Helgarsprokið 26. apríl 2009

116. tbl. 13. árg.

E kki í manna minnum hefur meiriháttar stjórnmálaflokkur rekið máttlausari og lélegri kosningabaráttu en þá sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði nú í vor eftir að ljóst varð að kosið yrði með vorinu. Sjálfstæðismenn voru gersamlega heillum horfnir og flestar aðgerðir bentu til þess að í hvert sinn hefði sá fengið að ráða sem minnst vissi.

  • Ástþóri Magnússyni hugsanlega undanskildum rak Sjálfstæðisflokkurinn lélegustu baráttu vorsins. Öflugustu og árangursríkustu kosningabaráttu síðustu mánaða rak hins vegar svonefnd fréttastofa Ríkisútvarpsins, og er full ástæða til að óska ráðamönnum hennar til hamingju með það.
     
  • Þó er ekki víst að barátta Ástþórs hafi verið verri en Sjálfstæðisflokksins. Ástþór gaf sennilega ekki verri mynd af sér en ástæða var til. Og ekki er hann alla daga að hafa áhyggjur af því hvað aðrir séu að hugsa um hann. Hann berst þó eins og ljón, þó aðferðirnar séu, ja umdeilanlegar svo ekki sé meira sagt.
     
  • Nýrri forystu flokksins síðustu vikurnar fyrir kosningar er þó auðvitað vorkunn. Í stað þess að sjálfstæðismenn næðu vopnum sínum með nýjum formanni í kjölfar landsfundar í lok mars tók við bæði réttmæt en engu að síður furðu langdregin umræða um þá stóru styrki sem fáeinir menn í forystu flokksins höfðu forgöngu um að sækja og þiggja í árslok 2006. Það er auðvitað engin leið að meta hvaða áhrif þetta mál hafði á úrslit kosninganna en vart dettur nokkrum manni í hug að það hafi bætt stöðu flokksins.
     
  • Fréttastofa Ríkisútvarpsins rak ekki aðeins bestu baráttuna heldur er hún einnig ótvíræður sigurvegari kosninganna. Ósigurvegari er að sama skapi Sjálfstæðisflokkurinn, og í tapi hans felst raunveruleg gleði vinstrimanna. Vinstrigrænir bættu að vísu vel við sig fylgi og ef fylgisaukningin hefði verið í samræmi við skoðanakannanir þá hefðu þeir orðið glaðir með úrslitin. En eins og venjulega þá fjúka feluklæðin af þeim í vindum kosningabaráttunnar, og ef minnihlutastjórninni hefði ekki tekist að takmarka kosningabaráttuna við viku, þá hefði meira sést til hins raunverulega flokks.
     
  • Mestu mistök íslenskra stjórnmála undanfarna áratugi, var sú ákvörðun þáverandi forystu Sjálfstæðisflokksins, með auðfengnu samþykki þingflokksins að sjálfsögðu, að ganga til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna. Menn héldu að þá yrðu leiðindi og erfiðleikar að baki. Við tók stjórnmálalegur hryllingur, eins og blasti frá upphafi við öllum nema framannefndum snillingum.
     
  • Önnur stærstu stjórnmálaafglöp síðustu ára, var þegar þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hlýddi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ákvað að halda skyndilandsfund um Evrópumál. Tilgangur Ingibjargar Sólrúnar var að fá sjálfstæðismenn til að skipast í tvær heitar fylkingar í Evrópumálum, til að geta svo lokkað þá minni til sín í næstu kosningum.Tilgangur forystu Sjálfstæðisflokksins var að kaupa sér nokkurra vikna grið í þáverandi stjórnarsamstarfi.
     
  • Árið 2003 gerðu Samfylkingarmenn sér miklar vonir í alþingiskosningum og ekkert var sparað í atlögu flokks og fjölmiðla að Sjálfstæðisflokknum og þáverandi forystu hans. Þrátt fyrir það varð Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur þjóðarinnar og leiddi áfram ríkisstjórn. Á neyðarfundi ákváðu Samfylkingarmenn, til að draga úr ósigrinum, að fara allir sem einn að tala um að rofinn hefði verið „30% múrinn“.
     
