Miðvikudagur 22. júlí 2009

203. tbl. 13. árg.

E itt furðuverka ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar síðasta haust var að færa útlán til íslenskra fyrirtækja úr þrotabúum gömlu bankana yfir í nýju ríkisbankana. J.P.Morgan hafði hins vegar lagt til að aðeins greiðslumiðlun og innlán yrðu færð yfir og gefið út skuldabréf fyrir innlánunum. Í stað þess voru útlánin einnig dregin yfir í nýju bankana. Þar með fór líklega fram ein mesta þjóðnýting fyrirtækja í einu landi á 21. öld. Þetta hefur enga athygli hlotið. Stuttu síðar voru fulltrúar stjórnmálamanna farnir að ákveða flugleiðir til og frá landinu. Fyrir hreina tilviljun var flug til Brussel fyrsta breytingin á leiðakerfinu.

Þessi undur höfðu það auðvitað einnig í för með sér að semja þurfti við kröfuhafa gömlu bankana – eftir að eignir þeirra, útlánin, höfðu verið færðar yfir í nýju ríkisbankana.

Uppskeran af því starfi liggur nú fyrir. Gömlu bankarnir eignast þá nýju að verulegu leyti með vænum slurk af milljörðum frá íslenskum skattgreiðendum í meðgjöf. Það virðist vera eina ráðið sem núverandi ríkisstjórn hefur þegar hún situr mállaus og skjálfandi andspænis hinum skelfilegu fulltrúum erlendra kröfuhafa og ríkisstjórna.

Á tæpu ári hafa bankarnir og yfirráð yfir skuldum stærstu fyrirtækja landsins þannig skipt tvisvar um hendur í einhverju óðagoti við furðulegar aðstæður. Fyrst var allt heila klabbið þjóðnýtt að nóttu og svo einkavætt aftur fyrir luktum dyrum í samningum við erlenda kröfuhafa. Einkavæðing bankanna hvað?

Hvað ætli sé langt þangað til eina áhugaverða spurningin um árin 2008 og 2009 verði einfaldlega: Hvers vegar létu menn málin ekki ganga sína eðlilegu leið?

Hvers vegna voru þessi ágreiningsefni úr viðskiptalífinu, erlendar kröfur á bankana og Icesave, ekki látin fara venjulega leið fyrir dómstóla í stað þess að færa þau inn á borð til stjórnmálamanna?