Mánudagur 11. maí 2009

131. tbl. 13. árg.

Það fer kannski ekki svo illa á því, í einhverjum skilningi, að ríkistjórnin sem ætlar sér að koma fullveldi landsins undir yfirráð erlendra embættismanna, skuli mynduð á hernámsdaginn, 10. maí.

  • Fjölmiðlar sögðu frá því að vinstristjórnin ætlaði að „auka tekjuöflun ríkissjóðs“. Það er aldeilis vinsamlegt orðalag yfir það sem óhjákvæmilega býr að baki; stórfelldar skattahækkanir. Vegna aukins atvinnuleysis, lægri launa og minni veltu í verslun, blasir við að skatttekjur ríkisins minnka verulega, ef skatthlutföllum er haldið óbreyttum. Ef að ríkisstjórnin ætlar að auka tekjur ríkisins þá dettur henni ekkert annað í hug til þess en verulegar skattahækkanir. Ekki ætlar hún að selja ríkiseigur og ekki er hún líkleg til þess að lækka skatta, þó slík aðgerð gæti einmitt létt undir með fólki og hjálpað atvinnulífinu.
     
  • Svandís Svavarsdóttir hefur verið borgarfulltrúi í þrjú ár. Hún hefur aldrei tekið sæti á alþingi. Þuríður Backman hefur verið alþingismaður í 10 ár og hafði auk þess í sjö ár margsinnis tekið sæti sem varaþingmaður áður en hún var kjörin á alþingi. Svandís verður ráðherra en ekki Þuríður.
     
  • Talað hefur verið um að jöfn skipting sé milli flokkanna í ríkisstjórn, þó forsætis- og utanríkisráðuneytin séu á sömu hendi, enda vinstrigrænum ekki treystandi fyrir utanríkismálum. Þó verður ekki annað séð en að Samfylkingin hafi þar yfirhöndina, enda tók einn ráðherra vinstrigrænna þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna alþingiskosninganna árið 1999. Hann varð að vísu neðstur, en lét það ekki stöðva sókn sína inn á alþingi, fór strax til vinstrigrænna og beint inn á þing og hefur verið það síðan.
     
  • Nýja ríkisstjórnin var kynnt í norræna húsinu og skyldi það vera til marks um að nú skyldi apa sem mest eftir sósíaldemókrötum Skandinavíu. Alltumlykjandi barnfóstruríki með feiknarlegum sköttum á vinnandi fólk er auðvitað það sem koma skal.
     
  • Hvaða sýndarmennska er annars að boða fréttamenn alltaf í norræna húsið vegna stjórnarmyndunarviðræðna? Af hverju mynda menn ekki bara stjórn og láta síðan verkin tala? Er þetta nú vísbending um að yfirborðsmennska og ímyndarsmíði sé á undanhaldi?
     
  • Fyrir viku sagði Steingrímur J Sigfússon í sjónvarpsviðtali að ráðherrar væru þá tíu og í þjóðfélaginu væri sko engin stemmning fyrir að fjölga þeim. Fækka ef eitthvað væri. Í nýju ríkisstjórninni sitja tólf, svo hún verður þó ekki sökuð um að vanrækja atvinnumálin í upphafi.
     
  • Nýja ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa jafnréttismál í forsætisráðuneytið. Henni þykir það nefnilega sýna mikilvægi þeirra að taka þau frá fagráðherra og fela þau sjálfum forsætisráðherra. Jafnframt var ákveðið að færa efnahagsmálin frá forsætisráðherranum, svo hann geti einbeitt sér að því sem brýnast er. Þessar breytingar á hlutverki ráðuneytisins eru að sjálfsögðu ekki til marks um það hvað stjórnarflokkanir treysta Jóhönnu Sigurðardóttur til að sjá um og hvað ekki. Þær eru heldur ekki til marks um að Jóhanna sé bara höfð á oddinum í ímyndarskyni.
     
  • Enn hefur Ríkisútvarpið ekki séð ástæðu til að fjalla um þær fréttir sem bárust á dögunum, þess efnis að forseti Íslands hefði hamast í því að koma minnihlutastjórninni fyrrverandi til valda. Hefði þjóðhöfðinginn meðal annars lagt vægast sagt hart að forystumönnum Framsóknarflokksins að makka rétt. Það er fróðlegt að bera áhugaleysi Ríkisútvarpsins á þessu, saman við áhuga þess á ýmsum öðrum málum. Það verður gaman að minnast þessa áhugaleysis, næst þegar Ríkisútvarpið mun láta eins og heimurinn sé að farast, yfir einhverju hneykslinu.
     
  • Fyrir kosningar sagði Gylfi Magnússon að hann gæti vel hugsað sér að halda áfram sem ráðherra. Hann vildi hins vegar alls ekki fara í framboð. Hann vildi með öðrum orðum völdin, ráðuneytið, launin og bílinn. Hann vildi hins vegar ekki leita umboðs frá þessum skrælingjum sem kalla sig kjósendur og eru alltaf að kjósa einhverja vitleysinga á þing.
     
  •  Hefur einhver spurt ókosnu ráðherrana hvað þeir hafi kosið í þingkosningunum?
     
  • Ráðherrastarf er pólitískt starf en ekki fræðimennska eða embættismennska. Þeir sem ekki vilja bera pólitíska ábyrgð, eiga ekki að sækjast eftir ráðherrastarfi. Og þeir sem bjóða sig fram til að mynda ríkisstjórn, þeir eiga ekki að vísa þeim ráðuneytum, þar sem þeir vilja geta hoggið menn síðar ef allt fer norður og niður, til ókosinna manna.
     
  • Eftir uppgjöf vinstrigrænna í Evrópumálum, sem eru ekki eitthvert dægurmál heldur snýst um örlög hins fullvalda íslenska ríkis, sem barist hafði verið fyrir öldum saman, er endanlega úti um þá goðsögn að vinstrigrænir tækju málefni fram yfir völdin. Að vísu hafði nokkuð fækkað þeim sem trúðu á þá kenningu, en nú er hún orðin ósennilegri en sú að tunglið sé úr osti. Það er að vísu gagnlegt að losna við þennan misskilning úr stjórnmálaumræðunni, en ósköp er hann nú dýrseldur ef fullveldi landsins fer með honum.
     
  • Bjarni Harðarson ráðlagði kjósendum að kjósa vinstrigræna, því þeim væri einum treystandi til að teyma Ísland ekki inn í Evrópusambandið. Að vísu var Bjarna nokkur vorkunn, því almennt skoðanaleysi er vaxandi vandamál áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum, og Framsóknarflokkurinn var fyrir síðustu kosningar enn í taugaáfalli.
     
  • Nú vofir yfir rammasta vinstristjórn sögunnar. Hún mun hækka skatta og reyna að breyta hér öllu sem hún getur, eftir ýtrustu kreddum aðstandenda. Það var smáatriði, en lýsandi, þegar minnihlutastjórn sömu flokka krafðist þess fyrir kosningar að rætt yrði um nektardans og samþykkt frumvarp um vændi, þegar einhverjir aðrir hefðu hugsanlega velt efnahagsmálum meira fyrir sér. Þetta er aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal, nú þegar þessir flokkar eru komnir í meirihluta.
     
  • Og hvað á þá borgaralegt fólk að gera, nú þegar yfir vofa fjögur ár af þessum og öðrum skemmtunum? 1. Þrauka. 2. Styrkja Andríki. 3. Gerast áskrifendur að Þjóðmálum. 4. Muna að öll él styttir upp um síðir og dagur fylgir nótt.