  • Í kosningunum í gær náði Samfylkingin ekki einu sinni 30% atkvæða, þrátt fyrir lamaðan Sjálfstæðisflokk og látlausa baráttu Morgunblaðsins og hóps sjálfstæðismanna fyrir eina kosningamáli Samfylkingarinnar. Það er allt „Evrópuákallið“ sem Samfylkingarmenn innan og utan fjölmiðla reyna nú að segjast hafa heyrt.Samfylkingin fær beinlínis minna fylgi árið 2009 en árið 2003. Ætli skýringin sé nokkuð sú, að árið 2009 talaði hún meira um Evrópusambandið?
     
  • Annar munur á kosningabaráttu Samfylkingarinnar 2003 og 2009, er að árið 2003 snerist kosningabarátta Samfylkingarinnar um „hagsmuni Baugs og Norðurljósa“, svo vitnað sé í Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstrigrænna og núverandi menntamálaráðherra.
     
  • Morgunblaðið hamaðist vikum saman fyrir kosningar til stuðnings eina kosningamáli Samfylkingarinnar og blaðamenn þess skrifuðu hvern persónulega pistilinn á fætur öðrum gegn Sjálfstæðisflokknum. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja að útgefandi blaðs beiti því með þessum hætti, en þetta haggar ekki frekar en annað, þeim staðreyndablindu mönnum sem sífellt kalla Morgunblaðið stuðningsblað Sjálfstæðisflokksins.
     
  • Eftir taugaveiklunarkennda baráttu fyrir Evrópusambandsaðild kjósa meira en 70% kjósenda ekki Evrópusambandsflokkinn. Hversu auðvelt er að sjást yfir það?
     
  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom sér í alla fréttatíma síðustu tvo dagana fyrir kosningar. Hélt fram einhverjum heimsendaspám og heimtaði að fá birt einhver minnisblöð sem enginn skildi. Formaður Framsóknarflokksins var fremstur í fréttatímum í tvo daga og Framsóknarflokkurinn náði manni í öllum kjördæmum. Forysta Sjálfstæðisflokksins sást lítt í fréttum af eigin frumkvæði síðustu vikur baráttunnar, og alls ekki á lokasprettinum. En hélt fínar fjölskylduhátíðir.
     
  • Að vísu er á því ein undantekning. Daginn fyrir kosningar var efnt til fundar í utanríkismálanefnd alþingis. Þingmenn flokksins auðvitað flestir uppteknir við kosningabaráttu, en Valhöll leysti það mál auðveldlega. Geir Haarde var á lausu og var sendur á fundinn. Stöð 2 greip auðvitað tækifærið og tók við hann viðtal um fjárstyrki til flokksins, og sýndi í fréttum kvöldið fyrir kosningar.
     
  • Sjálfstæðisflokkurinn beið algert afroð í sjálfri höfuðborginni og hefur þar aðeins fimm þingmenn af tuttugu og tveimur, og þar af er einn jöfnunarmaður. Þetta er svipað og ef flokkurinn fengi þrjá borgarfulltrúa í sveitarstjórnarkosningum. Enginn mun taka ábyrgð á þessu.
     
  • Það blasti við að afar hart yrði sótt að Sjálfstæðisflokknum úr mörgum áttum, bæði á stjórnmálavettvangi og frá fréttastofunum. Reynt yrði að lama flokkinn til langframa. Sjálfstæðisflokkurinn vildi auðvitað geta varið hendur sínar og gekk því hiklaust til samninga við hina flokkana, sem stefndu í stórsigur, um hámark auglýsingakostnaðar í baráttunni, og hafði þakið helmingi lægra en síðar. 14 milljónir króna, með virðisaukaskatti, þökk fyrir. Allt til að vera ekki sakaðir um að sýna ekki „auðmýkt“.
     
