Í síðustu viku eyðilagði maður nokkur einbýlishús og bifreið, sem var í annarra eigu, en hann hafði sjálfur átt á síðasta ári. Ekki fór á milli mála hvoru megin velvild og áhugi fréttamanna, einkum Ríkisútvarpsins, lá. Síðastliðinn vetur voru „fréttamenn“ sem gagnrýnislausar fylgdarkonur „mótmælenda“, hvar sem þeir fundust. Ríkisútvarpinu tókst aldrei, allan veturinn, að kalla skemmdarverkamenn réttum nöfnum og aldrei voru „mótmælendur“ spurðir einnar einustu gagnrýnu spurningar og aldrei krafðir svara um heimildir sínar til að skemma eigur og trufla störf fólks. Stöð 2 tókst einu sinni að kalla hlutina réttum nöfnum, það var þegar „mótmælendum“ varð það á að eyðileggja kapal sem var í eigu Stöðvar 2. Annars aldrei.
Það væri nú aldeilis skemmtilegt ef fréttamönnum tækist að koma því inn hjá einhverju fólki núna, að stórfelld skemmdarverk séu bara allt í lagi, ef menn bara eru reiðir sjálfir.
E kki fór milli mála að kvikmyndin Draumalandið fékk minni athygli en aðstandendur hennar höfðu vænst. Fréttastofa Ríkisútvarpsins reyndi í gær að koma henni inn í umræðuna með sérstakri frétt um sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi væri boðið á sýningu á henni og svo var í „fréttinni“ fjallað um sitthvað sem sagt væri í myndinni. Eftir sveitarstjórnarmanni var haft að hann væri ekki viss um að hann færi – og á textavarpi Ríkissjónvarpsins, þeim furðulega hlutdræga miðli, stóð svo allan daginn fyrirsögnin „Draumalandið umdeilt.“