Miðvikudagur 10. júní 2009

161. tbl. 13. árg.

A ð sjálfsögðu slær Morgunblaðið því upp á forsíðu að ábyrgðir íslenska ríkisins vegna Icesave-reikninga séu „innan þolmarka“.
Þegar kemur að því að fórna íslenskum hagsmunum að kröfu Brussel-valdsins eru þolmörk Morgunblaðsins ótakmörkuð.

Í fyrradag var forsíðufyrirsögnin að ábyrgðirnar væru „innan þolmarka“. Í gær var forsíðufyrirsögnin „Útlánin eiga að greiða Icesave“. Hvernig svo sem getur reynt á nokkur „þolmörk“ ef það er í raun og veru svo að útlánin duga vel fyrir ábyrgðunum. Enginn veit hverju næst verður haldið fram í baráttu blaðsins fyrir því að látið verði undan öllum kröfum Evrópusambandsins.

Þ egar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra í vetur fullyrtu íslenskir fjölmiðlar að það þætti stórfrétt um allan hinn vestræna heim að við völdum hefði tekið fyrsti forsætisráðherra heimsins sem byggi með einstaklingi af sama kyni. Þetta var sagt hafa varpað mjög jákvæðu ljósi á Ísland og vakið verulega athygli erlendis.
Skömmu síðar gafst Jóhönnu færi á að sækja hátíðar- og leiðtogafund Nato, en fundurinn vakti gríðarlega athygli, bæði vegna afmælisins en ekki síður vegna þess að hann var fyrsti leiðtogafundurinn sem nýr og áberandi Bandaríkjaforseti sótti.

Ekki er minnsti vafi á því að leiðtogar stærstu ríkja, sem eru flestir mjög viljugir að komast í jákvæðar fréttir, hefðu sóst mjög eftir því að fá myndir af sér á einkafundum með hinum nýja forsætisráðherra Íslands. Erlendir fjölmiðlar hefðu gert slíkum fundum mjög góð skil. Við þau tækifæri hefði hinn nýi forsætisráðherra hins litla ríkis, sem orðið hefði illa út úr heimskreppu, getað komið því skýrt á framfæri við heimspressuna að stórt og voldugt ríki reyndi stíft að beita það litla aflsmun í eiginhagsmunaskyni. Sú umræða hefði orðið Bretum ákaflega óþægileg og ekki nokkur vafi á því að málstaður Íslands hefði undir sjónvarpskastljósunum fengið mikinn stuðning.

En því miður. Fundurinn var haldinn erlendis og Jóhanna Sigurðardóttir var því „upptekin“ og fór ekki.

Erlendir fréttamenn, sem hingað hafa komið og viljað heyra sjónarmið Íslendinga, grípa í tómt þegar þeir ætla að hitta forsætisráðherra Íslands. Barack Obama, Nicolas Sarkozy, Angela Merkel, Gordon Brown og Dalai Lama, eru meðal þeirra sem núverandi forsætisráðherra Íslands hefur þegar afþakkað að hitta á þeim tíma sem liðinn er frá því hún settist að völdum með það yfirlýsta meginmarkmið að „endurreisa traust Íslands erlendis“.

Það kemur að því að menn taka að segja það upphátt, en ef Jóhanna Sigurðardóttir er réttur maður á réttum stað, þá var keisari H. C. Andersens líka í fullkomnum skjólklæðum.

M orgunblaðið berst ekki aðeins fyrir hugsunarlausri ábyrgðaryfirlýsingu Íslands vegna Icesave-reikninganna. Evrópusambandið er ekki eina baráttumál blaðsins, þó það sé fyrirferðarmest þessi misserin. Morgunblaðið er líka rétttrúaður femínistasnepill sem tekur undir flesta þvælu sem það heyrir í opinberri umræðu. Í fyrradag birti það á miðopnu grein eftir nítján vinstrigræna femínista, með stakri andlitsmynd af hverjum og einum. Í gær var svo leiðari um þessa áríðandi grein. Morgunblaðið segir í leiðara sínum að í grein þeirra vinstrigrænu hafi því verið haldið fram að nú væri „tími til kominn að færa femínisma í öndvegi“. Um þá kröfu segir Morgunblaðið: „Orð femínistanna eru vissulega tímabær.“ Og blaðið heldur áfram að vitna í grein þeirra vinstrigrænu og kveður upp sinn dóm yfir málflutningnum: „Allt er þetta satt og rétt.“

Síðar í leiðaranum, sem allur er á þeim nótum að nú verði að leiða femínisma í öndvegi, grætur Morgunblaðið yfir því að það hafi verið „töluverð vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki skipuð konum til jafns við karla.“ – Já það er nú það alvarlegasta við þessa ríkisstjórn, sem lætur ábyrgð á Icesave-reikningunum verða eitt sitt fyrsta verk.

Staðreyndin er sú, að Morgunblaðið er orðið að óvönduðum vinstrisnepli sem síðustu mánuði hefur verið notaður til ákafrar baráttu fyrir inngöngu í Evrópusambandið, til viðbótar við allt hitt ruglið. Er furða að áskrifendur hverfi jafnt og þétt? Af hverju ætti borgaralega sinnað fólk að borga fyrir þetta rugl inn um lúguna hjá sér á hverjum degi?

En auðvitað mega eigendur blaðsins gefa út svona blað fyrst þeir vilja það.