Þriðjudagur 16. júní 2009

167. tbl. 13. árg.

E inu sinni héldu menn að vinstrigrænir væru öðruvísi vinstrimenn en aðrir. Að þeir störfuðu í stjórnmálum vegna hugsjóna; þeir segðu það sem þeir meintu og meintu það sem þeir segðu. Vinstrigrænir væru ekki menn sem segðu eitt fyrir kosningar en annað eftir þær.

Það var þá, þetta er nú.

Þeir sem fyrir kosningar kusu vinstrigræna í trausti þess að einmitt þeim væri treystandi til að færa ekki evrópskum krötum fullveldi Íslands og til að tryggja að íslenskir skattgreiðendur yrðu ekki látnir taka á sig mörg hundruð milljarða króna ábyrgðir vegna innlána íslensks einkabanka, sitja nú uppi með það að ef ekki væri fyrir vinstrigræna, þá yrði hvorugt að veruleika.

Þeir sem í vor kusu vinstrigræna í góðri trú um að þeim væri treystandi í þessum mikilvægustu málum síðari tíma, þeir eru nú jafn sárt leiknir og stuðningsmenn Baracks Obama hefðu orðið ef fyrsta verk Obamas hefði verið að gera Richard Cheney að varnarmálaráðherra og ráðast inn í Íran.

Eini kosturinn við það hve bersýnilega forysta vinstrigrænna ætlar að selja sjálfa sig og flokkinn er að héðan í frá mun enginn vitiborinn maður nokkurn tíma gruna vinstrigræna um orðheldni og heiðarleika. Verst hvað það yrði dýrt fyrir landið að fá þetta rétta andlit þeirra í ljós.

Í gær flutti fréttastofa Ríkisútvarpsins áheyrendum sínum þennan fróðleik, án þess að sjá neitt athugavert:

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, óskar Íslendingum góðs gengis í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Stoltenberg er á fundi forsætisráðherra Norðurlanda á Egilsstöðum og var í gærkvöld spurður hverju það breytti ef Íslendingar sæki um aðild.Stoltenberg sagðist óska Íslendingum til hamingju með hugsanlega aðildarumsókn. Sjálfur sé hann fylgjandi aðild Noregs að ESB en sættir sig við þá niðurstöðu sem kemur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Norðmenn hafa tvisvar fellt aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu en Stoltenberg segist vonast til þess að efnt verði til þeirrar þriðju.

Það er einmitt svona sem Evrópusambandssinnar virða þjóðaratkvæðagreiðslur sem þeir tapa. Með því að halda nýjar.