Þriðjudagur 28. apríl 2009

118. tbl. 13. árg.

M ikið leikrit er nú í gangi og kallað stjórnarmyndunarviðræður. Í sem stystu máli er tilgangur þess að fela fyrir einfaldari hluta stuðningsmanna stjórnarflokkanna að búið var fyrir kosningar að semja um hvor skyldi gefast upp í hvaða máli. En þó leikritið sé nokkuð vel æft, þá geta jafnvel reyndir leikarar hlaupið á sig. Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi talaði Steingrímur J. Sigfússon til dæmis svolítið óvarlega. Spurður um hvort til greina kæmi að vinstrigrænir gæfu eftir grundvallarsjónarmið sín í Evrópumálum neitaði hann að svara, en sagði að það mál væri nú í höndum varaformanna flokkanna. Og bætti svo við: „Við setjum nefndir í önnur mjög mikilvæg mál, því það má nú ekki vera sá svipur á þessu eins og að allt snúist um Evrópusambandsins en ekkert um hin brýnu verkefnin.“

Í „stjórnarmyndunarviðræðunum“ eru með öðrum orðum settar á fót nefndir, til að það sé réttur „svipur á þessu“, en ekki af því að í raun og veru þurfi að ræða nokkuð.

F orseti Íslands hefur upplýst að ekki sé þörf á að setja „stjórnarmyndunarviðræðunum“ nokkur tímamörk, þar er stjórnarflokkarnir hefðu hvort eð er meirihluta. Það er raunar rétt sjónarmið, en minnir á tvennt. Þegar stjórnarmyndunarviðræður fóru fram í janúar síðastliðnum þá setti forsetinn hins vegar tímamörk. Ríkisstjórnarmyndunin dróst langt fram yfir þau, án þess að forsetinn eða fjölmiðlar gerðu nokkra athugasemd við þetta fyrsta dæmi um það sem síðar hefur verið kallað „verkstjórn Jóhönnu“. Og svo minnir þetta á, að forsetinn hikaði ekki við það í janúar að efna til minnihlutastjórnar án þess að látið yrði reyna á myndun meirihlutastjórnar eins og stjórnskipunarvenjurnar bjóða og þáverandi forsætisráðherra lagði til.

Á dögunum minntist Vefþjóðviljinn á, að merkileg tilviljun væri að þeir fréttamenn Stöðvar 2 og Ríkissjónvarpsins sem sæju um fréttir af styrkjamálum Sjálfstæðisflokksins væru annars vegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Ríkissjónvarpinu, fyrrverandi frambjóðandi vinstrigrænna til alþingis, og hins vegar Heimir Már Pétursson, sem væri fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Heimir Már gerði athugasemd við þetta og er rétt að leiðrétta þessa missögn að því er hann varðar. Heimir Már Pétursson var ekki framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar heldur Alþýðubandalagsins 1996 til 1999 sem bauð fram undir nafni Samfylkingarinnar það ár. Heimir var svo frambjóðandi til embættis varaformanns Samfylkingarinnar árið 2005 en beið lægri hlut fyrir Ágústi Ólafi Ágústssyni.