E nn heldur spuninn áfram varðandi þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki greiddu atkvæði með áframhaldandi fullveldi landsins, við atkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið. Sá þingmaður sem greiddi beinlínis atkvæði gegn fullveldinu telur þá frammistöðu sína sérstakt styrkleikamerki Sjálfstæðisflokksins og stuðningsmenn hins þingmannsins telja hjásetu hans líka hið mesta snjallræði, þó útskýringar á því verði eðli málsins samkvæmt talsvert flóknari. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu og afsal fullveldis snýst um grundvallaratriði. Hún er ekki hefðbundið dægurmál þar sem skoðanir eru skiptar og enginn ætlast til að heill þingflokkur verði undantekningarlaust að tala einni röddu. Forysta Sjálfstæðisflokksins verður í slíku grundvallarmáli að standa einörð á bak við margítrekaða stefnu flokksins. Öllum er frjálst að vinna að því að breyta stefnunni, en takist það ekki geta menn vart senn verið í forystusveitinni og ætlað sér í slíku grundvallarmáli að starfa eftir stefnu sem flokkurinn hefur ekki. Hugsi menn sér nú að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu bara alls ekki stutt veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og sumir kannski viljað sjá hvort betri kostir byðust í varnarmálum með samningum við einhverja aðra. Hefði það þótt sérstakt styrkleikamerki flokksins og til þess fallið að auka trú á málstað hans?
Í gær sagði Morgunblaðið frá því að íslenskur tónlistarmaður, einn forkólfa hinnar mjög vinsælu hljómsveitar, Sigur Rósar, hefði sent frá sér nýja plötu ásamt sambýlismanni sínum. Hefðu þeir að mestu tekið plötuna upp heima hjá sér, við Laugaveginn, en brugðið sér til Hawaii á lokasprettinum til að leggja lokahönd á verkið. „Það gerðu þeir í hráfæðiskommúnu, settu upp fartölvur sínar og hljóðbúnað – allt knúið af sólarrafhlöðum, en vinnan fór alla jafna fram í opnu rými, veggjalausu, til að ná sem mestri nálægð við náttúruna.“ Því miður kemur ekki fram í fréttinni hvernig þeir komust frá Íslandi til Hawaii, en líklega hafa þeir farið á seglskipi og siglingin þá einnig verið nýtt til hvalaskoðunar.