Helgarsprokið 21. júní 2009

172. tbl. 13. árg.

Þ ví miður eru ekki nægilega margir stjórnmálamenn sem um þessar mundir segja það hreint út að ekki megi hneppa þjóðina í skuldaánauð eins og þá sem fylgir svonefndum samningi við Breta og Hollendinga um Icesave. Það hefur auðvitað áhrif að forystuflokkurinn í ríkisstjórninni telur ekkert mega tefja inngöngu Íslands í ESB, það megi jafnvel kosta slíkan skuldabagga. Aðrir fylgismenn aðildar að ESB telja einnig flestir að íslenska ríkið eigi ekki aðra kosti en beygja sig undir vilja ESB í Icesave málinu og gangast í ábyrgðir fyrir innistæðutryggingarkerfið sem sett var upp að tilskipan ESB. Íslenskir embættismenn telja málið hið vandræðalegast fyrir sig á fundum með kollegum erlendis og vilja ljúka því sem fyrst. Er þar komin ein ástæða enn til að setja takmarkanir á flandur þeirra á kostnað skattgreiðenda.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og formaður þjóðhátíðarnefndar setti þjóðhátíðina í vikunni með ávarpi á Austurvelli. Þar vék hann meðal annars að skuldabagganum innan um allt hitt:

Fyrir 65 árum var lýðveldinu Íslandi valinn stofndagur á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Hann sannfærði þjóðina um að hún gæti, ætti og yrði að standa á eigin fótum. Frændur okkar Danir voru ekki blóðþyrstir nýlendukúgarar, en áhugi þeirra á þessari eldfjallaeyju úti í hafsauga var takmarkaður og það stóð landi og þjóð óhjákvæmilega fyrir þrifum. Jón forseti gerði sér grein fyrir að aðeins með sjálfstæði gæti þjóðin laðað fram hið besta hjá sjálfri sér og lifað góðu lífi af nytjum lands og sjávar. Á þeim forsendum komst þjóðin frá örbirgð til allsnægta á tveimur mannsöldrum og það var ekki síst fyrir orð Jóns, sem þjóðin lýsti yfir sjálfstæði hinn 17. júní 1944.

Þegar við héldum þjóðhátíð í fyrra skein sól í heiði og sumrið brosti við okkur. Engan óraði fyrir því gjörningaveðri, sem átti eftir að dynja yfir. Áföllin voru mörg og þung, sum nánast óskiljanleg, hver sögulegur viðburðurinn elti annan — meðal annars hér á Austurvelli — og geðshræring, ótti og bræði settu mark sitt á samfélagið. Hvenær hremmingunum lýkur veit enginn og máske finnst sumum tæpast tilefni til hátíðarhalda, en það er rangt. Það er einmitt ástæða til þess að fagna því sem við höfum þrátt fyrir öll áföllin; að minnast þess sem sameinar okkur, stappa stálinu hvert í annað og mæta þessum þjóðarvanda sem ein, órofa þjóð.

Við megum ekki gefast upp fyrir vandanum, það skuldum við sjálfum okkur, börnunum og Íslandi. Sjálfstæðisbaráttunni lauk ekki fyrir 65 árum. Henni hefur aldrei lokið og máske aldrei verið harðari en einmitt þessa dagana. Lýðveldið er veikara en nokkru sinni og nú vofir yfir sú hætta að þjóðin verði að ósekju hneppt í skuldaánauð. Það má ekki gerast. Lífskjör eiga vafalaust eftir að rýrna á Íslandi á næstunni. Út úr þeirri lægð þurfum við að vinna okkur, eins og við höfum allar forsendur til. En þó lífskjörin dali um stundarsakir er ekki þar með sagt að lífsgæðin minnki sjálfkrafa. Við verðum að gæta þess að þrengingarnar bitni ekki á börnum landsins eða þeim sem höllum fæti standa, en um leið gefst okkur tækifæri til þess að meta að verðleikum þau lífsgæði, sem okkur hættir við að líta á sem sjálfsögð. Jafnvel hér í borginni er fögur og óspillt náttúran aldrei fjarri. Það eru feykileg lífsgæði út af fyrir sig, rétt eins og hreina loftið og tæra vatnið. Reykjavík var nýlega útnefnd grænasta borg í heimi og er hreinust 14 borga á Norðurlöndum, en sérstaða okkar felst í því að hér reisum við velmegun á landsins gæðum án þess að það bitni á náttúrunni.

Íslendingar eru orkurík og orkufrek þjóð, en það gerir gæfumuninn að þrjá fjórðu hluta orkunotkunar okkar sækjum við í hreinar og endurnýtanlegar orkulindir. Þrátt fyrir hrunið er Ísland enn í efstu sætum lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna, þjóðin er hraust með frábært mennta- og heilbrigðiskerfi, hér er lýðræði og borgararéttindi með mesta móti (eins og raunar má heyra) og löggæslunni getum við þakkað að Ísland er eitt öruggasta land í heimi. Umfram allt felast þó lífsgæði og auðlegð þjóðarinnar í henni sjálfri, hér býr vel menntuð, harðdugleg og áræðin þjóð, sem ekki gefst upp þótt móti blási. Þetta eru raunsönn lífsgæði og í þeim felast sóknarfærin til þess að við getum efnt grundvallarskyldur okkar við land og þjóð: að búa börnum okkar og komandi kynslóðum betra Ísland.