Laugardagur 25. apríl 2009

115. tbl. 13. árg.

Þ etta er í raun óhugnanlega einfalt:

Yfir Íslandi vofir rammasta vinstristjórn Íslandssögunnar.

Allar vinstristjórnir hafa hækkað skattana. Allar.

Að þessu sinni segjast vinstrimenn fyrirfram beinlínis ætla að hækka skatta og lækka laun.

  • Steingrímur J. Sigfússon sagði í sjónvarpsumræðum að laun yfir 250.000-300.000 á mánuði yrðu lækkuð. Þegar vinstrimenn tala um „ofurlaun“, meina þeir í raun laun venjulegs fólks.
  • Skattahækkanir og launalækkanir eru vinstrimönnum ekki neyðarbrauð heldur sætabrauð. Í þeirra röðum er enginn hvati til að halda slíku í lágmarki við erfiðar aðstæður.
  • Fyrir þeim er þetta æskileg „lífskjarajöfnun“.
  • Á sínum tíma var því haldið fram að R-listinn myndi klofna innan árs. Hann sat í tólf ár, hækkaði útsvarið í hæstu leyfilegu tölu, fann þar að auki upp ýmis ný gjöld, en þrátt fyrir það tvítugfölduðust skuldir borgarinnar á valdatíma hans. Nú stefnir í mun vinstrisinnaðri stjórn en R-listinn þó var.
  • Vinstristjórnin mun sitja í fjögur ár. Alla sína ævi hefur vinstrimenn dreymt um að komast einir að kjötkötlunum og völdunum. Þeirri stöðu munu þeir aldrei sleppa ótilneyddir.
  • Úrræðalausir en ofstækisfullir hafa þeir verið í 80 daga minnihlutastjórn. Hún samþykkti engin fjárlög og hafði ekki þingmeirihluta. Hún er alger hátíð hjá því sem 1461 dags stjórn Vinstrigrænna og Samfylkingar yrði.
  • Það stefnir í að vinstristjórnin fái svo mikið fylgi að stjórnarandstaðan hafi ekki einu sinni færi á að veita henni öflugt aðhald, hvað þá meira.
  • Þeir þingmenn sem frjálslyndu fólki yrði mestur missir í, berjast nú upp á líf og dauða fyrir þingsæti sínu. Ef marka má skoðanakannanir eru líkur á að Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson falli af þingi fyrir Birgittu Jónsdóttur og Þráni Bertelssyni. Í Kraganum stefnir í að Þór Saari verði valinn á þing en ekki Óli Björn Kárason, þökk sé auðum seðlum frjálslynds fólks.
  • Vinstristjórnin, sem nú stefnir í að verði kosin yfir Íslendinga, mun vitandi vits standa fyrir ofstjórn, skattahækkunum og launalækkunum. Við þær aðstæður hlýtur allt frjálslynt fólk að nýta atkvæðisrétt sinn.
  • Ekki þarf svo að taka fram, að það er siðferðislega ónothæf afstaða að kjósa á þing flokka eða framboð sem hafa staðið fyrir og aðstoðað við árásir á alþingishúsið og lögreglustöðvar.
  • Auður seðill er ekki aðeins dauður seðill heldur líka rauður.

Vinstristjórn mun hækka skatta og lækka laun venjulegs millitekjufólks. Lokafrestur til að kjósa gegn yfirvofandi vinstristjórn rennur út klukkan 22 í kvöld.

AUTT ER RAUTT