Helgarsprokið 12. júlí 2009

193. tbl. 13. árg.

U m ríflega átta ára skeið leyndi það sér ekki að flestir vestrænir fjölmiðlar voru mjög andsnúnir forseta Bandaríkjanna. Frá upphafi leit næstum út eins og hann hefði gert þeim eitthvað persónulega. Alveg frá því að í ljós kom að góður möguleiki væri á því að hann brygði fæti fyrir langþráðan draum margra fjölmiðlamanna að Al Gore kæmist í eigin nafni í Hvíta húsið og gæti þar talað frá morgni til kvölds um hlýnun jarðar og friðun hvala, hafa vestrænir fjölmiðlar hamast á því að George W. Bush sé hinn versti maður; í senn illa innrættur og fífl, með óða menn í kringum sig og heimskur sjálfur. Ómögulegur ræðumaður og asnalegur á svipinn líka. Um þetta snerust fréttaskýringar í rúm átta ár og minnti stundum á hörkuna í sumum þessara sömu fjölmiðla, tuttugu árum áður, við að sanna að Ronald Reagan væri elliært fífl sem með stríðsæði sínu myndi valda heimsendi, sem ekki þyrfti að koma á óvart enda væri hann ómenntaður kjáni sem aldrei hefði getað neitt nema leika í bíómyndum – sem vel að merkja hefðu verið lélegar. Meira að segja fyrstu dagana eftir árásirnar á Bandaríkin ellefta september héldu fjölmiðlar áfram í sama dúr. Bush hlyti að hafa kallað þetta yfir Bandaríkin einhvern veginn og svo brást hann alveg vitlaust við þegar honum voru færðar fréttirnar. Og svo er hann fífl.

Einhvern veginn svona hömuðust gáfuðu mennirnir á vestrænu fjölmiðlunum í átta ár. Á Íslandi var Morgunblaðið einna harðast í þessum söng, ef Spegill Ríkisútvarpsins er ekki talinn með því hann skekkir allan samanburð. Bæði er að Morgunblaðið hefur undanfarin ár verið skelfilegt rétttrúnaðarblað, þó vissulega hafi það færst mjög skarpt í aukinn kratisma á allra síðustu mánuðum, en einnig kemur til að aðstoðarritstjóri blaðsins er einn harðasti demókrati Vesturlanda að Barack Obama ekki undanskildum, og trúir líklega enn að Gore hafi í raun verið rétt kjörinn árið 2000.

Heiftin, og hin einlæga trú vestrænna blaðamanna á það að Bush hafi verið hinn versti maður, stóð allt til loka forsetatíðar hans. Tökum örlítið og sárasaklaust dæmi um þennan hugsunarhátt, sem lesendur eru nú væntanlega lausir við þangað til næsti stefnufasti repúblikani nær næst kjöri. Í stuttri og meinlítilli frétt Morgunblaðsins af forsetaskiptunum í vetur segir svo

George W. Bush, fráfarandi forseti, virðist hafa gert sitt besta til að greiða fyrir valdaskiptunum. Þegar stjórn Clintons fór frá völdum voru unnin ýmis skemmdarverk í Hvíta húsinu og meðal annars fjarlægðir allir hnappar með stafnum W af lyklaborðum. Starfslið Bush hefur hins vegar lagt kapp á að aðstoða arftaka sína þótt ljóst sé að þeim muni fylgja nýjar og gjörólíkar áherslur. Sennilega ráða það miklu þau gríðarlegu vandamál sem bíða nýs forseta, bæði heima fyrir og erlendis.

