Mánudagur 2. mars 2009

61. tbl. 13. árg.

Í lýðræðisríki eru kosningalög með þeim allra mikilvægustu. Afar áríðandi er að menn geti treyst að ekki sé hringlað með þau, breytingar gerðar að vandlega ráðnu máli, án tillits til hagsmuna stjórnarmeirihluta hverju sinni og helst á þeim tíma er langt er til kosninga, svo minni hætta en ella sé á því að breytingar séu hugsaðar vegna stundarhagsmuna.

Nú stefnir í að renni í gegnum alþingi, á síðustu dögum fyrir kosningar, frumvarp sem breyta myndi reglum um kosningarétt íslenskra ríkisborgara erlendis – tímabundið – og veita þeir rétt við þessar kosningar, þrátt fyrir að þeir uppfylli ekki þau skilyrði sem verið hafa í gildi áratugum saman. Þessi skyndibreyting mun komin til vegna þrýstings frá einu landi þar sem hópur manna var orðinn æstur yfir að vera ekki á kjörskrá, þrátt fyrir að hafa haft öll tækifæri til að bæta úr því, fram að 1. desember síðastliðnum. Það er einfaldlega mjög athugavert ef menn ætla að hringla með kosningalög á síðustu vikum fyrir kjördag og vekur illar grunsemdir um að annarleg sjónarmið búi að baki. Hér, eins og víða annars staðar, er rétt að þingmenn taki frumvörpum af varúð – og sífellt verður meira áberandi að lagafrumvörpin sem berast þinginu koma efnahagsástandinu ekkert við, en eru um flesta aðra hluti.

R íkissjónvarpið er engu líkt, að minnsta kosti ekki deildin sem það heldur úti og kallar fréttastofu. Í kvöld tókst henni að setja þau tíðindi að formaður Framsóknarflokksins, sem ver ríkisstjórnina falli, telji stjórnarflokkana alls ekki hafa uppfyllt skilyrði Framsóknarflokksins fyrir þeirri ólánsákvörðun, sem aðra frétt. En fyrsta frétt var hins vegar áframhaldandi tal um mennina sem sendu frá sér frumdrög að ályktun undirnefndar endurreisnarnefndar efnahagslífsins, sem starfar á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Fréttin var vitaskuld gerð af Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur og var þar hamrað á því að flokksforystan og seðlabankinn væru gagnrýnd harðlega. Ekki þótti hins vegar ástæða til að geta þess, að gagnrýnin á seðlabankann í drögunum er fyrir atriði sem alls ekki voru á hans verksviði heldur fjármálaeftirlitsins. Raunar hefur enginn fjölmiðill haft áhuga á því forvitnilega atriði og hafa þeir þó nægan áhuga á skýrsludrögum þessara manna.

Og minna fréttaefni fannst „fréttastofunni“ að Framsóknarflokkurinn telji stjórnarflokkana ekki fara eftir því sem um hefði verið samið við stjórnarmyndun, að engin úrræði kæmu frá stjórninni í efnahagsmálum, að ráðherraræðið væri allt of mikið og að sérstaklega hefði verið of mikil áhersla verið lögð á seðlabankastjórafrumvarpið. Þetta vék allt fyrir endurteknu efni um skýrsludrög undirnefndarinnar. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins er ótrúleg.