Mánudagur 20. júlí 2009

201. tbl. 13. árg.

F yrir nokkru leysti ríkisbanki til sín hlutabréf í Flugleiðum. Fyrir fáum dögum krafðist bankinn svo hluthafafundar svo fulltrúar ríkisbankans gætu tekið við stjórn félagsins.

Félagið hefur nú tilkynnt óvænta breytingu á starfsemi sinni: Beint flug til Brussel. Höfðingjarnir vilja ekki þurfa að skipta um vél á leiðinni.

Í gær hélt áfram spuninn vegna núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og leiddu fréttamenn fram „aðjúnkt í stjórnmálafræði“ sem taldi framgöngu varaformannsins í Evrópusambandsmálinu ekki veikja stöðu hans, gott ef ekki þvert á móti því nú myndu einhverjir „þjappa sér að baki hennar“. Sami sérfræðingur var spurður um stöðuna í vinstrigrænum og taldi að þar væru nú ekki merkilegar deilur, að minnsta kosti enn sem komið væri: „Það birtust nú tölur í gær að það hefðu ekki verið nema tuttugu úrsagnir úr flokknum á föstudeginum, þannig að viðbrögðin hafa ekki verið hatrammari en þetta. Flokkurinn á eftir að funda. Það er flokksráðsfundur í lok sumars, lok ágúst og þar verður þetta eflaust umdeilt“, sagði Silja Bára Ómarsdóttir og var titluð „aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands“.

Já það er aldeilis fínt að hafa hlutlausa sérfræðinga. Reyndar er þessi aðjúnkt einmitt tilvalinn fræðimaður þegar kemur að væntanlegum flokksráðsfundi vinstrigrænna, því Silja Bára Ómarsdóttir situr einmitt í því sama flokksráði. Þar að auki hefur hún gengt ýmsum fleiri mikilvægum embættum og ber þar væntanlega hæst hið valdamikla embætti „ráðskonu atvinnu- og stjórnmálahóps Femínistafélags Íslands“.

Þannig að það er skiljanlegt að hún sé leidd fram sem sérfræðingur um lífið í vinstrigrænum og stöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

H venær ætli fréttamenn átti sig á því að menn leggja yfirleitt ekki stjórnmálafræði fyrir sig sem ævistarf, af því að þeir hafi svo lítinn áhuga á stjórnmálum? Af því að menn séu svo hlutlausir.