T ugir manna mættu fyrir utan heimili forstjóra Útlendingastofnunar og fjölskyldu hans um helgina, til að reyna að knýja fram vissa niðurstöðu í stjórnsýslumálum. Hér hefur greinilega hafist stórvarasöm þróun sem algerlega nauðsynlegt er að tekið verði fast á, alveg frá upphafi.
Þessi framganga fólksins er augljóslega tilkomin af vinnubrögðum núverandi dómsmálaráðherra, sem gaf í raun út tilkynningu um að sjálfsagt væri að menn beittu svona aðferðum. Hópur manna safnaðist á dögunum saman við heimili dómsmálaráðherra, æðsta yfirmanns lögreglu og æðsta handhafa framkvæmdavalds í öllu því er lýtur að réttarvörslu og lögum og reglum innan lands. Ráðherrann brást við með því að bjóða öllum komumönnum til fundar við sig í ráðuneytinu og fór þar yfir kröfur hópsins. Hvernig átti þetta fólk að skilja þessi viðbrögð öðru vísi en svo að nú væri sátt um að snúa baráttumönnum að einkaheimilum?
Vilja menn kannski að þetta haldi áfram svona? Sjómenn sitji um heimili starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar? Fiskifræðingar viti að ef þeir mæli ekki með auknum kvóta, þá muni tugir öskrandi manna standa fyrir utan heimili þeirra? Grímubúnir óskilgreindir menn standi fyrir utan heimili forseta Hæstaréttar þegar stór sakamál séu rekin? Þeir sem óánægðir séu með hlutdrægar fréttir fjölmiðla mæti fyrir utan hjá Óðni Jónssyni fréttastjóra og Þórhalli Gunnarssyni yfirútvarpsstjóra og hræði líftóruna úr öllum innanhúss? Forsjárlausir foreldrar safni liði heim til sýslumannsfulltrúa og félagsráðgjafa?
Það sýnir hversu langt af leið, öll umræðan um tjáningarfrelsi og „sjálfsagaðan rétt til mótmæla“ hefur teymt menn. Fólk er ekki svipt rétti til mótmæla þó því sé gert að láta heimili fólks í friði. En undanfarna mánuði hafa lögregla og stjórnmálamenn svo dekstrað svokallaða „mótmælendur“ að þeir ganga sífellt lengra á lagið. Þegar öskrandi grímubúið fólk hindraði ráðherra að komast á ríkisstjórnarfund sögðu ráðherrar Samfylkingarinnar að á ferð væru „sjálfsögð og eðlileg mótmæli“, og svo urðu menn steinhissa þegar ríkisstjórnin gat ekkert.
Ætli fjölmiðlar láti ráðherra komast upp með að fordæma ekki aðförina að heimili forstjóra Útlendingastofnunar? Ætli einhver þeirra spyrji formann BSRB hvort hann telji rétt að menn boði til æsingafunda við heimili opinberra starfsmanna vegna starfa þeirra?