Helgarsprokið 5. apríl 2009

95. tbl. 13. árg.

A

Engin umræðustjórnmál við útlendinga?

llnokkrir lesendur hafa kvartað yfir að langt sé liðið frá síðustu Andríkispunktum. Eitthvað verður að gera í því.

  • Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna hittust í fyrradag. Fundurinn var afar mikilvægur en auk þess að vera reglubundinn leiðtogafundur þá var þetta fyrsti fundur sem nýr Bandaríkjaforseti sat, nýr framkvæmdastjóri bandalagsins var valinn og haldið var upp á 60 ára afmæli bandalagsins. Enda komu leiðtogar allra ríkja nema eins, einn þjóðarleiðtogi, forsætisráðherra Íslands, mætti ekki, sökum „anna heimafyrir“.
     
  • Meðal þeirra leiðtoga sem ekki höfðu jafn mikið að gera og forsætisráðherra Íslands og gátu því séð af tveimur dögum til fundarhalda, voru Barack Obama, Gordon Brown, Nicolas Sarkozy, Angela Merkel og rúmlega tuttugu aðrir. En forsætisráðherra Íslands var því miður svo upptekinn að hún komst ekki. Enda ekki eins og það hefði komið sér vel að geta rætt málefni landsins persónulega við þetta áhrifalausa fólk sem þarna var. Það er ekki eins og forsætisráðherra Íslands eigi eitthvað vansagt við menn eins og Gordon Brown. Það er ekki eins og það hefði getað hjálpað Íslendingum ef forsætisráðherra Íslands hefði mætt til fundar og nýtt tækifærið til að tala tæpitungulaust um hryðjuverkalög Breta gegn Íslendingum og til að krefjast þess að þau verði tafarlaust afturkölluð og skaði vegna þeirra bættur. Nei, Jóhanna Sigurðardóttir var upptekin heima fyrir.
     
  • Og við hvað ætli Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið upptekin? Ætlar einhver fjölmiðill að spyrja hvaða mál hafi verið brýnni en að halda á fund erlendu þjóðarleiðtoganna og standa í ístaðinu fyrir íslenska hagsmuni? Halda menn að svona færi bjóðist oft? Hvaða „annir“ voru þetta eiginlega? Ekki var hún í þinghúsinu þar sem hún bannar að nokkuð sé rætt nema stjórnarskrármál og svonefndur forseti alþingis fylgir enn skipunum hennar í blindni. Enginn fjölmiðill vill vita hvers vegna hún hafi ekki nýtt tækifærið og hitt hina erlendu leiðtoga. Ekki þarf að efast um að þeir hefðu verið óðfúsir að hitta hana, nógu mikið var nú látið með það hvað frami hennar hefði vakið mikla athygli erlendis, af persónulegum ástæðum hennar.
     
  • Þegar minnihlutastjórnin var mynduð var efnt til blaðamannafundar á Hótel Borg þar sem nýja stjórnin var kynnt fyrir íslenskum og erlendum fjölmiðlamönnum. Fundinn sátu fyrir Samfylkingu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir en fyrir vinstrigræna Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir. Í upphafi fundarins sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, á ensku til erlendra blaðamanna, að fyrst yrði svarað fyrirspurnum íslenskra fjölmiðlamanna en síðan þeirra erlendu. En þegar kæmi að erlendum fjölmiðlum yrði hinn nýi forsætisráðherra Íslands að fara, vegna annarra skyldustarfa, sem ekki var upplýst hver væru. Ekki einn einasti fjölmiðill hefur vakið athygli á þessu eða spurst nokkurs vegna þessa. Ef það er ný stefna Samfylkingarinnar að forsætisráðherra ræði aldrei framar við erlenda kollega sína væri gaman að heyra af því. Sömuleiðis verður áhugavert að sjá hvernig aðildarviðræður við ESB fara fram án þess að íslenskir ráðamenn hitti ráðamenn sambandsins.
     
  • Erlendir sendiráðsstarfsmenn og sendimenn hafa afar lengi furðað sig á því að einn ráðherra í íslensku ríkisstjórninni hefur verið ófáanlegur að hitta þá að máli og eiga gagnlegar viðræður um eitthvað sem máli skiptir. Íslenskir fjölmiðlamenn hafa ekki talið það eiga erindi við almenning.
     
  • Hefur einhver fjölmiðill einhvern tíma velt fyrir sér hversu oft Jóhanna Sigurðardóttir hefur farið á fund erlendra starfsbræðra að ræða málefni Íslands eða ráðuneytis síns? Hún hefur nú verið ráðherra í bráðum áratug, svo þetta ættu að vera orðnir allmargir fundir.
     
