Miðvikudagur 22. apríl 2009

112. tbl. 13. árg.

S umir ætla að kjósa vinstriflokkana af því að þeir séu með „hreinan skjöld“. Þeir hafi nú alltaf varað við og gert allt sem í þeirra valdi stóð til að forða viðskiptalífinu frá hruni.

Minna en tvö ár eru frá síðustu alþingiskosningum. Ef marka má þessa trú, þá hafa áríðandi björgunartillögur vinstriflokkanna líklega verið eitt helsta kosningamálið þá, eða hvað? Hvað var aftur mál málanna vorið 2007? Hvað var það sem helst virtist haft til marks um að þáverandi stjórnarstefna væri röng, hálfu öðru ári fyrir bankahrun?

Jú, tengdadóttir Jónínu Bjartmarz fékk ríkisborgararétt.

Nú hafa stærstu fyrirtæki Íslands komist í hendur ríkisins. Vinstriflokkarnir boða opinberlega launalækkanir og skattahækkanir. Og hvað tröllríður þá fjölmiðlum? Jú, fjármál stjórnmálaflokkanna fyrir þremur árum.

M argrét Sverrisdóttir tók sæti ofarlega á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík á dögunum, án þess að hafa farið í prófkjör. Fyrir nokkrum árum skrifaði hún þessi orð í Morgunblaðið: „Með tali um upptöku evrunnar er verið að reyna að hraða þróun ESB í átt til evrópsks risaveldis með sameiginlegri mynt, en minna hugsað um efnahagslegan ávinning. Ég vara við þessum þrýstingi og leyfi mér að kalla það landráð ef menn vilja ganga inn í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og afhenda valdaklíku stærstu fimm Evrópuþjóðanna fullveldi og sjálfstæði Íslands.” Það var þá og er enn hárrétt að berjast gegn því að valdaklíkur stærstu Evrópuþjóðanna verði afhent fullveldi og sjálfstæði Íslands. Það eina sem er furðulegt er að Margrét Sverrisdóttir hyggist berjast gegn þessum „landráðum“, sem hún kallar svo, úr væntanlegu varaþingmannssæti Samfylkingarinnar í Reykjavík.

L andskjörstjórn hefur birt í blöðunum auglýsingu um framboð við komandi alþingiskosningar. Þar er í öllum kjördæmum sagður í boði „O-listi Borgarahreyfingarinnar – þjóðin á þing“. Hvers konar tilgreining er þetta? Getur verið að einhver hafi verið svo sofandi að samþykkja að nafn flokks geti bæði verið hefðbundið nafn, og svo kosningaslagorð, eða öllu heldur staðhæfing , í viðhengi? Gæti Frjálslyndi flokkurinn orðið Frjálslyndi flokkurinn – burt með kvótakerfið? Eða: Lýðræðishreyfingin – virkjum Bessastaði? Eða: Vinstrigrænir – hækkum laun Steingríms?

Já og hvað ef einhver kemur næst með flokk sem hann segir heita „Hvaða idjótar stýra hér kosningum?“? Segist svo einmitt berjast fyrir bættum kosningalögum.

Ef að þessi stjórnmálaflokkur heitir í raun í nefnifalli „Borgarahreyfingin – þjóðin á þing“, af hverju er þá ekki allt nafnið fallbeygt? Eiga kjósendur virkilega von á því að fá á laugardag í hendur kjörseðil þar sem þeim verður boðið að merkja við „lista Borgarahreyfingarinnar – þjóðin á þing“?

Ætlar enginn að gera athugasemd við þetta? Ástþór, hvar ert þú núna, nú þegar þú hefðir case?