Miðvikudagur 25. febrúar 2009

56. tbl. 13. árg.
Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%.
– Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður í þingræðu í nóvember 2004.

F yrir þingkosningar vorið 2003 snéri Framsóknarflokkurinn vörn í sókn með sniðugum auglýsingum um húsnæðismál. Nú þyrfti enginn að búa heima hjá mömmu og pabba fram yfir fermingu því ríkið myndi lána öllum fyrir því sem næst öllu, fengi flokkurinn til þess fylgi. Forystumenn flokksins bættu því svo við að með því að hækka lánshlutfallið í 90% úr 65% gætu landsmenn einnig losað sig við óþægileg yfirdráttarlán. Við þetta tækifærði spurði Vefþjóðviljinn hvort ekki væru fleiri lán til ama:

Hvað með öll bílalánin, spyr Vefþjóðviljinn, sem eru með hærri vexti en húsbréfalán? Ætli séu ekki nokkrir milljarðar þar á alltof háum vöxtum? Væri ekki hægt að bæta líf hins almenna manns þokkalega með því að hafa niðurgreiddu húsnæðislánin 100%? Þá gæti hann losað sig við bílalánin og notið hinna hagstæðu lánakjara ríkisins. Og hvað alla raðgreiðslusamningana? Ef húsnæðislánin væru 110% gætu menn endurnýjað fellihýsið og gert betur við sig á Benidorm án þess að verða áskrifendur að háum kreditkortareikningum.

Og Framsóknarflokkurinn fékk fylgi sem dugði honum til þess að efna það kosningaloforð sitt að Íbúðalánasjóður lánaði 90%. Jóhanna Sigurðardóttir klappaði í þingsölum. Eftirleikinn þekkja allir. Bankarnir svöruðu þessu með sambærilegu boði og fasteignamarkaðurinn blés út eins og bóla á næstu árum og sprakk svo sem ein slík.

Nú eru að koma kosningar og Framsóknarflokkurinn er aftur kominn á kreik. Kosningaloforðin? Jú 20% niðurfelling 90% húsnæðislánanna. Framsóknarflokkurinn er búinn að stela hugmyndinni um 110% húsnæðislán sem Vefþjóðviljinn nefndi í gríni fyrir sex árum. Ekki í fyrsta sinn sem menn misskilja aðeins.