A lveg er magnað að fylgjast með framgöngu forráðamanna vinstrigrænna sem þessa dagana virðast hafa sömu viðhorf gagnvart eigin trúverðugleika og slökkviliðsmenn hafa gagnvart eldi. Þeir vilja einfaldlega ráða niðurlögum hans með öllum tiltækum ráðum og láta allt annað lönd og leið.
Ætli vinstrigrænir átti sig á því hvílíkt og varanlegt stórtjón þeir vinna á trúverðugleika sínum nú á hverjum degi? Og fyrir hvað? Fyrir heitasta baráttumál krata – ekki sitt eigið. Þetta er svo furðulegt að það er erfitt að finna viðeigandi orð um undrunarefnið.
Ef að vinstrigrænir væru nú að brenna upp trúverðugleika sinn vegna þess að þeir hefðu séð færi á að ná fram einhverju heitu langtímabaráttumáli sjálfra sín; það væri á einhvern hátt hægt að skilja það. Segjum til dæmis að vinstrigrænir hefðu fyrir kosningar lofað að hindra ekki alla stóriðju og lofað að auka ekki ríkisútgjöld til félagsmála nema svo og svo mikið, en kæmust svo til valda og ákveddu þá að grípa tækifærið og framfylgja ítrustu draumum sínum og láta trúverðugleikann einfaldlega lönd og leið. Það hefði auðvitað verið óheiðarlegt og ekki réttlætanlegt – en það hefði þó mátt skilja hvað vakti fyrir þeim. Það væri mannlegt að vissu leyti að láta drauminn rætast, þá loksins tækifærið gæfist.
En núna eru vinstrigrænir hins vegar að fórna trúverðugleika sínum varanlega – fyrir heitasta baráttumál kratanna. Er einhver sem skilur hvað hefur eiginlega gripið þá? Hafa þeir svona gersamlega misst sjónar af veruleikanum við það að komast í ríkisstjórn? Þeir eru að fórna því sem stjórnmálaflokki er dýrmætast, til að Samfylkingin fá draum sinn uppfylltan. Og í kaupbæti fær Samfylkingin líka þá ósk sína uppfyllta, að það sem þessi keppinautur þeirra á vinstrivængnum hefur hingað til haft fram fyrir hana, trúverðugleikinn, hverfur nú. Samfylkingin fær „allt fyrir ekkert“, eins og á þeim bæ hefur stundum verið sagt í Evrópumálum.
Og sá langtímadraumur kratanna sem vinstrigrænir fórna nú öllu til að rætist, hann er ekki eitthvað sem alltaf má breyta aftur seinna. Vinstrigrænir eru ekki að samþykkja einkavæðingu fyrirtækis, niðurskurð þjónustu eða lækkun skatta eða neitt slíkt. Nei, þeir velja algerlega óafturkræfa hluti eins og afsal fullveldis með Evrópusambandsaðild og afsal fjárræðis með Icesave-skuldbindingu. Fyrir þetta brenna þeir trúverðugleika sinn.
Og þeir eru ekki einu sinni að brenna trúverðugleika sinn fyrir eitthvað sem þeim er sama um. Nei þeir að brenna hann til að ná fram málum sem þeir sjálfir, að ekki sé minnst á meginþorra stuðningsmanna þeirra, eru algerlega á móti. Þetta er algerlega óskiljanlegt, hvernig sem á þetta er horft.
Þessa daga verður fólk einfaldlega vitni að gersamlega ótrúlegum hlutum í stjórnmálum, sem verða óskiljanlegir um alla framtíð. Hvað hefur eiginlega komið yfir vinstrigræna?
E n hvaða áhyggjur hefur Vefþjóðviljinn af trúverðugleika vinstrigrænna? Af hverju er honum ekki sama um að þeir brenni hann, krötum til hita?
Auðvitað mega vinstrigrænir almennt brenna trúverðugleika sinn í friði fyrir Vefþjóðviljanum. En ekki þegar þeir gera það með þessari óafturkræfu aðferð. Evrópusambandsinnganga og Icesave-ánauðin verða einfaldlega ekki aftur tekin. Og þess vegna verður að koma vitinu fyrir vinstrigræna, jafnvel þó það verði til þess að trúverðugleiki flokksins fái gálgafrest.
F rá árinu 2007 og fram á þetta ár, 2009, sat Árni Þór Sigurðsson alþingismaður í stjórn Heimssýnar, félags sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Nú er honum sem formanni utanríkismálanefndar Alþingis gert að mæla fyrir og koma í gegnum Alþingi tillögu um inngöngubeiðni í Evrópusambandið.
Hvor aðilinn ber eiginlega minni virðingu fyrir Árna Þór Sigurðssyni, Samfylkingin með því að hika ekki við að heimta þetta verk af honum og tryllast af reiði ef það gengur ekki nógu hratt fyrir sig, eða Árni Þór Sigurðsson fyrir að taka það að sér?
Það að Árni Þór Sigurðsson, ötull stjórnarmaður í Heimssýn, fái þau fyrirmæli að knýja inngöngubeiðni í Evrópusambandið gegnum þingið, er sambærilegt við það og ef heilbrigðisráðherranum Ögmundi Jónassyni yrði skipað að banna opinberum heilbrigðisstarfsmönnum að vera í BSRB.
Og svo heillum horfnir eru vinstrigrænir þessa dagana, að kannski tæki Ögmundur það að sér, ef kratarnir væru nógu æstir þegar þeir skipuðu honum fyrir þann daginn.