Þ
egar R-listinn tók við völdum í Reykjavík árið 1994 höfðu leiðtogar hans uppi fögur fyrirheit um að minnka vægi hins skelfilega einkabíls í samgöngum í borginni. Í 12 ára stjórnartíð R-listans fjölgaði bensínstöðvum í borginni hins vegar um 50% þótt íbúum fjölgaði sáralítið, notkun strætisvagna snarminnkaði og Reykvíkingar tryggðu sér höfuðborgarheimsmetið í bílaeign um ókomin ár.
Hin vinstri græna Katrín Jakobsdóttir var um skeið formaður umhverfisnefndar borgarinnar fyrir hönd R-listans og á sinn þátt í þessum glæsilega árangri. Það kemur því ekki beinlínis á óvart að hennar fyrsta verkefni sem menntamálaráðherra var að tryggja að áfram yrði haldið með byggingu tónlistarhússins við höfnina þótt ekki séu til fjármunir til verksins. Að vísu er búið að reisa sjálft tónlistarhúsið en hins vegar átti eftir að steypa bílageymslu sem rúma mun 1.600 einkabíla. Það mikilvæga verk er nú komið á fulla ferð. Þökk sé Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra sem á dögunum gaf út bók fyrir umhverfisvæna og sparsama foreldra þar sem þeim var bent á að nota föt af elsta barni á það næstelsta þegar það næstelsta hefði vaxið upp í þau og svo koll af kolli eftir því sem börnunum fjölgar.
Til að steypa botnplötu bílageymslunnar í fyrradag þurftu steypubílar að fara 400 ferðir eftir steypu og var sagt frá þeim miklu tíðindum í fjölmiðlum og af talsverðu stolti á vef tónlistarhússins. Það sýnir vel hve femínistanum Katrínu er þetta bílastæðahús mikið kappsmál að hún lætur það ekki hindra sig að bygging þess, ekki síst steypuvinnan, mun mjög karllæg iðja.
Bílastæðahúsið verður minnisvarði um menntamálaráðherratíð hinnar grænu Katrínar.