A lltaf heldur Morgunblaðið áfram að gleðja þá áskrifendur sína sem eftir eru. Dæmi: Á miðopnu blaðsins í gær skrifar blaðamaður þess, Elva Björk Sverrisdóttir, pistil þar sem hún fagnar því sérstaklega að fólk hafi ruðst inn í og lagt undir sig um hríð Fríkirkjuveg 11, hús í eigu fyrirtækis eins af helstu eigendum hins hrunda Landsbanka. „Húsið er okkar“, segir Elva að þetta fólk hafi hrópað, og líkar henni það greinilega ekki illa, því henni finnst „borðleggjandi að Björgólfur Thor afsali sér húsi langafa síns til íslensks almennings.“
Að vísu útskýrir blaðamaður Morgunblaðsins ekki hvers vegna henni þykir það „borðleggjandi“, en líklega tengist það því að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að íslenskir skattgreiðendur gangist í ábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans, og því eigi skattgreiðendur að eignast það sem helstu eigendur Landsbankans vörðu auðlegð sinni í, áður en bankinn komst í þrot.
En ef það er réttur skilningur, þá má benda Elvu Björk á að auður Björgólfsfeðga fór í fleira en Fríkirkjuveg 11. Undanfarin misseri eyddu þeir drjúgum hluta hans í að borga með útgáfu Morgunblaðsins sem færri og færri kaupa nú, vegna skefjalauss vinstriáróðurs blaðamanna þess. Misserin fyrir fall Landsbankans voru Björgólfspeningar notaðir til að greiða laun Elvu Bjarkar Sverrisdóttur, og ef að það er sjálfsagt mál að fjárfesting Björgólfs Thors í Fríkirkjuvegi 11 eigi nú að renna „til íslensks almennings“, þá er þess auðvitað skammt að bíða að Elva Björk Sverrisdóttir láti þau laun sín, er komu úr Björgólfsvösum, renna til þess sama almennings. Það er eiginlega borðleggjandi.
E n það eru enn til sæmilegir fjölmiðlar á Íslandi. Í vikunni kom út sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, sneisafullt af áhugaverðu efni. Undir venjulegum kringumstæðum var full ástæða til að hvetja allt frjálslynt og borgaralega sinnað fólk til að verða sér úti um Þjóðmál, hvort sem væri í áskrift eða lausasölu. En við núverandi ástand í landinu, þegar forstokkaðasta vinstristjórn lýðveldissögunnar er sest að völdum, við nær algert aðhaldsleysi fjölmiðla og Morgunblaðið fast á vinstrikanti rétttrúnaðar og Evrópusambands, er tímaritið Þjóðmál enn mikilvægara en áður var.
Í sumarheftinu kennir margra grasa, eins og jafnan áður. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, fer yfir þær afleiðingar sem hún myndi hafi, fyrningarleiðin sem vinstristjórnin hyggst nú nota á sjávarútveginn; Þórdís Bachmann tekur saman afrekaskrá forseta Íslands síðustu misseri og er sú upptalning æði skrautleg; Styrmir Gunnarsson fjallar um vinstrihreyfinguna í sögulegu ljósi og Björn Jón Bragason spyr hvort lögregluríki sé í uppsiglingu.
Þá birta Þjóðmál í heild sinni ræðu Davíðs Oddssonar frá síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins og er gagn í því, enda var ræðan mjög afflutt í fjölmiðlum á sínum tíma. Tóku menn kannski eftir mörgum fréttum af því, að fram kom í ræðunni að Jóhanna Sigurðardóttir hafi fyrir bankahrun setið fund með bankastjórum seðlabankans þar sem aðvörunarorð voru hvergi spöruð; eða var mikill fréttaflutningur um að bankastjórn seðlabankans hafði viljað „lækka vexti hratt, en var stöðvuð af alþjóðagjaldeyrissjóðnum að kröfu formanns Samfylkingarinnar“ – svo örlítil dæmi séu tekin af því í ræðunni sem fæstum fréttamönnum þótti eiga brýnt erindi við almenning. En ekki drógu þeir af sér í að reyna að sanna að ræðumaður hefði líkt sér við Krist.
Ótal margt fleira er í Þjóðmálum og meðal annarra höfunda eru þrír fyrrverandi ráðherrar, Alþýðuflokksráðherrarnir Jón Baldvin Hannibalsson og Eiður Guðnason auk Björns Bjarnasonar sem skrifar um „ESB-króga ríkisstjórnarinnar“. Hlynur Jónsson laganemi telur að frjálshyggjumenn eigi ekki lengur samleið með Sjálfstæðisflokknum og eigi að huga að sjálfstæðu framboði, Guðjón Már Guðjónsson bendir á leið sem hann telur mega verða til þess að „leysa jöklabréfin úr læðingi“ og Jón Ríkharðsson sjómaður fjallar um rithöfundinn Ásgeir Jakobsson, og er þá margs annars efnis enn ógetið.
Ársáskrift að Þjóðmálum kostar aðeins 4.500 krónur og fæst í Bóksölu Andríkis. Þar fást einnig stök hefti tímaritsins.