Miðvikudagur 25. mars 2009

84. tbl. 13. árg.

H agfræðin kennir að menn og raunar konur líka vilja fremur meira af veraldlegum gæðum en minna. Hvort heldur fólk vill kenna þessa viðleitni við græðgi eða sjálfsbjargarhvöt að þá er aðdráttarafl hennar vitanlega jafn sterkt í stjórnmálum og viðskiptum. Það skyldi því engan undra að yfirboð hafi aukist í íslenskri pólitík eftir því sem fleiri hagfræðingar hafa haslað sér völl innan hennar.

Fyrstur reið á vaðið nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins og næstum því doktor í hagfræði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og boðaði 20% niðurfærslu húsnæðislána óháð greiðslugetu lántaka. Dr. Tryggvi Þór Herbertsson tilvonandi þingmaður Sjálfstæðisflokks gat auðvitað ekki látið skynsemi flækjast fyrir atkvæðaveiðum og lýsti sig sammála hugmyndinni.

Að því tilefni kom dr. Gylfi Magnússon, brosmildi hagfræðingurinn, á óvart og skopaðist að lýðskrumi Tryggva Þórs í grein í Morgunblaðinu. Háðsádeila Gylfa fjallaði um þrjá menn þá Tryggva, Þór og Herbert.

Vinstri Grænir ætla ekki að láta sitt eftir liggja í pólitísku yfirboðum og í Kastljósinu í fyrrakvöld kynnti dr. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur nýja almenna lausn við sértækum vandamálum, flata niðurfærslu á lánum. Vitanlega er lausn hennar engu skárri en hinna, en dr. Gylfa er væntanlega nokkur vandi á höndum vilji hann halda uppteknum hætti, enda Lilja löngu kveðin og Mósebækur komnar á prent.

R íkisendurskoðun hefur upplýst hverjir styrktu stjórnmálaflokkana á árinu 2007. Þar kemur í ljós að skattgreiðendur eru langstærstu styrkveitendurnir. Um 420 milljónir króna fóru úr vösum skattgreiðenda til flokkanna árið 2007. Flokkarnir eru í raun ríkisstofnanir. Þiggja nokkrar aðrar stofnanir álíka ríkisstyrki án þess að gera grein fyrir í hvað þær eyddu þeim?