N okkrar túlkanir á kosningaúrslitunum berjast harðri baráttu um að verða valin sú vitlausasta. Einn keppandinn er sú kenning, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði gert mikil mistök með því að fara ekki að vilja háværs en afgerandi minnihluta flokksmanna og taka að berjast fyrir Evrópusambandsaðild. Þessi kenning virðist byggjast á því að hagstætt sé fyrir flokk að blása á skoðanir mikils meirihluta flokksmanna, en mikið óráð að láta ekki örlítinn minnihluta ráða. Annar keppandi er sú túlkun sem menn hafa reynt að hafa á kosningaúrslitunum er sú að 29% fylgi Samfylkingarinnar sýni aukinn stuðning við aðild að Evrópusambandinu.
E ins og menn vita barðist Morgunblaðið eins og ljón fyrir eina kosningamáli Samfylkingarinnar. Í staksteinum blaðsins í dag brýnir útgefandi þess Steingrím J. Sigfússon til að klúðra nú ekki ríkisstjórnarmyndun með Samfylkingunni. „Nú virðist Steingrímur J. eiga góða möguleika á að halda áfram stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni. Glutrar hann niður tækifærinu?“ skrifar blaðið, sem ekki má til þess hugsa að Samfylkingin hverfi úr ríkisstjórn og við tæki hugsanlega ríkisstjórn vinstrigrænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Algerlega stórmerkilegt að til sé fólk sem heldur að Morgunblaðið sé stuðnigsblað Sjálfstæðisflokksins.
F leiri skrif í sama anda má lesa frá starfsmönnum blaðsins. „Þetta var uppgjör við gamla forystu flokksins, Sjálfstæðisflokk Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde“, skrifar blaðamaður í persónulegum pistli á miðopnu blaðsins. Það þarf töluverða hörku til að þykjast ekki muna að Davíð Oddsson lét af formennsku í Sjálfstæðisflokknum árið 2005 en ekki 2009, og árið 2007 fóru fram alþingiskosningar þar sem Sjálfstæðisflokknum vegnaði vel. Geir Haarde tók við Sjálfstæðisflokknum, og þar með forystu stærri stjórnarflokksins, árið 2005 og varð svo forsætisráðherra 2006. Því embætti gegndi hann fram til febrúar árið 2009. Árið 2005 vofði ekki kreppa yfir Íslendingum og þeir vildu flestir halda áfram á sömu braut, enda hlaut Sjálfstæðisflokkurinn, forystuflokkur þáverandi ríkisstjórnar, rúmlega 36% fylgi í kosningunum árið 2007. Margir kjósendur voru hins vegar ósáttir nú við það hvernig stjórnvöld héldu á málum undanfarið og kenndu Sjálfstæðisflokknum um að ekki hefði tekist að koma í veg fyrir að íslenskt fjármálakerfi færi illa út úr heimskreppunni.
Það er líka fullkomlega skiljanlegt að margir hafi hikað við að kjósa þann flokk sem leiddi ríkisstjórn þegar stærstu viðskiptabankar landsins komust í þrot, ríkið virtist að lítt hugsuðu máli taka á sig stórfelldar ábyrgðir og atvinnuleysi stórjókst, en ríkisstjórnin virtist úrræðalaus með öllu. Þegar við þetta bættist að í ljós kom að fyrrverandi forysta þessa sama flokks hafði tekið við gríðarlegum fjárstyrkjum úr hendi aðalleikenda viðskiptalífsins, örfáum dögum áður en gildi tóku lög, er hún hafði haft forgöngu um, sem bönnuðu slíka styrki, og útskýringar helsta styrkjasafnarans voru ekki sannfærandi, þá er ekki undarlegt þó mörgum hafi ofboðið og þeir ekki treyst sér til að kjósa þennan flokk að þessu sinni. Það er ekkert flókið að finna ástæður fylgistaps Sjálfstæðisflokksins. Þær blasa við, og fylgistapið hefði orðið mun stærra, ef vinstriflokkarnir væru ekki jafn ómögulegir og þeir eru.