H vað á fólk eiginlega að kjósa í kosningunum á laugardaginn?
Vefþjóðviljinn getur sagt það strax, að ekki er nú blaðið himinlifandi með úrvalið. Þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi oftast legið beint við hjá frjálslyndu fólki, þá er afrekaskrá hans upp á síðkastið nú ekki sérstaklega til að mæla með flokknum. Aðrir flokkar og framboð eru svo eins og þau eru. Auðvitað má segja, að hvað sem öðru líði þá sé óverjandi í siðuðu þjóðfélagi, að flokkar og framboð, sem leynt og ljóst hafi staðið fyrir ofbeldisárásum á alþingi og lögregluna, séu verðlaunuð fyrir það með valdastólum örskömmu seinna. En jafnljóst er það, að fólk sem hefur misst vinnuna og óttast að missa íbúðina sína, því stendur næstum því á sama um hver kastaði hverju í Geir Jón.
Margir segja að nú verði kosið um það hvernig þjóðfélagið verði byggt upp. Ekki veit Vefþjóðviljinn um það, en það liggur þó fyrir að á næstunni verða teknar ákvarðanir sem munu ráða mjög miklu um lífskjör og möguleika landsmanna um allnokkur ár. Og menn ættu ekki að gera sér neinar grillur um að næsta kjörtímabil verði stutt. Vinstrimenn hafa beðið í óþreyju og æsingi í átján ár eftir því að geta deilt og drottnað að nýju, og þeir munu ekki sleppa valdastólunum fyrr en í fulla hnefana, hvaða ágreiningur sem kann að verða milli þeirra.
Vinstriflokkarnir ætla að hækka skatta og lækka laun, og þeim líður hreint ekki illa með það. Þeir hafa við allar aðstæður verið á þeirri skoðun að það þurfi að skattleggja fólk duglega. Það sé nefnilega til „lífskjarajöfnunar“. Svo eru þeir á því að fólk megi ekki vera á of háum launum. Steingrímur J. Sigfússon sagðist á sjónvarpsfundi á dögunum ætla að lækka laun þeirra sem væru yfir 250.000 til 300.000 krónum á mánuði. Þá vita allir um vantrú vinstrikantsins í garð frjáls atvinnulífs, en hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá er það frjálst og öflugt atvinnulíf sem getur komið landinu út úr þeirri beyglu sem nú er. Það verður ekki gert með „mannaflsfrekum verkefnum“, kostuðum af skattfé og ákveðnum á ráðherraskrifstofum. Slíkt hefur aldrei orðið leið nokkurs lands til farsældar, þó enginn þurfi að efast um að atvinnulaus maður taki fegins hendi starf við slík verkefni.
Sjálfstæðisflokkurinn boðar að hann muni ekki hækka skatta, eigi hann aðild að landstjórninni eftir kosningar. Vonandi tekst honum að efna það heit, ef hann fær þá aðstöðu til. Að minnsta kosti er þó ljóst, að í Sjálfstæðisflokknum, einum flokka, eru þingmannsefni svarnir andstæðingar hárra skatta og ríkisvæðingar atvinnulífsins. Þar grasserar ekki heldur hin eilífa löngun vinstriflokkanna til að draga laun millitekjufólks niður.
Allt eru þetta atriði sem hugsandi kjósandi hlýtur að hafa í huga þegar hann greiðir atkvæði sitt. Hann mun einnig horfa til þess, hvaða frambjóðendur það eru sem berjast um síðustu lausu sætin í hverju kjördæmi. Vissulega hafa flokkarnir unnið til þess að vera refsað í kosningunum, og þeir flokkar sem eru nýir hafa ekkert sýnt sem bendir til þess að þeim sé betur treystandi. Staðreyndin er hins vegar sú, að í kosningunum á laugardaginn verður kosið um næstu fjögur ár, en ekki síðustu tvö.
Allt stefnir nú í að hreinræktuð vinstristjórn, sú ofstækisfyllsta í manna minnum, taki völdin til fjögurra ára, næstkomandi laugardag. Hún mun taka til óspilltra málanna við að innleiða hér eins rammt vinstraþjóðfélag og hún getur, með tilheyrandi skattahækkunum og launalækkunum. Þegar frjálslynt fólk mun næstu fjögur árin sitja og horfa upp á það, þá verður hver að eiga við sig hvort hann vill hafa kosið gegn vinstristjórninni meðan tækifæri gafst til. Það tækifæri rennur út, klukkan 22 næstkomandi laugardag.
Það er enginn kostur mjög góður í kosningunum á laugardaginn. En þeir eru mjög mismunandi vondir.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegs sumars.