Helgarsprokið 31. maí 2009

151. tbl. 13. árg.

H

Nær tonni af koltvísýringi var blásið út til að flytja vinstri grænu ríkisstjórnina á fyrsta fund sinn á Akureyri. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að minnka útblástur frá samgöngum… árið 2050.

in nýja ríkisstjórn setur sér það markmið að draga losun gróðurhúslofttegunda saman um 50-75% til ársins 2050. Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstaka áherslu „á samdrátt í losun frá samgöngum og fiskiskipum“ eins og segir i stefnuyfirlýsingu hennar.

Fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar var hins vegar haldinn á Akureyri. Því fylgdi ferðalag með flugi fyrir ráðherra og fylgdarlið.

Eldsneytisnotkun í flugi með Fokker vélunum er um 480 kg á klukkustund og þær taka 50 farþega. Ef gert er ráð fyrir að 17 manns hafi farið norður vegna ríkisstjórnarfundarins þá hefur þurft um þriðjung af vél til koma liðinu til fundar. Flugtíminn fram og til baka er um ein og hálf klukkustund. Fyrir hvert kíló steinolíu sem brennt er myndast rúm þrjú af koltvísýringi. Það lætur því nærri að einu tonni af hinni umtöluðu gróðurhúsalofttegund, koltvísýringi, hafi verið dælt út í andrúmsloftið svo ríkisstjórnin gæti fundað á Akureyri í stað hefðbundins fundarstaðar í Reykjavík. Einhver vinstri grænn hefði nú tekið andköf yfir þessu ef hans menn væru ekki í stjórn.

Satt best að segja hljómar þetta markmið ríkisstjórnarinn um 50 – 75% samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda á næsta 41 ári fyrst eins og yfirlýsingin um fíkniefnalaust Ísland um árið. En leiðtogar ESB hafa heldur ekki sparað yfirlýsingar af þessu taginu á undanförnum árum og það læra börnin sem fyrir þeim af haft. Með fullri virðingu mun ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms lítið hafa að segja um það sem gerist á Íslandi til dæmis eftir tuttugu ár þótt þau skötuhjú hafi reyndar setið saman í ríkisstjórn fyrir tuttugu árum. Ríkisstjórnin mun heldur ekki hafa mikil áhrif á þá tækniþróun sem mun ráða úrslitum um hvort ný tækni megni að leysa olíu af hólmi í samgöngum. Á meðan það gerist ekki ná Íslendingar ekki mikið meiri árangri í baráttunni við koltvísýringinn frá því sem nú er.

Það gleymist hins vegar jafnan í þessari umræðu að Íslendingar hafa náð þeim einstæða árangri á undanförnum áratugum að hita og lýsa flest hús með orku fallvatna og jarðvarma auk þess sem iðnaður gengur fyrir sömu orku. Það hafði að mestu leyti gerst fyrir árið 1990 sem jafnan er notað sem viðmiðunarár í loftslagssamningu á vegum Sameinuðu þjóðanna líkt og þeim sem kenndur er við Kyoto. Ef Íslendingar hefðu dregið að leggja hitaveita í hvert hús til ársins 1991 stæðu þeir sig manna best á mælikvarða Kyoto samningsins. Kyoto samningurinn verðlaunar menn fyrir að hafa verið fullkomlega háðir olíu, gasi og kolum fram til ársins 1990.

Í vikunni tilkynnti ríkisstjórnin svo að hún ætli sér að draga úr losun um 15% fyrir árið 2020 miðað við árið 1990. Það jafngildir í raun um 25% samdrætti því Ísland hafði heimild til að auka útblásturinn um 10% til ársins 2012. Ríkisútvarpið sagði svo frá í fréttum sínum í gær:

Íslendingar fengu samkvæmt svokölluðu íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar heimild til að auka losun um 10% á tímabilinu 2008 til 2012. Eftir það falla stóriðjufyrirtæki á Íslandi undir reglur viðskiptakerfis Evrópusambandsins eins og önnur slík fyrirtæki í Evrópu. Íslendingar úthluta þá ekki losunarheimildum og stóriðjufyrirtæki þurfa að greiða fyrir þær losunarheimildir sem þau fá. Flugið fellur líka undir þetta ákvæði þannig að þeir sem reka millilandaflug þurfa líka að greiða fyrir losunarheimildir. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði í samtali við fréttastofu að samningaviðræðurnar um loftslagsmál verði væntanlega leiddar til lykta í desember. Hinsvegar hefðu Íslendingar lagt til að heimila endurheimt votlendis, ásamt skógrækt og landgræðslu sem aðgerð til að binda gróðurhúsalofttegundir. Það lægi ekki fyrir ennþá en Íslendingar gætu hugsanlega tekið á sig metnaðarfyllri markmið ef það verður samþykkt. Þá segir Svandís að fljótlega verði birt skýrsla þar sem reiknað er út hvernig hægt sé að draga úr losun hér á landi og hvað það kosti. Þá sé ekki aðeins horft til stóriðju heldur allra annarra þátta meðal annars samgangna og landbúnaðar.

Það er auðvitað dæmigert fyrir umræðuna um þessi mál að nýr umhverfisráðherra slær sig til riddara með því að yfirlýsingum um að Íslendingar ætli sér ekki að sækja um frekari undanþágur frá loftslagssamningunum. Þegar betur er að gáð ætlar ríkisstjórnin hins vegar að koma inn í samninginn nýjum leiðum fyrir Íslendinga til að þurfa ekki að draga beint úr losun heldur geti þeir dregið frá svonefnda bindingu gróðurhúsalofttegunda með jarðrækt ýmiskonar. En það er kannski sanngjarnt að Íslendingar njóti þess að hafa höggvið allan skóg í eldinn og ræst fram allar mýrar fyrir 1990 þegar aðrir njóta þess að hafa ekkert gert til að draga úr notkun olíu og kola fyrir sama tíma.