Föstudagur 29. maí 2009

149. tbl. 13. árg.

F yrir kosningar misheyrðist kjósendum hvað vinstriflokkarnir sögðust ætla að gera eftir kosningar. Fólki heyrðist þeir boða „skjaldborg um heimilin“.

Því miður höfðu þeir ákveðið að slá gjaldborg um heimilin.

Og auðvitað varð að hækka eldsneytisverðið fyrir hvítasunnuhelgina en ekki bíða fram yfir hana. Ná þessu liði sem ætlar að ferðast sér til skemmtunar um landið.

Svo þurfti að hækka verð á tóbaki. Af því að reykingafólk er einmitt aflögufærasta fólk landsins, eins og kannanir hafa margsinnis sýnt, eða hvað?

Lögin sem ríkisstjórnin fékk samþykkt í gær munu hækka verðbólguna um hálft prósent. Það snareykur skuldir heimilanna og minnkar líkur á vaxtalækkun. Hvort tveggja var auðvitað áríðandi og skiljanlegt að ríkisstjórn sem gerir þetta að sínu fyrsta verki hafi viljað fæðast í norræna húsinu.

Vinstri stjórnin er búin að vera við völd í hálfan mánuð. Þetta byrjar vel.

En það eru ekki nema fjörutíuogsjö og hálfur mánuður eftir. Þetta líður hjá.

E f að núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefði haldið Evrópusambandsræðuna, sem hún flutti alþingi í gær, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í vor, þá væri einhver annar núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

S teingrímur J. Sigfússon neitaði í gær ítrekað að svara því á alþingi hvernig hann hygðist greiða atkvæði um þingsályktunartillögu eigin ríkisstjórnar um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er eiginlega ömurlegt. Steingrímur og flokkur hans hafa frá upphafi talað harðlega gegn aðild að Evrópusambandinu, síðast í kosningabaráttu í síðasta mánuði, og uppskorið fylgi fyrir það. Nú er Steingrímur orðinn fjármálaráðherra og neitar þá að svara hvernig hann muni greiða atkvæði um tillögu sem hann hefur samþykkt að ríkisstjórnin leggur fram.

Skýringin blasir við. Steingrímur J. Sigfússon er búinn að lofa Samfylkingunni að sjá til þess að tillagan komist í gegn. Hann ætlar hins vegar að bíða með að svíkja kjósendur sína eigin hendi fyrr en útséð er með hversu margir sjálfstæðis- og framsóknarþingmenn eru nægilega miklir einfeldningar til að hjálpa tillögunni í gegn.

Og svo er til fólk sem hélt að vinstrigrænir og Steingrímur J. Sigfússon hugsuðu um málefnin en ekki valdastólana. Væru svo „samkvæmir sjálfum sér“.

Það var nú bara fullveldi og sjálfstæði landsins sem Steingrímur J. Sigfússon seldi fyrir fullt og allt, til þess eins að komast í ríkisstjórn með krötum stutta stund. Og þessi maður hefur verið lofsunginn sem sérstakur heilindamaður.