Helgarsprokið 19. apríl 2009

109. tbl. 13. árg.

V instrigrænir segjast jafnan vera öðruvísi en aðrir flokkar. Sér fylgi ný vinnubrögð nýrra tíma. Sumir ætla meira að segja að kjósa þá, vegna þessa.

Ríkisútvarpið sagði aldeilis gleðitíðindi í kvöldfréttum sínum í dag: „Náðst hefur samkomulag við menntamálaráðherra um 30 milljóna króna viðbótarframlag vegna framkvæmda við menningarhúsið Miðgarð í Skagafirði.“ Endurbætur hafa staðið yfir á húsinu undanfarið og gert var ráð fyrir því að ríkið legði allt að 60 milljónir króna í framkvæmdina. Kostnaður hefur hins vegar farið úr böndum og var í fyrra farið fram á meira fé úr ríkissjóði en eitthvað stóð á menntamálaráðuneytinu að borga það sem krafist var. Þar til nú, eða eins og fréttastofa Ríkisútvarpsins orðar það: „Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur bundið enda á þessa bið og er væntanleg í Skagafjörð eftir helgi til að ganga frá samkomulagi um þetta aukaframlag.“

Og þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði sagt frá þessu afreki Katrínar, sömu Katrínar og í síðustu viku boðaði skattahækkanir og launalækkanir vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs, þá talaði fréttastofan við einn bæjarfulltrúa í Skagafirði. Og ekki bæjarstjóra eða einhvern úr meirihlutanum, heldur vildi svo til að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði til bæjarfulltrúa minnihlutans, Bjarna Jónssonar að nafni. Og þar kom fram að minnihlutinn hafði vissulega átt þátt í þessari glæsilegu niðurstöðu: „Þegar við vorum komin með þennan ágæta ráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, í ráðherrastól að þá að sjálfsögðu beittum við okkur eins og við gátum.“

Já þetta er alveg afbragðs ráðherra þessi Katrín. Hún heggur á hnútinn, og auðvitað gerir hún sér ferð norður í Skagafjörð í vikunni fyrir kosningar til að skrifa undir viðbótarframlagið frammi fyrir ljósmyndurum þar. Enda miklu betra að taka einn dag í þetta fremur en að klára málið á fimm mínútum á skrifstofunni og fá hvergi af sér mynd.

Og þar verða þeir sennilega viðstaddir báðir, Jón Bjarnason, efsti maður vinstrigrænna í kjördæminu og sonur hans, Bjarni Jónsson, bæjarfulltrúi minnihlutans, sá eini sem fréttastofa Ríkisútvarpið ákvað að tala við, og munu þar klappa hinum ágæta ráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, lof í lófa.

Í heila viku töluðu fréttamenn um að fyrrverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hefði tekið við 30 milljóna króna gjöf einkafyrirtækis til flokksstarfsins. Enginn fréttamaður sér neitt fréttnæmt við það að sama upphæð fari úr ríkissjóði til að kaupa vinstrigrænum pláss í fréttatímum í kosningaviku. Nei, á fréttastofu Ríkisútvarpsins sér enginn neitt að því að útvarpa í kosningavikunni lofgerðarviðtali við bæjarfulltrúa vinstrigrænna um menntamálaráðherra vinstrigrænna.

R íkisútvarpið sagði frá þeim sláandi tíðindum í hádegisfréttum í dag að Hildur Eir Bolladóttir, aðstoðarprestur í Laugarneskirkju, teldi hugrekki hafa skort í íslensk stjórnmál og að gagnrýna hugsun hefði skort, bæði á þingi og annars staðar. Eða svo vitnað sé beint í hógvær orð Hildar Eirar: „Í svona stóru máli eins og Kárahnjúkavirkjun, að þar voru menn oft hræddir við að tjá sig og hérna og fólk jafnvel innan akademíunnar sem á að hafa fullt frelsi til þess. Það leiðir eiginlega huga manns að því hvort að það geti verið að æðstu menntastofnanir landsins séu að útskrifa oft á tíðum ómenntaða sérfræðinga, og þá á ég við fólk sem hefur mjög góða tæknilega þekkingu á sínu fagi en skortir gagnrýna hugsun, vegna þess að sko það að vera menntaður snýst í raun og veru ekki bara um það að kunna skil á sínu fagi heldur snýst það um það að þroska hugsun sína og kunna að beita gagnrýnni hugsun og það hefur náttúrlega skort í íslensku þjóðfélagi og það er bara ein af ástæðunum fyrir því að svo fór sem fór.“

Já, það er ekki öllum gefið að beita gagnrýnni hugsun. Sumir slá bara einhverju fram, ef það hentar málstaðnum. En sem betur fyrir hina ómenntuðu þjóð með alla sína ómenntuðu og gagnrýnislausu þingmenn, þá eru til einstaka þroskaðir menn sem getað vísað henni leið. Fyrir þremur árum sagði Vefþjóðviljinn frá því, að fréttamenn Ríkisútvarpsins hefðu heyrt alveg gríðarlega merkilega predikun þar sem presturinn var einmitt líka mjög ákafur vegna Kárahnjúkavirkjunar. Um það sagði Vefþjóðviljinn þá og leyfir sér að endurtaka, sem vinsamlega þátttöku blaðsins í baráttu Hildar Eirar Bolladóttur fyrir gagnrýnni hugsun og gegn innihaldslausum frösum:

Í gær var guðsþjónusta í Laugarneskirkju og ræðumaður dagsins, Hildur Eir Bolladóttir fór þar mikinn. Umræðuefnið var vitaskuld Kárahnjúkavirkjun sem ekki hefur verið nægilega rædd. Fréttamenn fréttu strax af ræðunni, enda vanir að fylgjast vel með messum og sögðu frá því að Hildur Eir teldi að Kárahnjúkar væru „heilög sköpun Guðs“.

Nú vill Vefþjóðviljinn auðvitað ekki deila um það atriði. Hitt vill blaðið nefna, að sama mætti nú segja um fleiri staði á þessum hnetti og öðrum. Fjöll og fljót, vellir og hlíðar, dalir og merkur, allt er þetta sköpunarverk með sama hætti og Kárahnjúkar. Meira að segja grasbalinn þar sem heimili Hildar Eirar Bolladóttur stendur, hann er sköpunarverk sama Guðs og Kárahnjúkar. Maðurinn hefur leyft sér að nýta þetta sköpunarverk í eigin þágu, stundum af hreinni lífsnauðsyn, stundum af tómri löngun í meiri lífsgæði. Sá sem skapaði landið og miðin, Kárahnjúka og Kumbaravog; hefur Hann einhvers staðar sagt að ekkert af þessu megi maðurinn nýta?