Þriðjudagur 24. febrúar 2009

55. tbl. 13. árg.

J óhanna Sigurðardóttir endurtekur sífellt þá þulu að ekki sé hægt að bjarga efnahagsmálum af því að… seðlabankastjórarnir njóti ekki trausts erlendis. Þess vegna verði að reka þá, og án þess að þeir hafi gert neitt sem myndi réttlæta brottrekstur. Enginn fjölmiðill gerir athugasemd eða lætur hana standa fyrir máli sínu.

Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri var flæmdur úr starfi fyrir viku. Norski seðlabankinn er þegar búinn að ráða hann til sín sem sérstakan ráðgjafa um störf seðlabanka.
Ingimundur Friðriksson sagði á dögunum að fullur einhugur hefði verið í bankastjórn Seðlabanka Íslands um öll mál þar. Leiðinlegt að norski seðlabankinn hafi ekki heyrt það sama og Jóhanna og álitsgjafarnir í þáttunum og á bloggsíðunum um að íslenski seðlabankinn sé „rúinn trausti”.

T alað var við Jóhönnu Sigurðardóttur á forsíðu Fréttablaðsins í dag og þar útskýrði hún af hverju það er alveg svakalega hræðilegt að seðlabankastjórafrumvarp Samfylkingar og Vinstrigrænna, sem þeir telja sig hafa heimtingu á að framsóknarmenn stimpli, tefjist um tvo daga:

Við erum að fá hingað til lands fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, væntanlega á fimmtudaginn. Það verður að vera komin festa í starf bankans til að fulltrúar AGS geti rætt við bankastjóra sem ekki eru á förum úr bankanum, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Endurnýjun þar er nauðsynleg til að endurreisa trúverðugleika Seðlabankans innanlands og utan,

Já, þeir mega ekki hitta seðlabankastjóra sem eru á förum úr bankanum sko, segir Jóhanna Sigurðardóttir við landsmenn. En svo vill nú til að í hennar eigin lífsnauðsynlega frumvarpi stendur orðrétt:

Við gildistöku laga þessara er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar. Forsætisráðherra skal svo fljótt sem við verður komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar samkvæmt ákvæðum laga þessara.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra við gildistöku laga þessara setja tímabundið menn sem uppfylla skilyrði laga þessara í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Um þessa tímabundnu setningu gilda ekki ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Settur seðlabankastjóri og settur aðstoðarseðlabankastjóri skulu gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga samkvæmt ákvæðum laganna.

Og hvað hafa nú margir fjölmiðlamenn bent á þetta? Ætli þeir hafi svo mikið sem litið á frumvarpið eða umsagnirnar sem hafa borist um það? Eru þeir kannski allir á eftir Höskuldi Þórhallssyni, illmenninu sem leyfir sér að kynna sér gögn í staðinn fyrir að hneigja sig bara og hlýða. Og enginn telur sig þurfa að spyrja Jóhönnu Sigurðardóttur um neitt. Hún er líka svo heiðarleg.