Fimmtudagur 26. mars 2009

85. tbl. 13. árg.

F réttamenn gerðu mikið úr því í gær að Ögmundur Jónasson tæki ekki við ráðherralaunum fram að kosningum en léti sér þingfararkaup nægja þann tíma. Gaman gaman.

Raunverulegir fréttamenn hefðu spurt Ögmund hvort hann myndi hafa sama hátt á eftir kosningar, og ef ekki, hvers vegna kosningarnar væru sérstakt tímamark í þessu efni.
Næst hefðu raunverulegir fréttamenn spurt ráðherrann hvort hann hvetti þá aðra ráðherra til að fara að dæmi sínu, til dæmis fjármálaráðherrann. Úr því heilbrigðisráðherrann teldi sig vera að senda skilaboð með ákvörðun sinni, hvort aðrir ráðherrar væru þá að senda gagnstæð skilaboð. Og svo framvegis. En svona spurningar fá ráðherrar minnihlutastjórnarinnar ekki á Íslandi.

Og svo hefðu nú einhverjir fréttamenn komið sér til þess að segja frá því hvaða þingmaður það er sem hefur fengið mest í vasann af samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ á sínum tíma. „Ósómans“ sem vinstrigrænir kölluðu frumvarpið úr ræðustólum. Ætli það væri jafn vandlega þagað um það, ef einhver annar þingmaður hefði þegar fengið um 15.000.000 króna eða svo í sinn hlut vegna frumvarpsins, en hrópi á fundum um að gildistími laganna hafi verið „langur og leiðinlegur kafli í þingsögunni“.

Án gamans. Fréttamenn hafa enn ekki séð ástæðu til að segja frá því hvaða þingmenn hafa grætt mest á samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ um árið.

E itthvað eru nú Sjálfstæðisflokknum mislagðar hendur í stjórnarandstöðunni. Skiljanlega vill flokkurinn ekki taka þátt í illa undirbúnum og mikið til óþörfum stjórnarskrárbreytingum – sem þar að auki koma efnahagsástandinu ekki nokkurn skapaðan hlut við – og hefur þar góðan málstað að verja. En í einhverjum sáttamisskilningi hefur flokkurinn tekið upp á því að bjóða samstöðu um að breyta stjórnarskránni á þann hátt að framvegis verði auðveldara að breyta henni.

Það væri stórhættulegt skref að stíga og í raun skemmdarverk. Það er eitt meginatriða stjórnarskrár að það sé ekki hlaupið að því að breyta henni. Það er það sem gerir hana að stjórnarskrá. Að henni sé sárasjaldan breytt, og þá ekki nema að vandlega íhuguðu máli og vegna nokkuð almennrar samstöðu um nauðsyn breytingarinnar. Stjórnarskrá á að vera fáorð skrá um grundvallarreglur sem gilda kynslóð fram af kynslóð. Því auðveldara sem verður að breyta stjórnarskrá, þeim mun minni verður virðing hennar. Stjórnarskráin færist einfaldlega nær almennum lögum.

Það eru hrein og klár skemmdarverk á hverri stjórnarskrá að vinna sérstaklega að því að breytingar á henni verði auðveldari.