Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar. |
– Jóhanna Sigurðardóttir um breytingartillögu sína við lagafrumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta 7. október 1999. |
E f Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Margrét Frímannsdóttir hefðu fengið breytingartillögu sína við lagafrumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta samþykkta árið 1999 hefði ekkert hámark verið á þeim tryggingum sem Tryggingasjóður innistæðna veitir einstaklingum. „Einstaklingar skulu fá kröfur sínar vegna tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum greiddar að fullu“ sagði í breytingartillögunni. Það hefði með öðrum orðum þýtt að Icesave innistæðurnar hefðu verið með ótakmarkaða tryggingu í stað þess að miðast við 22 þúsund evrur per haus.
Hér er komið að kjarna þess vanda sem að undanförnu hefur ranglega verið kenndur við of mikið frelsi, frjálshyggju og nýfrjálshyggju: Ríkisábyrgð á atvinnurekstri.
Með lögum um innistæðutryggingar – að tilskipun Evrópusambandsins – var bönkum og viðskiptavinum þeirra veitt ábyrgð eða trygging á viðskiptum þeirra upp að ákveðinni fjárhæð. Jóhanna, Ögmundur og Margrét lögðu fram breytingartillögu þess efnis að innistæður einstaklinga nytu ótakmarkaðrar tryggingar.
Þetta er allt eftir bókinni: Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur leggja fram lagafrumvarp að fyrirmælum Evrópusambandsins um tiltekin ríkisafskipti en þingmönnum vinstri flokkanna þykir ekki nóg að gert og leggja til enn meiri ríkisafskipti. Þegar ekki er ljóst hvort þessi ríkisafskipti takmarkast við sjálfan Tryggingasjóð innistæðna eða hvort ríkisábyrgðin er víðtækari neytir Evrópusambandið aflsmunar gegn Íslandi, kemur í veg fyrir að ágreiningurinn sé leystur á eðlilegan hátt fyrir dómstólum og ríkissjóður Íslands situr uppi með alla ábyrgðina.
Hvar er frjálshyggjan í þessu?