  • Maður nokkur gerði sér að leik að sitja í kjörklefa í klukkustund og kom þannig í veg fyrir að klefinn nýttist öðrum. Vonandi hefur það ekki orðið til þess að einhver hafi orðið frá að hverfa, en slík gæti hæglega gerst ef fleiri tækju upp á þessu á sama tíma. Samkvæmt lögum liggur fjögurra ára fangelsi við því að beita þvingunarráðstöfunum til að koma í veg fyrir að annar maður geti neytt atkvæðisréttar síns. Fréttastofu Ríkisúrvarpsins fannst þetta mjög skemmtilegt mál og brosandi Eva María Jónsdóttir tók langt og mannlegt hetjuviðtal við manninn og sýndi meðal annars mynd af honum í góðu yfirlæti í klefanum.
     
  • Nýir þingmenn Borgarahreyfingarinnar stæra sig nú af því í fjölmiðlum að hafa barið alþingishúsið og vera nú komnir inn í það.
     
  • Í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar segir orðrétt: „Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.“ Hefur einhver heyrt einhvern af ótal hæfum fréttamönnum landsins, sem af glöggskyggni en ekki hlutdrægni veita stjórnmálamönnum öflugt aðhald, fjalla um þá kröfu að 7% þjóðarinnar geti leyst alþingi upp?
     
  • Því miður kom ekki fram hvort átt var við 7% íslensku þjóðarinnar, eða 7% þeirrar þjóðar sem af og til kom saman í vetur á fundum í Háskólabíói, sal 1.
     
  • Meðal vitlausra aðgerða í íslenskum stjórnmálum undanfarið, var þegar ungir vinstrigrænir fengu landsfund til að samþykkja að fara í vinstristjórn en ekki hægri. Það eina sem þeir fengu upp úr þessari snilld, var að hafa enga samningsstöðu gagnvart Samfylkingunni. Ætli þeir hafi talið hættu á því að vera annars grunaðir um að vera laumuhægriflokkur á skipulagðri leið til Bjarna Benediktssonar?
     
  • Vegna þessa þurfa vinstrigrænir nú að komast undan eigin stefnu í Evrópumálum. Það munu þeir reyna að gera með því að leggja í þjóðaratkvæði tillögu sem þeir svo segjast vera andvígir. Er því þá beitt að „þjóðin“ eigi að ráða en ekki kjörnir fulltrúar hennar. Ætli þeir verði fáanlegir til að vera jafn lýðræðissinnaðir þegar þeir leggja skattahækkunarfrumvörp fyrir alþingi. Mun þjóðin fá að kjósa um þau mál?
     
  • Fyrir kosningar ræddu fréttamenn mjög mikið um beina styrki til stjórnmálaflokka, einkum til eins þeirra. Nú eru kosningar að baki, og hugsanlega telja einhverjir þeirra þá óhætt að spyrja um annars vegar skuldir stjórnmálaflokkanna, við hverja þær séu og hvers vegna, og ekki síður að biðja stjórnmálaflokkana að sýna kvittanir vegna greiðslna fyrir auglýsingar í fjölmiðlum og afnotum af dýru verslunarhúsnæði í kosningabaráttu. Styrkir geta verið svo margt annað ein bein millifærsla. En kannski er bara öruggara að sleppa því, maður veit aldrei nema það verði einhvern tíma kosið aftur.
     
  • Mikið var talað um það í vetur að þjóðin hafnaði „fjórflokknum“ og vildi ný framboð. Í kosningunum 2007 fékk „fjórflokkurinn“ 59 þingmenn, en fjórir komu frá hefðbundnu einsmálslýðskrums-framboði. Í kosningunum nú var hins vegar allt annað uppi á teningnum. Nú fékk „fjórflokkurinn“ 59 þingmenn en Borgarahreyfingin fjóra.