Miðvikudagur 17. júní 2009

168. tbl. 13. árg.
Annar annmarkaflokkur rís af því, að verzlan Íslands er bundin við eitt land, en bægt frá viðskiptum við öll önnur. Þetta er móthverft öllu eðli verzlunarinnar og allrar menntunar, því þar er grundvölluð á framför og velgengni mannkynsins, að hver býti öðrum gæðum þeim, sem hann hefir, og allir styðji eftir megni hver annan. Þegar syndgað er móti þessari reglu og boðorði náttúrunnar sjálfrar, þá er hegníng viss hverri þjóð, sem það gjörir, og hegníng sú er skömm og skaði hennar sjálfrar. Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verzlanin þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verzlanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þángað sem hún getur fengið það, sem hún girnist, eða hún færir einni þjóð gæði annarrar.
– Jón Sigurðsson, Um verzlun á Íslandi, Ný félagsrit 3. árg. 1843.

J ón Sigurðsson skildi margt sem vafist hefur fyrir sumum sporgöngumönnum hans. Jón áttaði sig á því að frjáls verslun milli ólíkra þjóða væri það sem best væri til þess fallið að bæta lífskjör fjöldans. Jón áttaði sig á því, að einstaklingurinn á að treysta sem mest á sjálfan sig og minnst á hið opinbera um frumkvæði og framtak, og Jón skildi það mætavel að þá hefði Íslendingum vegnað best þegar þeir hefðu átt sem mest viðskipti við önnur lönd – en hann bætti jafnframt við, að það yrði að vera við mörg en ekki bara eitt.

Það er misjafnt hversu vel síðari tíma stjórnmálamenn Íslands skilja þessi sannindi sem voru Jóni Sigurðssyni augljós. Nú sitja Íslendingar uppi með stjórnvöld sem sjá það helst til ráða að skattleggja borgarana en mega ekki til þess hugsa að draga úr opinberum umsvifum, nú sitja Íslendingar uppi með stjórnvöld sem halda að frjáls viðskipti milli þjóða séu vís vegur til að hneppa fjöldann í fátækt, og nú sitja Íslendingar uppi með stjórnvöld sem sjá landinu ekki aðra von betri en að láta lima það inn í erlent tollabandalag en fela ókosnum útlendum embættismönnum að nýju öll mikilvægustu völd í landinu.

Það getur verið að áróðurssíbylja undanfarinna missera hafi náð að rugla stóran hóp Íslendinga svo í ríminu að nú vilji þeir ekki lengur halda á lofti merki Jóns Sigurðssonar. Það liggur eiginlega við að Vefþjóðviljinn voni að svo sé, því ef Íslendingar vilja í raun halda merki Jóns Sigurðssonar á á lofti, þá sitja þeir nú uppi með þá stjórnendur sem virðast allra manna verst til þess fallnir.

Og það er ekki þjóðhátíðarleg tilhugsun.

Hugsum frekar um eitthvað annað. Allir í bæinn. Lítil börn með blöðru, hin eldri snafs og reyk.