Föstudagur 24. apríl 2009

114. tbl. 13. árg.

Í

Auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu í fyrradag og vinstrigrænir hafa nú kært.

fimm ár höfðu fjölmiðlar mikinn áhuga á „eftirlaunafrumvarpinu“. Vinstrimenn kölluðu það jafnan sérstakan „ósóma“, og notfærðu sér það óspart í áróðursskyni og átti sá áróður jafnan greiða leið í fjölmiðla. Fyrir tveimur mánuðum vakti Vefþjóðviljinn hins vegar athygli á því, að með samþykkt hins fræga „eftirlaunafrumvarps“ var bætt inn í þingfararkaupslögin litlu ákvæði sem hækkaði mánaðarlegt þingfararkaup formanna stjórnarandstöðuflokkanna um hvorki meira né minna en 50%. Frá samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“, eða „ósómans“, í desember árið 2003, og þar til hann varð ráðherra í febrúar 2009, hafði Steingrímur J. Sigfússon þannig þegið um 15 milljónir króna í launaauka, vegna „eftirlaunafrumvarpsins“. Við ríkisstjórnarskiptin 1. febrúar síðastliðinn, hafði enginn alþingismaður fengið meira greitt vegna samþykktar „eftirlaunafrumvarpsins“ en Steingrímur J. Sigfússon.

En þó fjölmiðlar hafi í fimm ár haft verulegan áhuga á flestu því sem að „eftirlaunafrumvarpinu“ sneri, þá vildi svo undarlega til að þessi staðreynd þótti þeim ekki eiga erindi við áhorfendur. Og ekki breyttist það þó á hana væri aftur bent, að gefnu tilefni. Nú á miðvikudaginn gerði Vefþjóðviljinn það því að gamni sínu, og að vissu leyti í vísindaskyni, að kaupa örlitla auglýsingu í Morgunblaðið og Fréttablaðið og vekja þar athygli á þessari sömu staðreynd. Urðu þá loksins viðbrögð, en kannski ekki þau sem helst hefði mátt búast við. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að blöðin með auglýsingunni höfðu verið borin í hús, barst Vefþjóðviljanum bréf, þar sem honum var tilkynnt að hann hefði verið kærður fyrir tiltækið. Ekki þó vegna þess að stafkrókur væri rangur í auglýsingunni; nei Vefþjóðviljinn var þess í stað sakaður um þann stórglæp að hafa birt litla andlitsmynd af Steingrími J. Sigfússyni í auglýsingunni! Í tilkynningu til blaðsins sagði að kæran hefði borist „frá stjórnmálaflokknum Vinstri Grænum á hendur Vefþjóðviljanum“. Tilgangur kærunnar er augljóslega að reyna að hindra frekari birtingu auglýsingarinnar, svo þessar upplýsingar komist ekki til vitundar fleira fólks.

Þetta mál verður sífellt merkilegra og fróðlegra. Lítil vefsíða leyfir sér að birta upplýsingar um gríðarlegan persónulegan ábata eins stjórnmálamanns af lagabreytingu, sem flokkur hans hefur í hálfan áratug úthrópað sem sérstakan „ósóma“. Sami stjórnmálaflokkur bregst strax við með kærumálum, án þess þó að gera nokkra einustu efnislegu athugasemd við efni auglýsingarinnar. Augljóslega er reynt að hræða vefsíðuna frá frekari birtingu hennar. Því er meira að segja haldið fram, og það í fullri alvöru, að það sé hreinlega óheimilt að birta hefðbundna andlitsmynd af formanni stjórnmálaflokks, manni sem gegnir tveimur ráðherraembættum, í lítilli auglýsingu þar sem vakin er athygli á lítilli staðreynd er varðar stöðu hans sem flokksformanns á alþingi.