Reyndar er hér mjög dregið úr þeim skemmdarverkum sem demókratar unnu á Hvíta húsinu áður en Bush flutti þangað inn. Hurðir voru brotnar, veggir rispaðir og einstaka húsgögn eyðilögð, en hvað um það. Það sem er svo dæmigert fyrir vestræna blaðamenn og hugmyndir þeirra um annars vegar repúblikana og hins vegar demókrata, er niðurlagið. Það liggur fyrir að demókratar unnu barnaleg spjöll á hinu og þessu í Hvíta húsinu, þó Bush hafi þegar hann tók við ákveðið að það skyldi engin eftirmál hafa. Þegar Bush lét af völdum og svarinn andstæðingur hans tók við, þá lagði Bush sig fram um að valdaskiptin gengju vel, eins og auðvitað eðlilegt var. Hann á ekki skilið neitt sérstakt hrós fyrir það, þetta á einfaldlega að vera sjálfsagður hlutur. En blaðamaður Morgunblaðsins trúir því einfaldlega ekki. Jafnvel í þessu hlýtur Bush að vera hinn versti maður. Morgunblaðið kemur því með sérstaka skýringu frá eigin brjósti, til að útskýra hvers vegna Bush hafi ekki rifið upp teppi, eyðilagt hurðalæsingar og rispað vegglista: „Sennilega ráða það miklu þau gríðarlegu vandamál sem bíða nýs forseta, bæði heima fyrir og erlendis.“ Nei, Morgunblaðið bara trúir því ekki að Bush geti verið eðilegur maður en ekki hefðbundinn ruddi. Eins og til dæmis menntuðu fagmennirnir hans Clintons.

Þetta er líka saklaust dæmi sem má stundum hafa til útskýringar á hlutdrægni fjölmiðlamanna. Auðvitað er hlutdrægnin stundum komin af því að fjölmiðlamaðurinn vill sýna tiltekinn mann, flokk eða málstað í sem bestu ljósi, eða sem verstu ljósi, vill halda máli lifandi eða þagga mál niður, en stundum er hlutdrægnin komin til af saklausari ástæðum, þó afleiðingin geti verið slæm eftir sem áður. Það er engin ástæða til að blaðamaður Morgunblaðsins, sem skrifaði litu fréttina um forsetaskiptin, eða yfirmaður hans á blaðinu sem hefur lesið hana yfir, hafi setið og velt vöngum yfir því hvernig þeir gætu komið höggi á Bush. Þessi athugasemd blaðamannsins hefur einfaldlega komið til af því að honum hefur hreinlega ekki dottið annað í hug, en að eitthvað sérstakt hlyti að hafa valdið því að Bush greiddi fyrir valdaskiptum í staðinn fyrir að hegða sér nákvæmlega eins og Clinton og hans menn.

Stundum er hlutdrægni fréttamanna af sömu rót runnin. Þeim finnst oft sem þeir séu alls ekki hlutdrægir. Þeir halda raunverulega stundum að hlutdrægar fréttir þeirra séu í raun sanngjarnar – fréttin snýst um það sem þeim sjálfum finnst vera aðalatriði málsins og þeir spurðu um allt það sem þeim fannst ástæða til að spyrja um. Það er ekki þannig að fréttamenn komi saman á leynifundum, beinlínis til að leggja á ráð um það hvernig þeir geti afbakað raunveruleikann. En það sem þeir senda út og prenta er ákaflega oft ósanngjarnt, hlutdrægt og skakkt – og í yfirgnæfandi meirihluta tilvika er það ósanngjarnt, hlutdrægt og skakkt. Oft, en því miður alls ekki alltaf, er það hins vegar hlutdrægt, ósanngjarnt og skakkt, án þess að fréttamaðurinn sem í hlut átti hafi vitandi vits ætlað sér að gera hlutdræga, ósanngjarna og skakka frétt.

Það er ákaflega mikilvægt að fréttamönnum sé sýnt öflugt og rökstutt aðhald. Eitt besta sem íslenskum fréttamönnum, og þar með áhorfendum og lesendum þeirra, hefur í raun verið gert, er bókaflokkur Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004-2007. Dæmin sem þar eru rakin og rökstudd eru mjög til þess fallin að opna augu og auka skilning. Þær bækur ættu allir fréttaáhorfendur og blaðalesendur að eiga – kynna jafnframt fyrir öðrum. Það er alger nauðsyn að bæta mjög íslenska fréttamennsku og þetta er vís leið til þess. Bækurnar fást í Bóksölu Andríks.