Fimmtudagur 18. júní 2009

169. tbl. 13. árg.

F rá fyrsta degi hafa kjörorð þessarar útgáfu verið þau að þjóðir hafi ekki vilja. Líklega hafa þau aldrei átt brýnna erindi en nú.

Til valda eru komnir stjórnmálamenn sem hika ekki við að segja þjóðina vilja hitt og þetta og að þjóðin krefjist eins og annars. Þetta kemur kannski ekki á óvart því þeir ruddu sér leið til valda með þeim orðum að þjóðin vildi nýja stjórn, sem reyndist svo minnihlutastjórn og að loknum þingkosningum höfðu nýju stjórnarflokkarnir minna fylgi en þeir gömlu fengu í sömu kosningum. Forsætisráðherrann stofnaði einnig prívat stjórnmálaflokk á sínum tíma sem hún kenndi við þjóðina.

Þessi umræða um hinn sameiginlega vilja og þrá þjóðarinnar hefur náð nýjum hæðum undanfarna daga í umræðum um Icesave málið. Þar kemur hver kerfiskratinn af öðrum fram á vettvang og fullyrðir að við getum ekki hlaupist frá skuldbindingum okkar í Icesave. Forsætisráðherra notaði þennan talsmáta í þjóðhátíðarávarpi sínu þar sem hún mælti þeirri óbærilegu niðurlægingu bót sem nokkrir kokteilpinnar úr utanríkisþjónustunni ætla íslenska ríkinu að undirgangast eftir svokallaða samninga við breska og hollenska ríkið. Að Jóhanna Sigurðardóttir skuli nota þennan dag til að sannfæra landsmenn um að íslenska ríkið eigi að taka á sig skuldbindingar sem ekkert bendir til að það geti staðið undir sýnir áður óþekkt smekk- og metnaðarleysi.

Í fyrsta lagi var það aðeins Tryggingasjóður innistæðueigenda sem tók á sig skuldbindingar vegna innlána íslenskra banka erlendis. Íslenska ríkið gerði það ekki því þá hefði ekki verið þörf á sérstökum iðgjöldum fjármálafyrirtækja í tryggingasjóðinn. Hvað þá að við höfum undirgengist slíkar skuldbindingar vegna viðskipta banka í einkaeign og þeirra gírugu sparifjáreigenda sem vildu leggja fé sitt í netbanka sem þeir þekktu lítt til í þeirri von að fá örlítið hætti vexti.

Í öðru lagi ættu hvorki breska né hollenska ríkið að vera aðilar að deilu tryggingasjóðsins, þrotabús Landsbankans og sparifjáreigenda. Ríkin eru einfaldlega orðin það vegna þrýstings sem breskir og hollenskir stjórnmálamenn voru beittir heima fyrir. Hinir þrír réttu aðilar hefðu átt að leysa sín mál með siðuðum hætti í stað þess að blanda stjórnmálamönnum í málið. En það var kannski óraunhæft að stjórnmálamenn gætu stillt sig um að blanda sér í krísu af þessu tagi.

Ef eitthvað gagn væri að hinni svonefndu Evrópusamvinnu í Evrópusambandinu og á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins hefði mál af þessu tagi verið leyst þannig að allir gætu gengið sáttir frá borði. Sér í lagi þegar málið varðar tilskipun Evrópusambandsins um mikilvæg mál og fjármálastöðugleika í álfunni. En í stað þess að vera farvegur fyrir sameiginlega lausn málsins var Evrópusamvinnan notuð sem lurkur á íslensk stjórnvöld og íslensk stjórnvöld beygð til að leysa málið með samningi sem er útgjaldalítill fyrir ESB en óbærilegur fyrir íslenska skattgreiðendur.