Miðvikudagur 13. maí 2009

133. tbl. 13. árg.

Morgunblaðið heldur áfram samfelldum Evrópusambandsáróðri dag eftir dag. Nú ræðst það í staksteinum á þá sem ætlast til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fylgi stefnu flokksins þegar fullveldisafsalstillaga ríkisstjórnarinnar kemur til afgreiðslu á alþingi. „Ég skynja ekki annað en að það sé einhugur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að fylgja þeirri stefnu sem við lögðum upp með fyrir þessar kosningar“, hafði Bjarni Benediktsson sagt í fréttum í gær, og fær á sig skammir frá Morgunblaðinu fyrir ósvífnina.

Fyrir nýliðnar alþingiskosningar hamaðist Morgunblaðið til stuðnings Samfylkingunni. Fréttaflutningi var markvisst beitt í þágu eina kosningamáls Samfylkingarinnar. Blaðamenn Morgunblaðsins skrifuðu látlaust miðopnupistla gegn Sjálfstæðisflokknum. Ritstjórinn tónaði undir í leiðurum.

Ef það er einhver aðili í veröldinni sem sjálfstæðismenn ættu ekki að sækja leiðsögn til nú um stundir, þá er það snepillinn sem borinn er út undir gamla Morgunblaðs-hausnum, til þeirra sem enn hafa ekki sagt honum upp. En í þeim hópi fækkar nú á ógnarhraða.

E vrópuspekingarnir byrjuðu strax eftir kosningar á söng um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tapað fylgi í kosningunum af því að landsfundur hafi ákveðið að fremur yrði staðið með fullveldinu en Brusselvaldinu. Að umsóknarmenn hefðu kosið Samfylkinguna. En ef þetta er nú rétt, er þá ekki augljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja þar sem fulltrúar þeirra sem ekki vilja aðildarumsókn að Evrópusambandinu? Svo vilja sömu álitsgjafar að þingmennirnir greiði atkvæði með aðildarumsókn, hálfum mánuði eftir að þeir voru kosnir á þing.

Þ etta er nú meiri yfirborðsríkisstjórnin. Af hverju var nú verið að eyða degi og í sumum tilfellum lengri tíma í að halda einn fund á Akureyri. Ætli skýringin geti nokkuð verið sambland af því tvennu, að í fyrsta lagi sé Steingrímur J. Sigfússon búinn að átta sig á því, að tíu dögum eftir að hann hélt innblásna ræðu um miðborgarelítuna sem er að reyna að kjafta af Íslendingum fullveldið og færa það embættismönnum í Brussel, þá samdi hann sjálfur um valdastól í skiptum fyrir að sjá til þess með góðu eða illu að íslenska fullveldið fari til Brussel? Að það sé eins gott að byrja strax að þvo af sér miðborgarelítustimpilinn sem nú er tekinn að festast jafn áberandi við Steingrím og hann hefur áður gert við venjulega prófessora í Samfylkingarfræðum við Háskóla Íslands, við starfsmenn Evrópufræðaseturs „Háskólans á Bifröst“ og við Morgunblaðið, eftir að núverandi ritstjóra var afhent blaðið til Samfylkingartrúboðs.

Nú og svo í öðru lagi það að ríkisstjórnin átti sig á því að hún muni sennilega ekki vinna nein sérstök afrek í „byggðamálum“ fremur en ýmsum öðrum málaflokkum.

Ætli skýringarnar á yfirborðsmennskunni séu ekki margar á þessa lund. Ef ríkisstjórnin myndi í raun „treysta stoðir velferðarkerfisins“ þá þyrfti hún ekkert að funda í norræna húsinu, heldur myndi bara láta verkin tala. Ef hún myndi í raun „standa vörð um landsbyggðina“, þá þyrfti enga ríkisstjórnarfundi á Akureyri.

Og ef Steingrímur J. Sigfússon stæði fremur með málflutningi sínum og stefnu sinni en lönguninni í valdastólinn eftir átján ára barning, þá þyrfti hann heldur enga Akureyrarfundi. Þá stæði hann einfaldlega keikur, stæði vörð um fullveldi Íslands og myndaði raunar sennilega að lokum ríkisstjórn þeirra sem það vilja gera með honum. Þannig að valdastóllinn gæti raunar boðist hvort sem væri, en með betri samvisku.

Er ekki hægt að leysa þessa „Evrópuumræðu“ með því að stofna einfaldlega litla Evrópusambandsnýlendu á Bifröst? Þar geta þessir spekingar setið, hlustað á upplestur Gunnars Gunnarssonar í Speglinum á nýjustu leiðurum Ólafs Þ. Stephensens og svo gæti Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fengið álit Baldurs Þórhallssonar á leiðaranum og hvort hann markaði ekki straumhvörf. Loks yrði talað við Olli Rehn sem teldi ekki útilokað að ef Ísland gengi í Evrópusambandið myndi sólskinsstundum fjölga og rigning yrði bara á framsóknarbæjum. Einhver hlutlaus dagskrárgerðarmaður Ríkissjónvarpsins gæti svo bloggað um málið og birt leiðara Ólafs í heild.

En aðrir gætu þá sinnt því sem máli skiptir.