auðvitað áhuga á.

Á Alþingi segir ráðherrann eitt og annað. Þann 9. febrúar síðastliðinn var Jóhanna Sigurðardóttir spurð hvort ríkisstjórnin myndi hækka skatta. Og svaraði hiklaust

En að halda því fram að nú eigi að hækka skatta, kannski á næstu mánuðum eða svo, er fjarstæða. Það er fjarstæða að halda því fram.
Vel má vera að í áætlununum sem við þurfum að gera til næstu fjögurra ára þurfi kannski að fara bæði í niðurskurð og skattahækkanir

Þetta var í febrúar og þá voru skattahækkanir á næstunni fjarstæða. Tvítekið að það væri fjarstæða. Strax eftir kosningar var blásið til sumarþings og skattar hækkaðir strax. Skattar á laun hækkuðu, skattar á nauðsynjavöru eins og eldsneyti ruku upp, með tilheyrandi hækkun vísitölu og þar með lána, og svo framvegis. Og hvaða fjölmiðlar rifja upp loforð forsætisráðherrans frá því í febrúar?

Núna í maí var Jóhanna spurð hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði fyrir framhaldi efnahagsáætlunar og láns til íslenska ríkisins, að Ísland undirgengist Icesave-ánauðina. Og því fór nú aldeilis fjarri.

Það er nauðsynlegt að það komi fram að það var alls ekki þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða fulltrúar hans hafi sett þetta sem eitthvert skilyrði, eins og mér fannst hv. þingmaður setja það upp, það er bara langt í frá að þeir hafi gert það. Það var meira að segja undirstrikað að þeir væru ekki að setja fram neitt skilyrði í því efni þó að þeir segðu að það væri betra að búið væri að ganga frá Icesave-samningunum áður en endurskoðunin færi fram. Það er alveg ljóst.

Og hvaða athygli ætli fjölmiðlar veiti þessu? Lítill hefur áhuginn verið á því fram að þessu að Jóhanna hafi á þingi lofað því að hækka ekki skatta, örskömmu áður en ríkisstjórn hennar keyrði stórfelldar skattahækkanir í gegnum þingið. Ætli það breytist nokkurn tíma? Ætli Björn Malmquist hlaupi til og geri samanburðarfrétt, núna þegar hann þó hefði tilefni til? Eða verður bara látið nægja að segja af og til í „fréttaskýringum“ að Jóhanna sé „svo heiðarleg“.

Amx.is hefur sagt frá þessum málum, en aðrir fjölmiðlar hafa flestir haft minni áhuga.