A lþingi verður sett í dag. Þó sumt hafi breyst frá síðasta þingi þá er eitt óbreytt. Við völd situr vinstristjórn sem getur treyst á einn stjórnarandstöðuflokkinn, hvenær sem þörf krefur. Áður var Framsóknarflokkurinn alltaf til taks ef á þurfti að halda, og var það vegna taugaveiklunar þingmanna, sem höfðu gersamlega misst sjálfstraustið, og óttuðust mest af öllu að vera sakaðir um að sitja ekki og standa eins og vinstriflokkarnir vildu. Nú er kominn nýr flokkur í þeirra stað, „Borgarahreyfingin“, en hún mun verða fyrsta raunverulega hækja stjórnarflokks, því þingmenn hennar munu allt til loka gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir upplausn, stjórnarslit og stutt kjörtímabil. Þeir eru komnir að kjötkötlunum og ætla að njóta þess eins lengi og þeir geta.
Það þarf ekki að spyrja að því hvernig þeir munu greiða atkvæði um þingsályktunartillögu vinstristjórnarinnar um niðurlagningu íslensks fullveldis. Allir sjá að ef tillagan verður felld, af hvaða ástæðum sem væri, þá myndi það reka djúpan fleyg milli stjórnarflokkanna og án vafa flýta mjög fyrir falli stjórnarinnar. Það mega byltingarhetjurnar í „Borgarahreyfingunni“ ekki heyra minnst á, enda yki það hættuna á nýjum kosningum. Í þessu trausti mun ríkisstjórnin starfa; hún veit að hún mun alltaf eiga að fjóra þingmenn sem verða til taks ef mikið liggur við.
Þess vegna verður „Borgarahreyfingin“ mjög sérstakur stjórnarandstöðuflokkur. Hún mun gagnrýna hina stjórnarandstöðuflokkana hvenær sem færi gefst, en hún mun gæta þess að gera ekkert sem gæti hrakið ríkisstjórnina út í nýjar kosningar. Hún mun svo sækja sér athygli með sýndarmennsku um hálsbindi og ávörp og ýmis önnur ytri atriði sem engu breyta en hafa verið höfð til marks um virðingu þingmanna fyrir elsta þingi heims. Þetta mun auðvitað ekki blekkja neina nema sérstaka einfeldninga, en af þeim er auðvitað talsvert. „Borgarahreyfingin“ er fyrsti stjórnarandstöðuflokkur sögunnar sem fyrst og fremst verður í andstöðu við hina stjórnarandstöðuflokkana.
Háttvirtur þingmaður Þór Saari, sem stærði sig af því að hafa barið þinghúsið utan og vera nú kominn inn í það, sagðist ekki vilja ganga með hálsbindi á þinginu. Ekki vill þingið standa á aldarlangri hefð úr því Þór Saari er annars vegar og skrifstofustjóri þingsins tilkynnti þess vegna að ákveðið hefði verið að framvegis væri ekki skylda að þingmenn gengju með hálstau í þingsalnum. Fréttamenn sögðu frá þessu eins og vænta mátti, en enginn þeirra spurði augljósrar spurningar: Hver ákvað þetta? Það er ekki búið að kjósa nýja forsætisnefnd þingsins.
Auðvitað er hálsbindi engin trygging fyrir því að þingmenn hegði sér eins og siðprúðir menn í þingsal. Það vantaði ekki hálsbindið á Steingrím J. Sigfússon þegar hann úr ræðustóli alþingis kallaði ráðherra „gungu og druslu“ fyrir að vera ekki viðtals þegar Steingrími hentaði. Á sama stað var bindið um daginn þegar hann æpti „éttann sjálfur“ á Björn Bjarnason, stjakaði við honum og fór næst að Geir Haarde þannig að nærstaddir héldu að hann ætlaði í hann. Það breytir ekki því, að líklega liggur alþingi á öðru og meira nú um stundir, en að þingmönnum verði með sérstakri ákvörðun hlíft við þeirri kvöð að þurfa með búningi og látæði að gefa í skyn að þeir beri virðingu fyrir alþingi og öðrum þingmönnum.
Á tímum þegar safnað er liði til að grýta þinghúsið, lögregluna og ráðherrabíla, og með þeim aðgerðum tekst að þvinga lögmæta ríkisstjórn frá völdum, á tímum þegar ábendingar um stjórnarskrárbrot eru kallaðir „lagakrókar“, á tímum sem þeir þykja sjálfsögð þingmannsefni sem staðið hafa fyrir árásum á alþingishúsið fáum vikum áður, þá er það auðvitað bara örlítið mál, þó í stíl við annað sé, að skyndilega sé tilkynnt að búið sé að afnema gamalgróna lágmarksreglu um framkomu þingmanna, og að enginn viti hver hafi afnumið hana, þegar eini aðilinn, sem gat það réttilega, er ekki til.