Hvernig ætli fjölmiðlar og álitsgjafar létu, ef einhverjir aðrir ættu í hlut? Ímyndum okkur að það væri ekki Vinstrihreyfingin-grænt framboð sem reyndi að hræða litla vefsíðu frá því að birta einfalda staðreynd um slíkt opinbert mál. Hvernig yrðu fréttatímarnir í allan dag ef til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn hefði kært einhverja vefsíðu fyrir að birta andlitsmynd af Davíð Oddssyni eða Geir Haarde í auglýsingu? Hvað ætli Spegillinn myndi finna marga sérfræðinga til að tala um „skoðanakúgun“ og „þjóðfélag óttans“ ef einhver annar flokkur hefði átt í hlut. Það verður gaman að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum í dag og í kvöld og sjá hvort þeir telja það fréttnæmt að væntanlegur stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar efni til kærumála á hendur lítilli vefsíðu fyrir að auglýsa staðreynd sem flokkurinn telur greinilega nauðsynlegt að liggi í þagnargildi. Ætli klykkt yrði út með þeirri spurningu hvort „nýja Ísland“ fælist í kærum frá stærstu stjórnmálaflokkum, í þeim tilgangi að kæfa ábendingar og athugasemdir?

Þetta mál hefur lengi verið stórmerkilegt. Samfelld þögn allra ljósvakamiðla um gróða Steingríms J. Sigfússonar af samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ var mögnuð. Ótrúlegar tilraunir vinstrigrænna til að stöðva örlitla blaðaauglýsingu þar sem vakin var athygli á staðreyndum, eru ekki síður magnaðar. En merkilegast alls verður að fylgjast með viðbrögðum íslenskra fréttamanna við þessu öllu saman. Munu þeir taka þessu af sömu þögn og þeir hafa tekið frásögnum af launahækkun stjórnarandstöðuformanna vegna „eftirlaunafrumvarpsins“, eða munu þeir segja frá tilraunum vinstrigrænna til að fæla litla vefsíðu frá því að segja frá þessu, af sömu innlifun og hefði einkennt þá ef einhver annar stjórnmálaflokkur hefði átt í hlut.

Þetta eru aðalatriði málsins. Aukaatriðin eru hins vegar mörg og skemmtileg. Aðeins tvö verða nefnd hér til gamans. Lesendur Vefþjóðviljans hafa í áranna rás fengið ótal dæmi um það hversu vinstrigrænir eru samkvæmir sjálfum sér. Hér bætist eitt við: Vinstrigrænir þykjast vera ævareiðir yfir venjulegri andlitsmynd af Steingrími J. Sigfússyni. Sjálfir búa þeir til og dreifa hins vegar barmmerki með mynd af Bjarna Benediktssyni þar sem honum er líkt við olíu á eld. Hvernig ætli fjölmiðlar hefðu látið ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði samdægurs brugðist við með kærumálum?

Og eitt algert aukaatriði, bara til gamans. Kæran á hendur Vefþjóðviljanum er frá „stjórnmálaflokknum Vinstri Grænum“ og undirrituð af manni sem titlaður er „miðlægur kosningastjóri VG“. Hvernig varð þessi magnaði stjórnmálaflokkur aðili að málinu? Jafnvel þó svo ótrúlega vildi til, að brotið hefði verið á Steingrími Jóhanni Sigfússyni með þeim ósvífna hætti að birta andlitsmynd af fjármálaráðherranum í Morgunblaðinu, hvernig verður þá stjórnmálaflokkurinn Vinstrihreyfingin-grænt framboð aðili málsins? Af hverju kærir Steingrímur þá ekki persónulega? Er í huga vinstrigrænna enginn munur á persónu formannsins og flokknum sjálfum?

Ekki er langt síðan formaður vinstrigrænna vildi koma á fót „netlögreglu“. Vefþjóðviljinn hefur viljað trúa því að Steingrímur hafi þá einungis orðað klaufalega þá hugsun að berjast gegn glæpum á netinu, en hafi í raun ekki ætlað sér í raun að hindra frjálsa og heiðarlega notkun netsins. En þegar flokkurinn hans er, eftir aðeins 80 daga valdatíð í minnihlutastjórn, byrjaður að kæra vefsíður fyrir þann glæp að birta andlitsmyndir af Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, þá fer þetta allt að versna.

Við sjáum hvernig vinstrigrænir eru eftir 80 daga í minnihlutastjórn. Hvernig verða þeir eftir 1461 dag í meirihlutastjórn? Ef einhver vill hugsa þá hugsun til enda, þá er honum ráðlagt að birta niðurstöður sínar ekki opinberlega án leyfis miðlægs kosningastjóra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.