E ins og Vefþjóðviljinn nefndi í gær, þá hefur Borgarahreyfingin tekið við hlutverki Framsóknarflokksins sem viljug hækja undir ríkisstjórnarflokkana. Í gær var kosið í þingnefndir og þá bar svo við hin byltingarsinnaða borgarahreyfing, hinir óháðu „fulltrúar fólksins gegn flokkunum“, sem nýbúnir voru að berja þinghúsið að utan, buðu fram lista með ríkisstjórnarflokkunum. Fengu þeir fyrir það aukamann í þingnefnd, sem er að vísu meira en Framsóknarflokkurinn fékk fyrir að leiða vinstriflokkana til valda í janúarmánuði, en þetta er samt sérstakur leikur hjá stjórnarandstöðuflokki; að ekki sé talað um flokk sem kveðst sprottin upp úr grasrótaróeirðum, eins og forkólfar Borgarahreyfingarinnar stæra sig af.
Sjaldan ef nokkru sinni í sögunni hefur neinn flokkur verið eins grímulaust hafður að gólfmottu og Framsóknarflokkurinn hefur verið á þessu ári. Það var Framsóknarflokkurinn sem gerði stjórnarskipti möguleg, sem tryggði vinstriflokkunum stjórnarráðið og kosningar. Fyrir það fékk Framsóknarflokkurinn ekki einu sinni „sveiþér“ frá vinstriflokkunum. Jóhanna Sigurðardóttir hló, sem var auðvitað óvænt út af fyrir sig, þegar hún var spurð að því eftir kosningar hvort Framsóknarflokkurinn fengi að koma eitthvað að stjórn landsmálanna eftir þær.
Framsóknarflokkurinn leiddi vinstriflokkana til valda og fékk ekkert fyrir það nema fyrirlitningu þeirra. Ekki buðu vinstriflokkarnir Framsóknarflokknum nefndarmenn, hvað þá meira, nú í upphafi nýs þings. Það tilboð fór til Borgarahreyfingarinnar.
En jú, Samfylkingin hefur reyndar eitt hlutverk enn fyrir framsóknarmenn. Hún vill að þeir tryggi að kosningamál Samfylkingarinnar, umsókn um Evrópusambandsaðild og afnám fullveldis, nái fram að ganga.
Fyrir það mun Framsóknarflokkurinn fá það sama og í öðrum viðskiptum við vinstriflokkana: Nákvæmlega ekkert sem máli skiptir.
Þeir sem verða ánægðir með samþykkt tillögunnar munu svo þakka Samfylkingunni það, en aldrei Framsóknarflokknum, hversu margir framsóknarþingmenn sem myndu beygja sig og greiða atkvæði einu sinni enn eins og kratar vilja.