Laugardagur 20. júní 2009

171. tbl. 13. árg.

Í gær minntist Vefþjóðviljinn stuttlega á Katrínu Jakobsdóttur varaformann vinstrigrænna, sem og þá staðreynd að fréttamenn hafa engan áhuga á því, að svo virðist sem Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra fari með ósannindi í opinberum yfirlýsingum. En Katrín og áhugaleysi fréttamanna geta líka farið saman.

„Eins og margir muna voru hagsmunir Baugs og Norðurljósa helsta kosningamál Samfylkingarinnar í síðustu þingkosningum“ skrifaði Katrín Jakobsdóttir á sínum tíma og lét endurbirta í bók á síðasta ári, eins og áður hefur verið minnst á.

Enginn fréttamaður spyr ráðherra og varaformann vinstrigrænna um það í hverju það hafi komið fram að hagsmunir Baugs og Norðurljósa hafi verið helsta kosningamál Samfylkingarinnar, en það ætti nú að þykja forvitnilegt, sérstaklega í ljósi þess að Katrín er nú sest í ríkisstjórn með Samfylkingunni og kemur hoppandi af ánægju á alla ríkisstjórnarfundi.

En allir fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á því að hún hafi kennt dægurlagatexta í „háskóla unga fólksins“. Það finnst þeim áhugavert.

R íkisstjórnin kynnti í fyrradag stórfelldar skattahækkanir en nær engan niðurskurð ríkisútgjalda að máli skipti. Morgunblaðið bregst ekki væntingum. Forsíðufyrirsögnin við þessar aðstæður: Ríkisstjórnin sýnir á spilin.

„Þau tíðkast hin breiðu spjótin“, hefði Atli Ásmundsson nú sagt um slíka forsíðu, ef þau á Bjargi hefðu ekki verið búin að segja upp áskriftinni eins og aðrir.