S éra Ólafur Jóhannsson skrifaði litla grein í Morgunblaðið í síðustu viku og segist þar fara fram á upplýsingar um styrki til stjórnmálaflokka á undanförnum árum. Eins og menn vita hafa upplýsingar um styrki FL-Group til Sjálfstæðisflokksins verið bornar í fjölmiðla undanfarið, af einhverjum sem vill koma höggi á flokkinn. Eitt af því skynsamlega í stuttri grein séra Ólafs, er að hann spyr um fleira en bein fjárframlög: „Sama á við um fjárhagslegan stuðning fyrirtækja í öðru formi, t.d. endurgjaldslaus afnot af eignum, aðstöðu, vörum og þjónustu.“ Hefur einhver tekið eftir því, að fjölmiðlar sem hafa þó geysilega mikinn áhuga á öllum öngum styrkjamáls Sjálfstæðisflokksins, hafi beðið nokkurn flokk um upplýsingar um afslátt af til dæmis auglýsingaverði í fjölmiðlum eða upplýsingar um það hvaða leiga hafi í raun verið greidd fyrir kosningaskrifstofur, sem sumar hverjar hafa verið í glæsilegum verslunarhúsum á besta stað?
Á dögunum birti breska þingið skýrslu um aðdraganda þess að Bretland beitti Ísland hryðjuverkalögum. Skýrslan var fróðleg fyrir Íslendinga, ekki síst vegna þess að hún var í sama dúr og það sem komið hefur frá breskum yfirvöldum undanfarna mánuði. Fjármálaráðherrann vísar til samtals síns við íslenska ráðherra og þingnefndin segir að útskrift af samtali hans við íslenska fjármálaráðherrann sanni svo sem ekki hans mál, en afsanni ekki heldur.
Og eitt var áberandi við skýrslu breska þingsins og hefur raunar verið undantekningarlaust í öllum málflutningi Breta síðasta hálfa orðið: Ekki er eitt einasta orð um að seðlabanki Íslands, eða einhver orð eða gjörðir forsvarsmanna hans, hafi haft nokkur minnstu áhrif á gerðir Breta. Enda hafa engir nema íslenskir álitsgjafar, fréttamenn og stjórnmálamenn haldið slíku fram. Og nú þegar meira en hálft ár er liðið og bresk yfirvöld hafa endanlega gefið út að ekkert í orðum eða gjörðum íslenska seðlabankans hafi haft áhrif, hversu margir álitsgjafar, fréttamenn eða stjórnmálamenn hafa þá beðist afsökunar á stóryrðunum? Auðvitað enginn. Og hversu margir hafa verið spurðir um fyrri yfirlýsingar, af hinum aðhaldssömu íslensku fjölmiðlum? Auðvitað enginn. Þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar skrifaði á vef flokksins að kastljósviðtal við íslenskan seðlabankastjóra hefði kostað Íslendinga tíuþúsund milljarða. Sá framkvæmdastjóri er nú á leið á þing og mun aldrei nokkurn tíma þurfa að svara fyrir stóryrði sín. Sama má segja um fréttamennina sem myndskreyttu alltaf fréttaskýringar sínar um bankahrunið með seðlabankastjóra í Kastljósi. Ætli fréttamenn væru jafn áhugalausir ef fullyrðingar annarra hefðu reynst eins rangar og þessar?
E n stundum eru fréttamenn þó á verði. Hinn sérstaklega óháði fréttaskýringaþáttur, Spegillinn, gerði mann út af örkinni til að kanna hvort hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um einhliða upptöku evru væru ekki á misskilningi byggðar. Tíðindamaður þáttarins talaði við sérfræðinga í Noregi um þetta mál og hefur Ríkisútvarpið síðan hamrað á því í fréttum að hér sé á ferð „misskilningur hjá Sjálfstæðisflokknum.“
Þessi vinnubrögð eru auðvitað til fyrirmyndar og hefði verið gaman ef Ríkisútvarpið sýndi í fleiri málum sama áhuga á því að kanna hvað sé rétt og hvað rangt í fullyrðingum stjórnmálaflokkanna. En því er sjaldnast að heilsa. En þarna tókst Ríkisútvarpinu þó að gera að meginefni fréttaskýringaþáttar að einn stjórnmálaflokkur vaði reyk í mikilvægu máli, og þó ekki hafi þótt ástæða til að tala við nokkurn mann hjá flokknum í fréttaskýringaþættinum, eða reifa á nokkurn hátt hvaða rök flokkurinn kann að hafa sett fram fyrir máli sínu, þá hefur bara ekki unnist tími til þess. Það verður vafalaust gert um leið og tími vinnst til, jafnvel strax í næstu viku. Fyrst þarf þó að fjalla nánar um það afrek Katrínar Jakobsdóttur að tryggja fjárveitingar til menningarhúss í Skagafirði eða ræða við Hildi Eir Bolladóttur um huglausa þingmenn sem ekki hafi þorað að vera á móti Kárahnjúkavirkjun, eins og rakið var í helgarsproki í gær.