  • Hvernig ætli það sé, ætli Íslendingar fái að vita það fyrir kosningar hvort væntanlegur forsætisráðherra þeirra til fjögurra ára hyggst einhvern tíma á þeim tíma hitta útlending? Fá útlendingar ekki að taka þátt í umræðustjórnmálum Samfylkingarinnar?
     
  • Nýja ríkisstjórnin var víst sögð mynduð til að grípa til neyðarráðstafana í efnahagsmálum og „endurvekja traust okkar erlendis“. Hún hefur ekkert fram að færa í efnahagsmálum og forsætisráðherra neitar að hitta erlent fólk. Enginn fjölmiðill telur þetta eiga erindi við Íslendinga.
     
  • Barack Obama er sagður vilja koma til Íslands. Hann myndi þá halda áfram að stíga söguleg skref. Hann yrði þá ekki aðeins fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna heldur hugsanlega fyrsti útlendingurinn sem hitti Jóhönnu Sigurðardóttur, ef hún væri ekki bundin við skyldustörf annars staðar.
     
  • Jæja, nóg um þetta að sinni og að öðrum hlutum. Borgar Þór Einarsson lögfræðingur tapaði í síðustu viku máli sem hann hafði höfðað gegn íslenska ríkinu til viðurkenningar á því að óheimilt væri að birta upplýsingar um skattaálögur á hann opinberlega. Þessi málshöfðun er dæmi um eðlilega leið sem borgari fer til að reyna að ná sjónarmiðum fram. Það hefði hins vegar verið dæmi um villimennsku og skrílslæti ef maðurinn hefði mætt ásamt vinum sínum fyrir utan skattstofuna eða fjármálaráðuneytið og spillt þar öllum vinnufriði með hávaða, svo sem með því að berja saman eldhúsáhöldum, þar til látið hefði verið undan kröfum hans. Það er algert grundvallaratriði, að ekki sé látið undan villimennsku og skrílslátum. Stórfurðulegt að fullorðið fólk heyrist stöku sinnum mæla slíku bót, og mun þykja æ furðulegra þegar horft verður til baka síðar.
     
  • Umboðsmaður alþingis sá á dögunum ástæðu til að skrifa grein í Tímarit lögfræðinga og átelja stjórnvöld fyrir að slaka á kröfum réttarríkisins, við þær aðstæður sem nú eru uppi. Er ekki vanþörf á slíkum viðvörunarorðum, stjórnskipunarhefðum er nú kastað í allar áttir við algert skilningsleysi og áhugaleysi fjölmiðlamanna. Forseti Íslands stendur fyrir því að mynduð sé minnihlutastjórn án þess að reynt hafi verið að mynda meirihlutastjórn, lagafrumvörp eru lögð fram gegn tilteknum einstaklingum, erlendur ríkisborgari er settur í eitt mikilvægasta embætti landsins þvert gegn stjórnarskrá, tilkynnt er um þingrof en alþingi situr bara áfram frá morgni til kvölds eins og ekkert sé, og þannig mætti áfram telja. Og enn segir enginn neitt. Hvernig ætli síðari tíma fólk muni líta á þá sem stýra málum þessar vikurnar, eða þá sem eru sagðir vinna við að segja fréttir af þeim og „sýna stjórnvöldum aðhald“?
     
  • Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin héldu landsfundi sína á dögunum, en aðrar kosningarnar í röð ákvað Samfylkingin að halda landsfund sinn sömu helgi og Sjálfstæðisflokkurinn hafði boðað landsfund sinn. Hvað um það, fundirnir voru fjölmennir, einkum þó fundur Sjálfstæðisflokksins, en enginn fréttamaður hefur enn nennt að bera saman fréttatilkynningar Samfylkingarinnar um að rúmlega 1700 manns hafi verið búnir að skrá sig á fundinn, og svo atkvæðatölur í kosningum á fundinum. Innan við 600 manns kusu Jóhönnu Sigurðardóttur í formannskjöri, þó fréttamenn láti alltaf nægja að segja hún hafi fengið 97,9% greiddra atkvæða, og um 1100 manns kusu í varaformannskjöri. Enginn fjölmiðill vill segja mönnum frá því að fimmhundruð þeirra sem kusu í varaformannskjöri hafi ekki kosið í formannskjöri þar sem Jóhanna Sigurðardóttir hafði ein lýst yfir framboði.
     
  • En fundirnir voru fjölmennir og landsfundur Sjálfstæðisflokksins fjölmennari en Háskólabíósfundirnir þar sem „þjóðin“ kom saman af og til í vetur. Hvenær ætli menn láti af því að bera „þjóðina“ fyrir skoðunum sínum? Og hvenær ætli fjölmiðlamenn byrji að spyrja lýðskrumara að því hvenær og hvernig, nákvæmlega, þjóðin hafi lýst þeirri skoðun sinni, sem fyrir tilviljun er nákvæmlega eins og skoðun lýðskrumaranna?
     
