Þ egar sett voru lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok ársins 2006 mátti öllum vera ljóst að yrði peningum ekki útrýmt úr stjórnmálabaráttunni. Það var heldur ekki hinn eiginlegi tilgangur laganna því fjárframlög ríkisins til stjórnmálaflokkanna voru stóraukin í kjölfarið.
Þetta var nefnd stjórnmálaflokkanna sem lagði drög að lögunum auðvitað ljóst en hún kynnti sér hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. Þar sem sett hafa verið takmörk á stjórnmálaflokkana sjálfa spretta upp félög til hliðar við þá sem geta tekið við fjárframlögum. Þessi félög eru ýmist skipulögð af flokkum og frambjóðendum sjálfum eða verða bara til eins og önnur stjórnmálasamtök fyrr og nú með því að nokkrir áhugasamir menn hittast og leggja á ráðin.
Hömlur á beinum framlögum til stjórnmálaflokka eru því harla lítils virði í raun og ekkert annað en aum afsökun fyrir því að setja flokkana á fullt fæði og húsnæði hjá hinu opinbera.
Fyrir þingkosningarnar í apríl bar enda meira á auglýsingum frá öðrum en stjórnmálaflokkunum en oft áður. Mest áberandi var auglýsingaherferðin Sammála þar sem stórfé var eytt í að styðja málstað Samfylkingarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir þessari herferð fóru nokkrir landskunnir sjálfstæðismenn sem voru ósáttir með ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um ESB. Þeir tóku þann kost að ráðast á flokkinn sinn rétt fyrir kosningar enda mátti hver maður sjá að honum gekk allt í haginn að öðru leyti svo þetta gæti vart skaðað. Ekki er vitað hverjir greiddu kostnað þessara samtaka en þau hafa þann samfylkingarbrag á fjármálum sínum að þau verði að sjálfsögðu opinber – en bara seinna. Forvitnir fjölmiðlar gætu auðvitað haft á áhuga á því hvort Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð Íslands eða Samfylkingin hafi með einum eða öðrum, beinum eða óbeinum, hætti styrkt þetta framtak. En þá þyrftu að vera til forvitnir fjölmiðlar hér. Vefþjóðviljinn gerir að sjálfsögðu engar kröfur til þessara samtaka né annarra,sem njóta ekki ríkisstyrkja,að þau upplýsi um fjármál sín.
Það er óhætt að slá því föstu að auglýsingaherferðir af þessu tagi fyrir kosningar verða algengar í framtíðinni. Peningar eru ekki horfnir úr stjórnmálum. Það dettur engum í hug þótt einhverjir stjórnmálamenn haldi því sjálfsagt fram að lögin frá 2006 hafi verið mikil siðabót.
Á milli kosninga munu einnig sjást merki um að flokkarnir hafi fundið sér annan farveg fyrir peningana sem þeir mega ekki þiggja milliliðalaust sjálfir. Vinstri grænir finna vafalaust einhverja smugu í þeim efnum, Framsóknarmenn finna án efa leið til að létta pressunni af vel stæðum fyrirtækjunum og kratarnir eru sjálfsagt sem fyrr með nægilega breiðar herðar til að máta sig við breiðu bökin.
Að svo mæltu minnir Vefþjóðviljinn á styrktarmannakerfi Andríkis en frá upphafi hefur félagið verið rekið fyrir frjáls framlög.