Mánudagur 15. júní 2009

166. tbl. 13. árg.

R íkisstjórnin er ósammála um hvort sækja eigi um að aðild að Evrópusambandinu, en annar stjórnarflokkurinn telur það mikilvægasta mál Íslands en bæði ráðherra og þingflokksformaður hins stjórnarflokksins berjast gegn málinu. Sumir þingmenn þess stjórnarflokks hafa auk þess ekki enn lofað að svíkja kjósendur sína í málinu, þó Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir muni fara létt með það. Ríkisstjórnin er heldur ekki sammála um hvort íslenskir skattgreiðendur eigi að gangast í ábyrgðir vegna Icesave-reikninga, sem næmi hundruðum milljarða króna og enginn veit hverju miklum. Samfylkingin telur þetta mjög áríðandi mál en bæði ráðherra og þingflokksformaður hins stjórnarflokksins berjast á móti og sumir þingmenn flokksins hafa heldur ekki enn lofað að svíkja kjósendur sína hér, þó Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir muni auðvitað fara létt með það.

En ríkisstjórnin er sammála um að hækka skatta, banna nektardans og að Sjálfstæðisflokkurinn sé óskaplega vondur. Svo það er ekkert óeðlilegt við að ríkisstjórnin sitji áfram. Hún er líka bara búin með einn mánuð af fjörutíu og átta.

Í síðustu viku var hér sagt frá útkomu sumarheftis Þjóðmála og því haldið fram að þar kenndi margra grasa. Tínum þrjú.
Þórdís Bachmann skrifar snaggaralega grein þar sem hún fer yfir ýmis afreksverk forseta Íslands síðustu mánuði og misseri. Sem dæmi úr greininni má taka þetta.

Í byrjun apríl kom svo enn ein ástæða til þess að grípa um höfuðið. Tilefnið þá var samúðarkveðja til forseta Ítalíu, en síðasta málsgrein hennar hlýtur að toppa alla ónærgætni: „Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur í dag sent forseta Ítalíu Giorgio Napolitano samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðarinnar vegna hörmunganna sem orðið hafa í kjölfar jarðskjálftanna í Abruzzo … Forseti vék einnig í kveðjunni að rannsóknum Íslendinga á sviði jarðskjálfta og hinu öfluga viðvörunarkerfi sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar hefðu þróað. Sú þekking gæti verið framlag Íslendinga til þjóða sem byggju við hættu á jarðskjálftum.“
Með öðrum orðum: Æ, voru konan og börnin að farast í bílslysi? Ég er hérna með frábæra bremsuklossa!

Í Þjóðmálum er einnig fjallað um tvær þeirra bóka sem fást í Bóksölu Andríkis. Hinn þjóðkunni rithöfundur, Stefán Máni, höfundur Skipsins, fjallar um bókina Nótt eftir Nóbelsverðlaunahafann Elie Wiesel. Segir Stefán Máni að þegar Wiesel takist „best upp nær Nótt listrænum hæðum sem jafnast á við hið besta í fagurbókmenntum tuttugustu aldar“. Og Stefán Máni bætir við: „Nótt er mögnuð bók og eftirminnileg, nauðsynleg lesning hverjum hugsandi manni. Hún vakti mig til umhugsunar um margt og kenndi mér sitthvað fleira. Ég veit núna að við mennirnir erum þannig saman settir að okkur er um megn að trúa því sem satt er ef það er nógu fáránlegt, nógu ljótt, nógu djöfullegt. Ég veit að eldi og brennisteini rignir jafnt yfir réttláta og rangláta, trúaða jafnt og trúlausa.“

Og í Þjóðmálum fjallar Eiður Guðnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins, sendiherra og fréttamaður, um síðustu fjölmiðlabók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2007.

Eiður, sem sjálfur var lengi fréttamaður Ríkissjónvarpsins, segir að Fjölmiðlar 2007 séu bók sem allir fjölmiðlamenn eigi að lesa. Hann segist hafa lesið bókina „eiginlega eins og reyfara og skemmti mér vel. Hafði áður lesið tvær af þremur fyrri bókum höfundar um sama efni.“

Eiður segir réttilega að fjölmiðlar kalli sig fjórða valdið og segist eigi að líta eftir öðrum valdhöfum. En hann spyr í framhaldi af því: „En hver á að gæta varðanna? var spurt í Róm. Hver á að gæta hagsmuna fólksins gagnvart fjölmiðlunum? Því er ekki auðsvarað. Umboðsmaður alþingis, umboðsmaður neytenda? Fram til þessa hefur Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður, gert það allra manna best. Hann er naskur að finna veilur í vondum fréttaflutningi, setja fram skýr dæmi um villur og óvönduð vinnubrögð og færir allajafna góð rök fyrir máli sínu. Ég er ekki sammála öllu sem hann skrifar. Það er aukaatriði. Hann bendir hinsvegar á grafalvarlegar misfellur í upplýsingamiðlun fjölmiðla, slök vinnubrögð og svo vonda fréttamennsku að undrun sætir.“

Eiður tiltekur fjölmargt sem honum þótti áhugavert í bók Ólafs Teits. Hann nefnir sem dæmi að víða „rekur Ólafur Teitur hagsmuna- vina- og kunningjatengsl í sambandi við birtingu og umfjöllun frétta. Tengsl sem þorri hlustenda veit ekkert um. Margt kom mér þar á óvart.“ Hann segir að „gagnrýni hans [eigi] í langflestum tilvikum við sterk rök að styðjast. Það er kannski þess vegna að ekkert íslenskt dagblað eða ljósvakamiðill hefur birt gagnrýni um bækur hans, svo ég viti til. Sú þögn segir meira en mörg orð.“

Og hér hefur verið minnst á Ólaf Ragnar Grímsson, Þjóðmál, fjölmiðla og Eið Guðnason, þá má rifja upp að fyrir tveimur árum, í sumarhefti  Þjóðmála 2007, skrifaði Eiður stórfróðlega grein um upphafsár sjónvarpsfrétta á Íslandi, en hann var meðal fyrstu fréttamanna íslensks sjónvarps. Í greininni var sérstaklega fjallað um nýlegar og rangar fullyrðingar Ólafs Ragnars Grímssonar um sama efni. Það má mæla mjög með þessari vel skrifuðu og fróðlegu grein Eiðs, en þetta Þjóðmála-hefti má, eins og önnur, kaupa stakt í Bóksölu Andríkis.