Þriðjudagur 21. apríl 2009

111. tbl. 13. árg.

Það kom fram í gær að erlendum fjölmiðlum hefði verið tilkynnt að þeir fengju ekki að ræða við forsætisráðherra Íslands fyrr en eftir kosningar. AP fréttastofan og alheimsfréttasjónvarpsstöðvar hefðu undanfarið reynt að fá stutt viðtöl við forsætisráðherra Íslands en öllum verið hafnað en þeir megi reyna, daginn eftir kosningar. Hefði þó mátt ætla að íslensk stjórnvöld gripu fegins hendi tækifærið að útskýra sjónarmið landsins fyrir erlendum ríkjum, ekki síst í ljósi sífelldra yfirlýsinga Jóhönnu Sigurðardóttur um að mikilvægasta verkefni hennar sé að „endurheimta traust Íslands erlendis“. En í hvert sinn sem útlendingar, hvort sem er erlendir blaðamenn eða erlendir þjóðarleiðtogar, eru annars vegar, þá er núverandi forsætisráðherra Íslands „upptekinn“.

Ætlar enginn fjölmiðill að segja landsmönnum frá þessu, fyrir kosningar?

JANÚAR 2007: Sérstaklega óviðeigandi að fá kostun frá Alcan!
JANÚAR 2007: Met í óskammfeilni að stjórnmálaforingjar komi fram fyrir þjóðina í boði Alcan.
MARS 2007: Psst, Rannveig, áttu þrjúhundruðþúsund kall?

T vennt hefur verið ofarlega í huga margra. Styrkveitingar til stjórnmálaflokka og sú þjóðtrú að vinstrigrænir séu svo málefnalegir, fylgnir sér og óspilltir. Það er gaman að segja frá því að þetta tvennt getur nú tengst með áhugaverðum og lýsandi hætti.

Tökum skýrt dæmi. Fyrir tveimur árum sýndi Stöð 2 hinn árlega þátt, Kryddsíld. Þar var meðal þátttakenda Steingrímur J. Sigfússon. Í lok þáttarins kom fram að Alcan, álverið í Straumsvík, hefði styrkt útsendingu þáttarins. Vinstrigrænir urðu æfir og spöruðu hvorki stóru orðin né heilagleikann, fremur en venjulega. Ögmundur Jónasson sagði „met hafa verið slegið í smekkleysu að stjórnmálaforingjar sitji frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan í kjölfar álinnpakkaðar mútugjafar til Hafnfirðinga.“ Og Steingrímur J. Sigfússon bætti því við, að það væri „sérstaklega óviðeigandi að stórfyrirtæki sem stendur fyrir mjög umdeildum áformum“ styrkti „umræðuþátt stjórnmálamanna af þessu tagi, það finnst mér óviðeigandi já.“

Þetta var það sem var opinbert og þjóðin fékk að sjá. Þetta var í janúar 2007. Það sem ekki var opinbert var að skömmu síðar, í mars 2007, fékk álfélagið bréf í póstinum. Þar var álfélagið beðið um að styrkja stjórnmálaflokkinn Vinstrihreyfinguna-grænt framboð um hundruð þúsunda króna. Fyrir hönd þess heilaga flokks, skrifaði formaður hans undir bréfið, Steingrímur J. Sigfússon.

Enginn fréttamaður taldi þá ástæðu til að setja þessi tvö náskyldu mál í samhengi.

E n þá að öðru og meira til gamans en annað. Muna menn eftir Bandalagi jafnaðarmanna? Vilmundur Gylfason stofnaði það eftir að hafa tapað varaformannskjöri í Alþýðuflokknum. Ekki tóku allir Vilmundi vel. Einn þingmaður var sérstaklega á móti nýjum framboðum og mjög á móti fólki sem ekki getur tekið ósigri í eigin flokki án þess að stofna nýja. Í eldhúsdagsumræðum 14. mars 1983 sagði þessi þingmaður:

„Í reynd eru nú þegar sex þingflokkar á alþingi. Reynsla þessa vetrar sýnir að tilvist fleiri þingflokka mun magna öngþveitið. Slík þróun getur leitt til lömunar þingræðisins. Það er tímanna tákn að ný stjórnmálasamtök hafa gert afnám þingræðisins að sínu aðalmáli og skeyta því engu að afleiðingin getur orðið sú að gera ríkjandi stjórnleysi að varanlegu ástandi.

Það er dæmigert um tíðarandann að mönnum sem sækjast eftir frama í stjórnmálum verður bumbult af eigin meðulum og sætta sig ekki lengur við niðurstöður prófkjara eða kosninga á flokksþingum og stofna því eigin bandalög. Og eitt er víst: Stjórnmálamenn sem ekki geta tekið ósigri með æðruleysi og jafnaðargeði munu aldrei leysa annarra vanda, hvað þá heldur þjóðarheildarinnar, og erfiðleikarnir minnka ekki þó að einhver reyni að spenna regnhlíf yfir alla óánægju í þjóðfélaginu.“

Það þarf að sjálfsögðu ekki að nefna það, að þingmaðurinn sem hafði miklar áhyggjur af þingræðinu en varaði eindregið við mönnum sem bregðast við ósigri á flokksþingi með því að stofna eigin stjórnmálaflokk, – og taldi svoleiðis menn „aldrei munu leysa annarra vanda“ – er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra minnihlutastjórnar og fyrrverandi formaður Þjóðvaka.