Föstudagur 19. júní 2009

170. tbl. 13. árg.

Í Viðskiptablaðinu í gær var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur að hún væri ekki komin með það á hreint „hvað það merkir að Hollendingar megi ganga að eigum íslenska ríkisins verði ekki staðið við lánasamning vegna Icesave.“

Nei auðvitað er hún ekki búin að fá það á hreint. Hún er nú bara ráðherra og varaformaður annars stjórnarflokksins. Svo er hún búin að vera upptekin við að kenna dægurlagatexta í „háskóla unga fólksins“, eins og fjölmiðlar fengu sendar ítrekaðar fréttatilkynningar um, með boði um að koma og mynda ráðherrann við kennslustörfin.

Á dögunum var vakin athygli á því, að sterkar líkur væru á því að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefði farið með vísvitandi ósannindi í opinberri yfirlýsingu. Hefur einhver fréttamaður sýnt því áhuga? Nei, enda væri bara um að ræða ósannindi ráðherra í opinberum yfirlýsingum. Hvaða fréttamaður gæti haft áhuga á því?

Þ egar Bandaríkjamenn, Bretar, Ástralir og fleiri réðust inn í Írak, nefndu bandarískir ráðamenn að þeir vonuðust til þess, að þegar tekist hefði að koma á lýðræði í Írak þá hefði þar með verið sáð lýðræðisfræjum í þessum heimshluta og fljótlega færi almenningur í næstu löndum hægt og bítandi að bera sig eftir lýðræði. Þetta þótti „sérfræðingum í málefnum Miðausturlanda“, sem eru vinsælir í vestrænum fréttatímum, sýna algert skilningsleysi á heimshlutanum.

Lýðræði er nú tekið að festast í sessi í Írak, með velheppnuðum kosningum. Svo vill til, að í Íran hópast fólk nú tugþúsundum saman á göturnar og krefst lýðræðis sér til handa. Vestrænir fjölmiðlar hafa það eftir sérfræðingum í málefnum Miðausturlanda að skýringin sé einkum sú, að hinum almenna Írana þyki Barack Obama svo flottur.

M illi  þess sem íslenska ríkisstjórnin gerir samninga um hundraðamilljarða greiðslur íslenskra skattgreiðenda til erlendra aðila, fitjar hún upp á nýjum sköttum á landsmenn til að hjálpa þeim út úr vandræðunum. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar eru hins vegar fæstar í nokkru sérstöku samhengi við efnahagsástandið, þó efnahagsástandið sé notað sem yfirvarp þegar ráðherrarnir láta gamla drauma rætast. Þannig ætlar Jóhanna Sigurðardóttir nú að keyra í gegn fyrirvaralausa skattahækkun á alla þá sem eru með ríflegar millitekjur og þaðan af hærra, Ögmundur Jónasson ætlar að skattleggja sælgæti og í hina áttina kemur svo eins og þruma úr heiðskíru lofti prýðileg lækkun á sóknargjöldum. Ekkert af þessu kemur efnahagsástandinu við. Jóhanna Sigurðardóttir hefur á löngum stjórnmálaferli verið mjög á móti því að fólk komist upp úr lágtekjuhópum og vill ná til þess liðs með öllum tiltækum ráðum. Ögmundur vill ala borgarana upp og sælgætisát er tóm vitleysa. Og sóknargjaldalækkunin er í raun auðvitað ekki hugsuð til að létta undir með neinum heldur sáu vinstrigrænir einfaldlega færi á fá svolitla útrás fyrir andúð sína í garð kirkjunnar.