Laugardagur 4. apríl 2009

94. tbl. 13. árg.
Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki, skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga að nýju.
– Úr 79. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland.

M enn furða sig eðlilega á þeirri áherslu sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja á breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins um þessar mundir. Eftir að ráðherrar stjórnarinnar fengu loks útrás fyrir hatur sitt á gömlum andstæðingi sínum úr pólitíkinni hafa breytingar á stjórnarskránni orðið helsta verkefni stjórnarinnar.

Engin leið er að færa rök fyrir því að þessar breytingar snerti á nokkurn hátt hið alvarlega ástand í efnahagsmálum en ríkisstjórnin var þó sögð stofnuð til að leysa þann vanda og ekkert annað. Það sjá allir sem kynna sér efni og greinargerð frumvarpsins.

Skoðanakannanir undanfarið benda hins vegar til að vinstri flokkarnir tveir hljóti meiri hluta á Alþingi í þingkosningunum síðar í mánuðinum. Þeir sjá því einstakt tækifæri í því að troða ýmsum áhugamálum sínum í stjórnarskrána á þessu þingi og eiga vísa seinni samþykkt á næsta þingi. Saman fara mjög sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu og stjórnlaus Framsóknarflokkur sem vinstri flokkarnir styðjast við nú um stundir en ætla að verði óþarfur 25. apríl næstkomandi. Það gæti því farið svo að þetta tímabundna ástand yrði nýtt til að gera breytingar á sjálfri stjórnarskránni sem fengjust hvorki fyrr né síðar samþykktar. Bara akkúrat núna. Ríkisstjórnarflokkarnir geta auðvitað haft sitt fram að þessu leyti á meðan þeir hafa þingstyrk til þess, um það efast enginn. En spurningin er hversu viðeigandi það er að nýta sér þetta ástand til slíkra breytinga.

Önnur meginástæða þessarar áherslu á stjórnarskrárbreytingarnar er að ríkisstjórnin hefur engin önnur mál. Það sést best á því að ríkisstjórnin afþakkar öll boð sjálfstæðismanna um að setja brýn efnahagsmál á dagskrá á undan stjórnarskrármálinu. Ekki verða þau rædd á þinginu eftir að stjórnarbreytingarnar hafa verið samþykktar því þá verður þing rofið.