  • Alþingi setti ný neyðarlög á dögunum. Nú herti meirihluti þingmanna þau gjaldeyrishöft sem fyrir voru. Það er einkenni hafta sem þessara, að fyrst í stað virka þau eins og til er ætlast og stjórnvöld verða glöð. Eftir því sem tíminn líður, finna menn fleiri leiðir fram hjá þeim og þá þarf að gera annað hvort, afnema höftin, svo allir sitji við sama borð bæði löghlýðnir og aðrir, eða þá að bæta við höftin, til að reyna að halda öllum innan sömu girðingar. Enn er sem betur fer langt í að við séum komin í ógöngur haftaáranna, en ef ungt fólk vill kynna sér hvernig ástandið var þá, eru fáar leiðir betri en að lesa hina fróðlegu og skemmtilega skrifuðu bók, Þjóð í hafti, sem fæst í Bóksölu Andríkis.
     
  • Vefþjóðviljinn heldur því fram, að í dag sé sextugur hinn óumdeildi læknir, Kári Stefánsson. Hann var í skemmtilegu viðtali við Morgunblaðið í gær og, þó hann hafi marga fjöruna sopið, svarar hann þegar hann er spurður um vináttu sína við Davíð Oddsson: „Það er ekki orðum aukið að ég hafi ekki orðið fyrir meira aðkasti fyrir neitt á minni ævi en vinskap minn við Davíð og aldrei meira en síðan árásir hófust á hann á liðnu hausti. Ég lít á Davíð sem vin minn og fyrir það greiðir maður rúllugjald eins og allt annað sem er einhvers virði í þessu lífi.“
     
  • Á síðasta ári kom út áhugaverð og lifandi bók eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt, Andi Reykjavíkur. Fjallar Hjörleifur þar um byggingarlist í Reykjavík og hvernig menn hafi á liðnum áratugum verið skeytingarlausir um þann „anda“ sem hafi verið í Reykjavík. Nýjum byggingum sé hrúgað upp, án tillits til yfirbragðs hvers hverfis fyrir sig, og aðeins horft til þess hvort stærð nýja hússins samrýmist öðrum í grennd. Áður hafi skólabyggingar verið svo glæsilegar að það hafi haft uppeldisáhrif í sjálfu sér, nú sé það liðin tíð, og svo framvegis. Það er margt áhugavert sagt í þessari bók og ástæða til að hafa augun opin fyrir því að óþrifnaður og smekkleysa vaði ekki um of uppi. Það á við um mörg svið þjóðfélagsins, ekki aðeins byggingarlist eða skort á henni. Hefðum er kastað fyrir róða umhugsunarlaust. Fólk virðist æ oftar halda að að hafi vald til að knýja vilja sinn fram, svo sem með hávaða, bálköstum eða rúðubrotum. Orðbragð í opinberri umræðu hefur á síðustu misserum tekið stakkaskiptum og er „bloggi“ ekki hvað síst þar um að kenna. Svívirðingar og dónaskapur um annað fólk er þar daglegt brauð, fyrir utan hreinar og klárar ásakanir um alvarlega glæpi, jafnvel landráð. Margt af þessu er vafalaust sett fram í þeirri röngu trú, að séu skrifin undir dulnefni þá beri enginn á þeim skaðabótaábyrgð eða refsiábyrgð. Allt er þetta til marks um þróun sem sæmilegt fólk ætti að reyna að sporna gegn.
     
  • Í fyrrnefndu viðtali við Kára Stefánsson segist hann vera fúll út í þá sem séu búnir að gleyma því að fyrrverandi forsætisráðherra hafi leitt þjóðina „í þrettán góð ár í sögu hennar, á myndarlegan hátt og þannig að vegur hennar hefur aldrei verið meiri.“ Á þeim árum sem Kári vísar til óx kaupmáttur launa hvers einasta manns stórkostlega og lífskjör bötnuðu hraðar en menn hafa áður þekkt. Fjöldi fólks komst til efna og sumir urðu meira að segja það sem stundum er kallað nýríkir, og þykir ekki fínt. Ætli þeim síðarnefndu hafi verið skondnar lýst í færri orðum en þessum línum Stefáns Jónssonar þingmanns Alþýðubandalagsins, föður þeirra Kára og Hjörleifs:

Hann sem átti ekki föt
og ekki fyrir kaffi,
ekur nú um allar göt-
ur á béemmvaffi.