Fimmtudagur 14. maí 2009

134. tbl. 13. árg.

Morgunblaðið birti um helgina ágætt viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Jakob Jakobsson sem rekur hinn vinsæla veitingastað, Jómfrúna, í miðborg Reykjavíkur. Viðtalið við Jakob er ágæt áminning og brýning, nú þegar fjögurra ára forræðishyggjuvetur gengur í garð – ofan á forræðishyggjuhaustið sem verið hefur undanfarin misseri með sívaxandi þunga.

Jakob kveðst vera „harður andstæðingur meirihlutafrekju sem veður uppi í þjóðfélaginu“, og virðist greinilega þeirrar skoðunar að hver og einn eigi að fá að ráða sem mestu um eigið líf. Hann tekur ýmis dæmi um meirihlutafrekju, og þarf ekki að hafa mörg orð um það hvort þetta blað tekur undir með veitingamanninum:

Fæðingarorlof er önnur meirihlutafrekja. Mér finnst óþarfi að borga fullfrísku fólki fyrir að eignast heilbrigð börn. Hugmyndin um fæðingarorlof kemur frá ríkum þjóðum sem hafa efni á lúxusframlögum. Ég hef aldrei skilið af hverju fólk fær greitt í marga mánuði fyrir að eignast börn meðan sjúkt fólk bíður eftir aðgerðum á sjúkrahúsum. Og á tímum þegar grípa þarf til niðurskurðar er fæðingarorlof fáránlegt. Mér finnst líka meirihlutafrekja að banna klám. Það getur alveg hentað sumu fólki að eiga sér stað til að ástunda gagnkvæman dónaskap stöku sinnum. Það léttir á spennu og fólk verður allt að því siðavant og alveg til fyrirmyndar í dágóðan tíma á eftir.
Svona reglur og bönn eru venjulega keyrð í gegnum alþingi af fólki sem á það sameiginlegt að telja öll vandamál miklu erfiðari og stórkostlegri en nokkur geti ímyndað sér.

Þrettán ár eru liðin frá stofnun Jómfrúarinnar og segir Jakob að fyrst í stað hafi hann staðið í ströngu að gæta þess að staðurinn yrði eftir hans höfði en ekki annarra:

Þegar ég hóf rekstur á Jómfrúnni fór nokkur tími í það í byrjun að gefa sig ekki. Fólk vildi breyta matseðlinum og vildi ekki ákveðnar samsetningar. En nú er allt fallið í ljúfa löð og ef einhverjir kunnu ekki að haga sér þá erum við búnir að ala þá upp. Íslendingum hættir til að líta á veitingahús sem opinbera staði sem þeir eru ekki, heldur eru þeir einkaveitingahús þar sem gestgjafi hefur sett ákveðnar reglur. Hann hefur markað sér stefnu og veit hvað hann vill standa fyrir. Þar með eru veitingahúsið kannski ekki allra. Kúnninn þarf að bera virðingu fyrir því að á veitingahúsinu eru hlutirnir í ákveðnum skorðum.

Sú ábending Jakobs, að veitingahús í einkaeigu lúta eigandavaldi gestgjafans sem setur reglur í eigin húsnæði. Enginn er neyddur inn á veitingahús annars manns, og sá sem ekki kann að meta það sem þar er í boði, hann fer þá bara eitthvert annað eða borðar heimilismat, bara heimilismat, heimilismat, bara heimilismat. Þessu nátengd eru hárrétt orð Jakobs um reykingabannið, sem einstaka sinnum hefur komið til tals í þessu blaði:

Það var meirihlutafrekja þegar bannað var að reykja á veitingahúsum. Ég hef aldrei reykt en mér fannst smámunalegt og smáborgaralegt að banna reykingar á veitingahúsum. Verður næst bannað að selja mat sem inniheldur svo og svo mikið af kólesteróli?

Nú æpir vitaskuld einhver góðgjarn upp að sá munur sé á reykingabanni og kólesterólbanni að reykingamaðurinn dreifi reyk sínum einnig yfir þá sem ekki vilji reykinn, en kólesterólætan borði ein sitt kólesteról. Það er auðvitað rétt, svo langt sem það nær, en það er einfaldlega ekki mjög langt. Það er enginn neyddur inn á Jómfrúna eða aðra veitingastaði. Sá sem vitandi vits ákveður að fara inn á veitingastað þar sem hann veit að búast má við vindlingareyk hefur einfaldlega samþykkt að fá hugsanlega svolítinn reyk til sín. Slíkur maður hefði hæglega getað sleppt því að fara á staðinn og bryti engan rétt á neinum með því og gerðist ekki sekur um neina frekju. En það er ekkert nema frekja í honum ef hann vill banna öðru fólki að leyfa reykingar á sínum eigin stað, bara af því að hann sjálfan langar í matinn en hann sjálfur vill engan reyk. Hvers vegna má Jakob Jakobsson, ef hann vill, ekki leyfa gestum sínum að kveikja sér í vindlingi eftir að þeir hafa gætt sér á gómsætu dönsku smurbrauði, heitri lifrarkæfu eða þá flaggskipi allra bestu smurbrauðsstaða, sjálfri purusteikinni?

E n yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi