Helgarsprokið 1. mars 2009

60. tbl. 13. árg.

Í dag eru 20 ár liðin frá því Íslendingum var leyft að kaupa sér bjór í eigin landi, annars staðar en í fríhöfninni. Það gekk ekki auðveldlega að fá það leyft, en forræðishyggjumenn á þingi vildu hafa vit fyrir fólki á þessu sviði eins og öðru. Manna harðastur gegn þessu frelsi var að sjálfsögðu Steingrímur J. Sigfússon. Hann sá ekkert gott við að fólki yrði leyft að kaupa sér bjór:

Ég hef ævinlega reynt að leggjast gegn því að menn fjölluðu um þetta mál í svarthvítum litum. Hlypu ofan í skotgrafirnar og væru annað hvort 100 % með eða 100 % á móti. … Fyrir mér hefur þetta mál tvær hliðar, eins og öll önnur. Aðra slæma og hina sem er ekki eins slæm.

Og hann hafði meira að segja sérstaka ástæðu fyrir því að vilja banna venjulegu fólki að fá sér bjór:

Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera.

Steingrímur J. Sigfússon treystir ekki Íslendingum til þess að kaupa sér einn lítinn bjór. Hann ætlast hins vegar til þess að þeir treysti honum fyrir ríkiskassanum. Raunar á flestum sviðum telur Steingrímur sig tilvalinn til að hafa vit fyrir borgurunum. Er ekki kominn tími til að landsmenn endurgjaldi Steingrími áratugalangt vantraust hans?

  • Vel á minnst, enn hefur enginn ljósvakamiðill sagt frá því hvaða þingmaður það er sem hefur hagnast persónulega manna mest á „eftirlaunafrumvarpinu“ sem samþykkt var fyrir fimm árum.
     
  • Stjórnmálamenn virðast flestir geta sagt hvað sem er. Steinunn V. Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar skrifar grein í nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins undir fyrirsögninni „Reisn alþingis“. Og hún virðist hafa stóraukist á síðustu vikum, ef marka má Steinunni Valdísi: „Í því ljósi er ánægjulegt að sjá að frá því minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tók við eykst vægi þingsins. Framkvæmdavaldið þarf að treysta á stuðning og beina aðkomu þingmanna.“ Hvað ætli fái Steinunni til að bera þetta á borð fyrir lesendur sína. Ríkisstjórnin hefur komið einu máli áleiðis og allir vita hvaða mál það var. Þar gekk allt af göflunum þegar einn þingmaður framsóknarflokksins, í þeirri þingnefnd sem fjallaði um málið, vildi að nefndin fengi tvo daga til að kynna sér gögn í málinu. Jóhanna Sigurðardóttir gekk um ganga og hrópaði á þingrof, Mörður Árnason hótaði opinberlega að aftur yrði byrjað að stefna fólki að þinghúsinu með potta og pönnur, og skelfingu lostin Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir talaði í „fréttum“ um „kúvendingu“ framsóknarmanna. Þingmaðurinn ungi lét sér segjast og framsóknarflokkurinn fór aftur á básinn þar sem hann situr áhrifalaus og fylgið minnkar aftur. Og Steinunn Valdís sest niður og skrifar grein um reisn alþingis og stóraukin áhrif þingmanna eftir að minnihlutastjórnin tók við. Opinber umræða á Íslandi er furðuverk.
     
  • Sjálfstæðisflokkurinn stofnsetti „endurreisnarnefnd“ til að gera tillögur að uppbyggingu efnahagslífsins, undir forystu Vilhjálms Egilssonar. Nefndin heldur opna fundi og þeir sem þar mæta geta myndað undirhópa. Einn slíkur var myndaður og hefur sent frá sér „fyrstu drög“ að sinni niðurstöðu. Álitsgjafar og fréttamenn hafa mikinn áhuga á þessum frumdrögum þó textinn minni raunar stundum helst á bloggtexta eins og hellist yfir úr öllum hornum. Meðal spekiorða undirhópsins er að seðlabanki Íslands er harðlega gagnrýndur – fyrir að leyfa bönkunum að safna erlendum innlánum og er Icesave sérstaklega nefnt. Þykir hópnum þetta hafa verið „stærstu mistök SÍ“. Hópnum til huggunar má benda á að það var að vísu fjármálaeftirlitið hér á landi og erlendis en ekki Seðlabankinn sem hefði getað stöðvað það að menn nýttu sér reglur evrópska efnahagssvæðisins um starfsemi fjármálafyrirtækja erlendis.
     
  • Ákvæðin sem Landsbankinn nýtti sér til að stofna útibú erlendis eru í samræmi við 20. gr. tilskipunar 2000/12/EB. Allt eftir bókinni frá Brussel. Það vantaði ekki að um mestu mistökin sem gerð voru á síðustu árum í rekstri íslensku bankanna voru reglur og eftirlit við hvert fótmál.
     
  • Stjórnvöld virðast enn halda að þau komist upp með að setja erlendan ríkisborgara í íslenskt embætti og fréttamenn hafa lítinn sem engan áhuga á málefninu enn sem komið er. Þeir sem hátt hafa talað um að sækja aðra til saka fyrir að fara ekki að lögum, virðast æ oftar telja sjálfum sér óþarft að fara eftir þeim og stjórnmálamenn sem lengi hafa hrópað að „stjórnarskráin verði að njóta vafans“ hafa núna nákvæmlega engar áhyggjur af henni.
     
  • Í dag hefðu laun opinberra starfsmanna átt að hækka, samkvæmt kjarasamningum þeirra. Ekkert verður hins vegar af hækkuninni samkvæmt splunkunýju samkomulagi ríkisins og samtaka opinberra starfsmanna. Formaður BSRB situr í ríkisstjórninni.
     
  • Ögmundur Jónasson fór vissulega í leyfi sem formaður BSRB þegar hann varð ráðherra, en sagði ekki af sér formennskunni. Það var meira að segja hugsað fyrir því að tveir menn gegni henni í senn, nú þegar hann situr í ríkisstjórn. Ekki væri gott ef arftaki kæmist í sjónmál.
     
  • Gylfi Magnússon dósent og viðskiptaráðherra hefur árum saman verið stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins og taldi áður en hann varð ráðherra að allir sem hefðu komið að skipulagi íslensks atvinnulífs ættu að segja af sér, nema stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. Enginn fréttamaður spurði hann um þetta. Þegar hann varð ráðherra í því ráðuneyti sem Samkeppniseftirlitið heyrir undir, ákvað hann að fara í leyfi sem stjórnarformaður þess, en segja ekki af sér formennskunni. Enginn fréttamaður ræðir það við hann. Enginn fréttamaður spyr hvort hægt sé að fara í leyfi frá skipun í stjórnsýslunefnd. Og enginn fréttamaður spyr heldur, hvaða ráðherra hafi þá veitt Gylfa Magnússyni leyfið.
     
  • Gylfi Magnússon hélt ræðu á dögunum og gagnrýndi harðlega skort á samkeppni á Íslandi. Fréttamönnum fannst þetta merkileg ræða og álitsgjafar klöppuðu. Nú væri loksins kominn maður sem vissi sínu viti. Enginn þeirra nefndi að Gylfi hefði árum saman verið stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. En já, Ögmundur vill ekki sleppa BSRB. Gylfi vill ekki sleppa Samkeppniseftirlitinu. En þeir eru mjög áfram um að knýja aðra til afsagnar. Menn eru reknir eða sendir í „leyfi“ fyrir engar sakir. En sjálfir vilja herrarnir engu sleppa.
     
  • Maður nokkur var handtekinn í gær fyrir þann óvenjulega glæp að reyna að brjótast inn á Litla-Hraun. Maðurinn náðist, en hvernig á að refsa honum?